29.10.2009 | 17:24
DAGUR ÚR LÍFI MEISTARA ÞÓRBERGS.
Nú um sinn er að okkur Íslendingum vegið og eru lífskjör
með daprasta móti hjá alþýðu manna árið 2009.
Til samanburðar þá svarf mjög að almenningi á þessu landi,
árið 1915 vegna lífskjarahruns og var meistari Þórbergur Þórðarson
þar engin undantekning.
Dagur úr dagbók hans, 17. nóvember 1915:
Nú er komin helvítis votviðraátt. Hún á illa við mig.
Ég er oftast skólaus og alltaf rennblautu í lappirnar, ef deigur dropi
kemur úr lofti. Ég get eigi sagt að ég hafi verið þurr í fætur í 5 ár.
Guð minn góður, hvar lendir þetta?
Og ég hefi ekki haft efni á að láta þvo nærfötin mín síðan í ágúst
í sumar.
Síðan hefi ég gengið í sömu görmunum.
Utanyfirfötin eru orðin svo skítug og rifin, að ég skammast mín að
koma fyrir almennilega menn. En engan útveg sé ég.
Nú hefi ég gengið svo að segja á sokkunum í viku.
Megnustu nálykt leggur af rúmfötunum, þegar þau hitna á nóttinni.
Stundum verð ég að sitja í myrkri vegna olíuleysis.
Oft liggur mér við að örvænta.
Ég er að reyna að brjóta mér leið til menntunar og þekkingar
og vil verða sannarlega nýtur maður.
En helvítis lífið og mennirnir, sem ég á saman við að sælda fara
með alla góða ásetninga mína.
Þeir ljá mér ekki orðabók, sem eiga þær, þótt mér sárliggi á og geti
ekki lesið vegna bókaleysis.
Það hefi ég sannreynt.
Ég er að sökkva.
Heilsa mín er á förum, þótt ég geri allt sem ég get, til þess að halda
henni við, svo með líkamsæfingum, böðum o.fl.
Mér líður aldrei vel, nema þegar ég er nývaknaður á morgnanna
ef ég hefi þá sofið vel yfir nóttina; en á því vill verða brestur.
Mennirnir eru mér vondir og ég er heldur ekki heldur góður við þá og
margt má auðvitað að mér finna.
Mér finnst ég vilji deyja.
Ég get varla lifað lengur; hefi enga gleði af lífinu, þegar ástæðurnar
ræna mig rósemi og næði,
rífa mig og tæta í sundur og draga mig niður í sorpið.
Kannski má segja,
að vandi okkar í dag sé léttvægur
miðað við þær aðstæður alþýðu manna fyrir
nítíu og fjórum árum síða?
![]() |
Bati í augsýn um mitt ár 2010 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2009 | 18:59
Ó, PRÓSENT, GRÓÐI, GRÓÐI OG GULL Í SPARISJÓÐI VESTMANNAEYJA.
Þegar ég var ungur og las
bráðskemmtilega bók um hann Bör Börsson jr. sem sagði það,
að peningar væru æðstu gæði á þessari jörð og enginn hlutur annar
gæti gert manninn eins glaðan og sælan og þeir.
Það var hans æðsta markmið í lífinu frá blautu barnsbeini að
eignast stóra bankabók -- bankabókin væri besta bókin í
heiminum.
Þetta varð einskonar "mottó" fyrir marga og því miður fyrir þann sem
þetta ritar.
Byrjunin var sú að "við" tveir ungir menn ætluðum okkur stóra hluti
á braut "höndlunar" og nú fóru í gang allskonar þreifingar til útvegunar
á vörum í umboðssölu m.a.- Það gekk á ýmsu en allt tosaðist það í
rétta átt.
Þá var það að útvega húsnæði fyrir "forretninguna" og varð að ráði,
að talað var við bæjarstjórann í Eyjum sem þá var árið 1963, hann
Jóhann Friðfinnsson. Hann var allur að vilja gerður og sagði það
guð velkomið mál, að við fengjum að vera á jarðhæð
Templarahallarinnar (nú Bæjarleikhúsið) með því skilyrð,
að við hreinsuðum glerbrotin úr gluggum hússins, en eins og elstu
menn muna var búið að glerja Templarann, en brjóta allt gler og
glerbrotin ein eftir.
Því lofuðum við bæjarstjóranum og lenti það verk að öllu í minn hlut.
Þá var bara að flytja inn og skýra "forretninguna" og fékk það ágæta
nafn, HNOTAN s/f.
Nú gerðist það eins og hjá honum Bör að heildverslunin gekk með lífi og
fjöri, - hvert vöruhlassið kom af öðru - ölkassar, smjörlíki, sælgæti,
hreinlætisvörur,
álegg allskonar, saltkjöt í tunnum, reykt folaldakjöt í hundraða kílóa
vís og meira að segja þorskanet.
Ekki þótti nóg að gert með allt þetta, heldur var fest kaup á gamalli
kaffibrennslu vél frá Akureyri.
Hún gekk nokkuð vel eins og annað það sem við tókum okkur fyrir
hendur til að láta draumana rætast um stóra bankabók.
Svo langt náði þetta að sérhannaðar umbúðir voru gerðar af
Sigmundi teiknara og má sjá hérna sýnishornið.
Mann varð að ráða í verkefnin, sem nú voru orðin ærin og pantað
höfðum eitt tonn af kaffibaunum beint frá Brasilíu.
Ekki vildi nú betur til en svo hjá nýráðnum starfsmanni okkar,
að eldur varð laus í hisminu sem kemur við brennslu baunanna og
vélin skemmdist það mikið að ekki borgaði sig að gera við.
Ekki gáfust upp hinir trúu sporrekendur Bör Börssonar jr.
Nú var ekkert sem dugði minna en gerast smásalar einnig og var
í skyndi gerð kaup á verslanahúsnæðinu,
Faxastíg 35, sem ný hýsir kvenfélagið Líkn.
Það húsnæði var fokhelt en eldmóðurinn stoppaði ekkert hina nýju
"Böra".
Nokkra mánuði tók það skrifara og þann sem við réðum núna,
Lýð nokkurn Brynjólfsson kennara Iðnskólans til að koma
húsnæðinu í nothæft ástand.
Ég hugsa með hlýhug og ánægjulegs sumars, þegar við Lýður
unnum hörðu höndum að frekari upphafningu okkar ungu félaganna
til efstu hæða "Mammons"
Allt gekk þetta eftir og verslunin sett á koppinn, sem fékk nafnið
"Bláfell" og sú nýlunda tókum við upp, að afgreiða mjólkurhyrnur
með vörunum sem pantaðar voru og sendar vítt og breytt um bæinn.
Salan var góð í þessu nýja afsprengi gróðahyggjunnar,
en einhvern tíman hlaut að koma að skuldardögum fyrir allt þetta
brambolt.
Og einn góðan veðurdag hrundi allt eins og spilaborg.
Sá sem þetta ritar var í fimm ára með skuldahalann á eftir sér,
þrátt fyrir að vinna miklið, sem þá bauðst í Ísfélagi Ve. Ótakmörkuð
vinna og mikil laun sem öll, eða nærri öll fóru í að greiða
fyrir árin þrjú, sem áttu að færa okkur félögunum
auð og undralönd.
Dægurmál | Breytt 28.10.2009 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2009 | 17:59
HÉR ER KENNARI, UM KENNARA, FRÁ VESTMANNAEYJUM.
Kennarar við Barnaskólann í Eyjum talið frá vinstri: Óþekktur, Þórarinn Magnússon, Arnþór Árnason og Friðrik Pétursson.
Það eru að nálgast sex tugir ára síðan bloggar síðunnar var í
barnaskólanum í Vestmanneyjum.
Mín fyrstu spor á menntabrautinni voru í 1 bekk A undir skeleggri
leiðsögn aðalkennara míns, Þórarins Magnússonar veturinn 1949 og
fram á vor.
Þegar í annan bekk var komið var Páll Steingrímsson minn
aðalkennari og einnig í fimmta og sjötta bekk.
Páll var þá ungur enn og sagði okkur fræknar sögur af sjálfum sér og
þá sérstaklega þegar hann var í Kanada. Hann barðist við óargadýr
og það sem mér þótti einna merkilegast,
hann spældi egg á brennheitri gangstéttinni í borginni sem hann dvaldi í.
Einhverju sinn man ég eftir því, að við fengum heimsókn í bekkinn okkar
sjálfan menntamálaráðherra Íslands,
Bjarna Benediktsson.
Páll Steingrímsson ungur enn. Baksvipurinn á Vali Oddsyni frá Dal og svo Guðlaug Ólafsdóttir. Myndin tekin í Stafnsnesi 1954 og var þá fimmti bekkur þar á skemmtigöngu.
Páll var afbragðs kennari, líflegur og lífsglaður og þótti mér ávallt mjög
vænt um hann.
Friðrik Pétursson var minn aðalkennari í þriðja og fjórða bekk hann var
vandaður og nákvæmur í sinni kennslu.
Hjá honum reyndi ég fyrst fyrir mér í leiklistinni, þegar bekkurinn
gekkst fyrir leiksýningu fyrir jólin og minnir mig að það hafi verið tengt
jólahátíðinni.
Arnþór Árnason kenndi mér eitthvað lítillega og man ég helst eftir hvað
krakkarnir létu illa hjá honum,
því hann var meinlaus og góður maður og tók ekki hart á
ólátabelgjunum í bekknum.
Karl Guðjónsson kennari, bæjarfulltrúi og alþingismaður. Arnþrúður
kona hans og tvær dætur þeirra, Sunna og Harpa.
Hjá Karli var ég í söngtíma sem kallaður var og var ég lítt hrifinn
af þeirri iðju þar sem ég var vita laglaus.
Það man ég frá árinu 1953 í aðdraganda alþingiskosninga,
að faðir minn bað mig að bera út dreifimiða undirrataðan af Halldóri
Kolbeins sóknarpresti.
Dreifimiðinn innihélt yfirlýsingu frá sóknarpresti, að Karl hefði aldrei
jarðað barn sitt í kirkjugarðinum og notað til þess kolaskóflu.
Óábyrgur aðili hélt þessu fram um Karl í rituðu máli.
Þannig var nú pólitíkin í þá daga.
Að lokum kemur svo hann Kjartan Ólafsson kennari og konan hans,
Sigríður Bjarnadóttir.
Ekki man ég eftir því hvað Kartan kenndi mér, en hann var ávallt
ljúfur og góður maður.
Má segja í lokin, að við Vistmannaeyingar áttum
einvalalið kennara fyrir hálfri öld síðan.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.10.2009 | 20:31
ALLTAF LÍF OG FJÖR Í EYJUM.
Ættarlaukurinn með ÍBV fánann ásamt sonum sínum á KR vellinum í sumar.
ÍBV hjartað sló óvenju hratt í dag, þegar í fréttum mátti lesa það
að Andri Ólafsson fyrirliði ÍBV í sumar hafi valið að spila áfram hér í
Eyjum frekar en að gerast liðsmaður Grindavíkur.
Einnig það að Tryggvi Guðmundsson væri genginn til liðs við sitt gamla
félag ÍBV.
Ásgeir Aron sonur Ásgeirs Sigurvinssonar kemur einnig til liðs við
okkur hérna í Vestmannaeyjum og er það hið besta mál.
Ég býð þá félaga velkomna til Eyja.
Þrátt fyrir liðstyrkinn í þessum tveimur köppum, sýnist mér ennþá
vera pláss fyrir tvo til þrjá til viðbótar, því fimm leikmenn
hafa þá þegar farið frá ÍBV í haust.
Ég vona, að knattspyrnuráð leggi nú aðaláhersluna á það,
að fá til liðs við ÍBV góðan framherja.
![]() |
Tryggvi: Spennandi tímar í Eyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2009 | 16:21
ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON VESTMANNAEYJUM.
Í dag eru 110 ár frá því Þorsteinn Þ. Víglundsson fæddist.
Í tilefni þess minnist ég hans nokkrum orðum.
Þeir sem nú eru á besta aldri muna hann Þorstein, sem skólastjóra
Gagnfræðaskólans hér í Eyjum.
Sparisjóðsstjóra og "prímus mótor" Byggðarsafns Ve.
Bæjarfulltrúi Framsóknarfl. og ritstjóri Framsóknarblaðsins.
Útgefandi skólablaðs Gaggans Blik og fleira mætti til telja.
Bloggari síðunnar var svo heppinn að kynnast Þorsteini.
Fyrst sem nemandi í Gagganum og einnig eftir Gagnfræðapróf
sumarið 1957 vann ég við lóð skólans og fleira sem tengdist Gagganum.
Þorsteinn kom oft á morgnanna og var algjör hamhleypa við vinnuna
og þegar hann svo hætti um hádegi var hann búinn að setja mér fyrir
verkefni dagsins, sem oftast nægði her manns að klára þann daginn.
Þannig var Þorsteinn kappsfullur og fullur orku,
sem hann lá ekkert á,
þegar verk þurfti að vinna.
Nokkra mánuði vann ég hjá honum í Sprisjóðnum og ætlaði mér að
verða gjaldkera og í framhaldinu vildi hann sjá mig sem arftaka sinn,
en ekki var ég á þeim buxunum í þá daga.
Hann var ávallt mjög ljúfur og skemmtilegur, ræðinn og hafði sterkar
skoðanir á mönnum og málefnum.
Þorsteins mun ég ávallt minnast með hlýhug.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2009 | 15:20
VALINN-KUNNIR VESTMANNAEYINGAR.
Hér má sjá nokkrar valinn-kunnar manneskjur úr Vestmannaeyjum.
Myndin tekin árið 1965 í Þórskaffi.
Frá vinstri fremst:
Þorkell nokkur Sigurjónsson, þá hún Kristrún Axelsdóttir og hann
Sigmar Pálmason.
Vinstra megin fjær er útgerðarmaðurinn og skipstjórinn
Gunnar Jónsson, þá lautarpeyinn Helgi Sigurlásson og sá
með vindilinn Björn Ívar Karlsson læknir.
Helst er ég á því að Helgi, Björn og Sigmar hafi verið fyrr um
daginn að leika fyrir ÍBV, en við hverja man ég ekki.
Kannski man Helgi Sigurlásson vinur minn það ?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2009 | 17:27
LJÓSIÐ Í MYRKRINU.
Nú á tímum eru flestir hlutir sem einkennilegir, dularfullir og
yfirskilvitlegir þykja og ekki verða skýrðir með hjálp viðurkenndra
þekkingar-staðreynda, taldir til hjátrúar og hindurvitna.
Þeir sem taka mark á kynlegum hlutum eru á mörkum þess,
að teljast heilbrigðir.
Þegar svo ber við, að einhver verður fyrir einhverskonar
"reynslu", sem framandi er og óútskýranleg skilningsþroska
hins venjulega manns,
þá fer sama fólk venjulega dult með reynslu sína, því að það kærir
sig eðlilega ekki um að verða að atlægi fjöldans og þeirra,
sem eru svo fróðir, að þeir geta fullyrt,
hvað er náttúrulegt og hvað yfirnáttúrulegt, eða hvað er raunveruleiki
og hvað er heimska og hugarburður.
Þrátt fyrir að bloggari byrji hér með hugleiðingu og kannski örlítilli vörn
fyrir þeirri reynslu sem hann greinir hér frá,
tek ég því eins og maður,
hvað fólk álítur.
Fyrir nokkrum árum, þegar hér í Eyjum var loðnuvertíð í fullum
gangi og konan mín vann á vöktum við pökkun á loðnu.
Þessa umrædda nótt, sem ég segi hér frá fór konan til vinnu
nokkru fyrir klukkan fjögur og úti var svarta myrkur.
Fljótlega eftir að konan var farin sofnaði ég.
Um það bil klukkustund síðar rumska ég augnablik og finnst eins og
ljósi hafi brugðið fyrir í svefnherberginu,
og allt í einu vakna ég til fullrar meðvitundar og
í svefnherberginu er orðið albjart.
Ég ligg á hliðinni og horfi þrumu lostinn á loft ljósið í svefnherberginu
speglast í glerinu á mynd sem ég horfi á frá hjónarúminu.
Þetta varði í nokkrar sekúndur, en nógu lengi til þess að ég var
glans-vaknaður og varð fyrsta hugsun mín sú, að konan væri nú komin
heim.
Einnig fór í gegn um hugann að þetta væru bílljós, eða ljósagangur
úti við,
en fyrir svefn herbergis glugganum voru þykk glugga- tjöld þannig,
að það gat ekki staðist.
Framúr fór ég til að athuga hvort konan væri komin heim úr vinnu,
en ekki var það, enginn í íbúðinni nema ég.
Þegar ég gerði mér það ljóst, að hérna hafði gerst eitthvað
óútskýranlegt,
varð ekki laust við að ég væri gripinn nokkrum ugg.
Enn í dag er þetta atvik óupplýst fyrir mér. En þar sem ég
hafði oft í bænum mínum til margra ára,
ákallað "æðri mátt" mér til hjálpar og fulltingis,
þegar ég í hugarangri mínum lá andlega og líkamlega lemstraður eftir
glímuna við Bakkus og hugsun mín sú,
að ef Guð myndi birtast mér á einhvern hátt ,
þá yrð breyting á mínu lífi til hins betra.
Ég leyfi mér allavega að túlka þessa reynslu nóttina góðu
þannig,
að Guð hafi séð aumur á mér
og látið vita af sér á þennan hátt.
Í bókinni "Lífsviðhorf Bills" segir hann frá atviki sem segir frá því,
þegar hann lá í sjúkrastofu og hugarangur hans varð óbærilegt og
honum fannst hann vera sokkinn til botns í glímunni við Bakkus.
Ég vissi ekki fyrr en ég var farinn að hrópa:
Ef Guð er til þá sanni hann sig.
Ég er reiðubúinn til að gera hvað sem er!
Skyndilega birti og stofan var böðuð hvítu skæru ljósi.
Mér fannst ég staddur á fjalli og um mig andblær sem ekki var af
þessum heimi.
Mér fannst allt í einu ég vera frjáls maður.
Smám saman hvarf sýnin.
Ég lá í rúminu en góða stund var ég í öðrum heimi,
nýjum vitundarheimi.
Ég var fullur vellíðunar og fann enn návist Hans og hugsaði með mér:
"Svo þetta er þá Guð prédikaranna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2009 | 18:18
ÓLAFUR HALLDÓRSSON VAR LÆKNI Í EYJUM UM MIÐJA SÍÐUSTU ÖLD.
Ólafur Halldórsson læknir.
Þeir Vestamannaeyingar sem nú eru komnir á besta aldurinn
muna sjálfsagt eftir Óla Hall. lækni.
Hann var fæddur í Eyjum og starfaði hérna frá 1938-1957.
Þegar hans lækna námi lauk kynnti hann sér svæfingar og
tók námskeið í tannlækningum.
Ólafur stundaði hér tímakennslu við Stýrimannanámskeið, námsflokka
og Gagnfræðaskólann jafnframt lækningunum.
Hann var í 9 ár formaður Esperantó félagsins í Eyjum.
Þessi mynd er einmitt af Esperanto-félögum tekin árið 1956.
Standandi frá vinstri: Haraldur Guðnason bókav. Atli frá Varmadal. Konráð Guðmss.
Landlist. Þórarinn Magnúss. kennari, Sigmundur Andréss. bakari, Júlíus á Löndum,
Sonja Gränz Hávarður Sig. Ásta Gíslad. Kristinn Ólafss. Sigrún Eymundsd.
Neðri röð frá vinstri: Ella Dóra Hall. Dóra Hanna, Gunnlaug kona Þórarins, Bobba Binna frá Gröf
Halldór Kolbeins prestur, Ólafur Hall. læknir, Ásta Gränz og Ólafur Gränz.
Þegar Ólafur Halldórsson var hér læknir í Eyjum um og fyrir miðja
síðustu öld, þá var bloggari síðunnar á barns aldri.
Ég man það eins og gerst hefði í gær, þegar móðir mín fór með mig til
Óla læknis og var það vegna skemmdar og mikillar tannpínu í
jaxli neðri góms, þá sex eða sjö ára gamall.
Læknastofan var á efri hæð í húsinu við Miðstræti, en í dag er á neðri
hæð verslunin Miðbær.
Enginn tannlæknir var þá í Eyjum og þar sem Ólafur hafði námskeið
í tannlækningum þótti sjálfsagt að fara til hans.
Það man ég líka hversu ótti minn var yfirþyrmandi við "tannlæknirinn".
Þegar inn á stofuna hjá Ólafi var komið bauð hann mér að setjast í
"stólinn" og vildi fá að líta á tönnina.
Þar næst tók hann töng úr skúffu einni og sagðist þurfa að máta
hana við tönnina og fannst mér það sjálfsagt mál.
Ég fann að töngin var á jaxlinum og skipti það engum togum,
að Óli byrjaði tanndráttinn og gekk það ekki átakalaust.
Ég var farinn að öskra af sársauka og loksins eftir mikil átök
var tönnin laus.
Á öðrum enda jaxlsins var smá bein krókur, sem gerði Ólafi svo erfitt
að ná jaxlinum.
Karl greyið var ósköp aumur og sagði, að kannski hefði hann átt að
deyfa mig.
Eftir þetta var ég enginn aðdáandi Ólafs læknis og seinna meir
gaf ég honum í huga mér sæmdar heitið "hrossalæknir"
Seinna á ævinni gaf Ólafur út bók sem bar heitið "Læknaskop"
og er hér að lokum smá saga úr henni:
Einu sinni þegar Ólafur var læknir í Vestmannaeyjum kom til hans á
læknastofuna ung stúlka og biður hann að draga úr sér skemmdan
endajaxl.
Ólafur skoðar stúlkuna hefur orð á því að sér þyki endajaxlinn
óeðlilega stór.
Hún verður hvumsa við og segir, "hvaða helvítis vitleysa!"
Nú vildi svo til að einhver kunningi Ólafs hafði gefið honum tönn úr
hrossi og geymdi Ólafur hana í skúffu þar á stofunni.
Hann tekur nú hrosstönnina og festir í töng og setur í sloppvasa sinn.
Síðan dregur hann endajaxlinn úr stúlkunni en bregður upp tönginni
með hrosstönninni og segir:
Finnst þér hann ekki heldur í stærra lagi?
Dægurmál | Breytt 16.10.2009 kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2009 | 21:52
GLERHYLKIÐ OG FIÐRILDIÐ.
Hann hafði allt sem hann gat óskað sér.
Hann var þekktur ritstjóri, var vel efnaður og átti góða fjölskyldu.
Hann var oftast miðpunkturinn í samkvæmislífinu
og naut þess sem lífið hafði upp á bjóða.
Í desember 1995 breyttist líf hans á einu andartaki.
Hann hné niður og vaknaði mörgum vikum síðar,
algjörlega lamaður.
Hann var ófær um að tjá sig og eini hluti líkamans,
sem hann gat hreyft, var vinstra augnalokið.
Skynjun hans var þó óbrengluð og hugurinn skýr.
Í stað þess að gefast upp ákvað hann að vinna að bók.
Stafaruna var lesin fyrir hann og þegar kom að þeim staf,
sem hann ætlaði að nota í orð eða setningar,
deplaði hann auganu.
Vinnsla bókarinnar var gífurlegt þolinmæðisverk og tók marga mánuði.
Í bókinni lýsir hann tilfinningum sínum,
veröld hins lamaða manns, veru á sjúkrastofnun og því dýmætasta
sem hann á í algjörri einangrun sinni - minningunum.
Fjórum dögum eftir að bókin kom út lést þessi hugdjarfi
baráttumaður.
Með því að lesa þessa stórkostlegu bók greinir maður birtu þá sem
býr í huga kjarkmennis.
Læstur inni í eigin veröld ferðast höfundurinn um heim minninga,
ævintýra og ásta.
Að lokum gefur hann lesendum ólýsanlega gjöf -
vitnisburð um fegurð mannsandans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2009 | 18:27
BÖRNIN ERU SKÁLD OG LISTAMENN.
Þessi ágæta mynd er eftir barnabarn mitt hana Azitu
sem er fimm ára gömul.
Hún gaf afa sínum myndina í sumar, þegar ég heimsótti þá stuttu
til Svíþjóðar.
Í ágætri bók eftir Gunnar Dal segir:
Hin fyrsta mannlega skynjun bæði hjá barni og mannkyni á
bernskuskeiði er listræn og trúarleg skynjun.
Þessi listræna og trúarlega skynjun birtist í listsköpun og trú í ótal
myndum, þetta er upphafið.
Ef litið er á þroskasögu venjulegs einstaklings sést að fyrsta
aldursskeiðið, bernskan,
stendur næst heimi listamannsins.
Vísir að öllu því sem á eftir að verða eða getur orðið er í barninu,
en heimur listamannsins er fyrirferðamestur í tilveru þess.
Sagt hefur verið að öll börn séu skáld og listamenn.
Barn vill syngja eða láta syngja fyrir sig.
Það vill búa til sögu og láta segja sér sögu.
Það vill yrkja ljóð og búa til mynd eða láta teikna fyrir sig
og fara með vísur.
Fullorðnir eru oft undrandi yfir gæðum mynda sem börn
mála og teikna.
Menn undrast oft sögur þeirra og ljóð,
söng og dans.
Börn ná yfirleitt ekki slíkum árangri á öðrum sviðum
menningarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þorkell Rúnar Sigurjónsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
-
ibvfan
-
fosterinn
-
maggibraga
-
solir
-
georg
-
gretaro
-
sigthora
-
kjartanvido
-
eyglohardar
-
rustikus
-
svenko
-
eyjapeyji
-
kokkurinn
-
valdivest
-
disin
-
smarijokull
-
kristleifur
-
gudnihjoll
-
sjonsson
-
nautabaninn
-
prakkarinn
-
bergen
-
icekeiko
-
asthildurcesil
-
joiragnars
-
hallarut
-
annabjo
-
jensgud
-
jonaa
-
svarthamar
-
kaffi
-
stormsker
-
olinathorv
-
zunzilla
-
gbo
-
steinibriem
-
siggith
-
ea
-
svanurg
-
tannibowie
-
valdimarjohannesson
-
martasmarta
-
gullfoss
-
elnino
-
sunna2
-
thjodarskutan
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar