MATARBOÐ FYRIR ÞRJÁ FÖRUMENN.

 

 

 

Halldór Hómer
Halldór Hómer förumaður.

 

 

 

Halldór Hómer einn af mörgum þeim,  sem um héruð fóru á fyrri tíð var mesta

prúðmenni í allri framgöngu,

allra manna kurteisastur og notaði mikið bugt og beygingar.

Snyrtimenni var hann svo af bar og hreinlátur.

Aldrei fylgdu honum óþrif af neinu tagi,  sem fátítt var á hans tíð,  að ekki fylgdi

förufólki.

Sagt var að hann sneiddi hjá bæjum þar sem skorti hreinlæti.

Alltaf var hann vel til fara og hirti föt sín í hvívetna,  svo framt að því yrði við komið.

Fötin voru mest uppgjafaföt af prestum og kaupmönnum,  en lítið slitin.

Oft var hann í þrem frökkum til að vekja á sér athygli.

Hann tileinkaði sér borðsiði af heldrafólki og fylgdi þeim út í æsar.

Halldór var neyslugrannur og borðaði hóflega.

 

Til er frásögn um eitt borðhald,  sem Halldór tók þátt í og hér segir frá:

 

Eitt sinn gistu 3 farandmenn að Eiðum á Fljótsdalshéraði í tíð Guttorms Vigfússonar

skólastjóra þar.

Menn þessir voru Gilsárvallar Guðmundur,  eða Gvendur,  sem kallaður var,

beljaki að vexti og matheill mjög.

Ekki þótti hann laus við óværu og talinn vitgrannur,  komst þó oft vel að orði og

orðhákur mikill.

Gvendur var talinn efnilegt barn,  en varð fyrir áfalli og "vantaði" eitthvað í hann

upp frá því.

Þeir Halldór Hómer og hann voru svarnir óvinir og fyrirlitu hvor annan.

Sá þriðji var Hallgrímur Víglundsson.

Hann var farandmaður að nokkru,  svaðamenni,  svo margir voru við hann hræddir.

 

Fólkið á Eiðum hugði nú gott til skemmtunar,  einkum með því að siga þeim

Halldóri og Gvendi saman.

Fyrsta skemmtiatriðið átti að vera í sambandi við borðhaldið.

Húsmóðirin á bænum var í fyrstunni treg að taka þátt í skrípaleik þessum,

en fór svo,  að hún leyfði þetta.

Var nú borð hvítdúkað og þar á raðað gljáfægðum diskum, auk hnífapara.

Ekki skorti rausn,

því fram var borið ket, harðfiskur og hákarl auk annars.

Halldór var í herbergi því sem dekkað var í og varð allléttbrýnn er hann leit til

borðsins.

Ekki þó vegna matarins einvörðungu,  heldur hinnar miklu viðhafnar.

Ekki hafði Halldór verið látinn vita um þá félaga,  heldur höfðu þeir verið geymdir

í piltahúsi og vinnumenn dvalið fyrir þeim.

 

Halldóri var nú sagt að gera svo vel og sest hann að borðinu,  hagræddi sér

fyrirmannlega,  lygndi augunum og byrjaði að lesa borðbænina.

En ekki er hann fyrr byrjaður en hann hrekkur upp við háreysti mikið og er hann

lítur til dyra,  birtist þar Gilsárvallar Gvendur og Hallgrímur á hæla honum.

Heldur þóttu það ófagrar augnagotur er þeir Halldór og Gvendur sendu hvor öðrum.

 

Tóku  þeir nú til matar síns og borðaði hver með sínu lagi.

Gvendur hóf sóknina með því að snara gafflinum út í horn og kvaðst ekki vita hvers

hann ætti að nota það verkfæri,  fyrst hann væri ekki að moka skít.

Rótaði hann síðan ketbitunum til með krumlum sínum latþvegnum,  valdi þá

girnilegustu úr og glotti þrælslega.

Hallgrímur tók upp sjálfskeiðung sinn og ruddist fast um.

Halldór Hómer féll í stafi yfir þessum aðförum og reyndi að setja upp fyrirlitningar

og meðaumkunarsvip.

Kanntu enga mannsiði,  Gvendur?  sagði Halldór.

Ég er nú ekki vanur að bæna mig mig lengi,  var svar Gvendar

Þú kannt  líkast til enga borðsiði.

"Gvendur greyið hefur nú lengst af étið sinn mat án þess að vera með einhverja

bölvaða tilgerð. ha, ha, ha.

Brúkaðu hnífapörin maður,  sagði Halldór og byrjaði að heldri manna sið.

En ekki var slíkt vænlegt til samkeppni,  því Gvendur tók nú hvern bitann af öðrum

af ketinu og stýfði úr hnefa,  gleypti hákarlinn og tugði  lítt harðfiskinn.

Þetta var líkt því að öllu væri hvolft í botnlausa hít,  því Gvendur gat étið á við marga

menn,  ef því var að skipta.

Hallgrímur gekk vasklega fram og fækkaði svo um föng,  að Halldór var rétt að byrja.

er borðið var nær hroðið.

 

Spratt hann þá upp af mikilli reiði og sagði ekki mögulegt,  að sitja til borðs með síkum

svínum,  sem Gvendi.

Hlógu menn þá allmjög.

Gvendur át meðan hann þoldi,  stóð síðan upp og fetti sig og bretti með allafkáralegum

tilburðum og leit hæðnislega á Halldór.

Illa féll Halldóri að Gvendur truflaði matarfriðinn yfir slíku veisluborði,  en nú kom

húsfreyjan og borðsetti Halldór Hómer í öðru herbergi, þar  sem hann fékk í friði

að éta það sem fyrir hann var lagt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 250246

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband