HVER BJÓ TIL FYRSTA GRASIÐ ?

img026Af hverju í ósköpunum birti ég hér  mynd sem tekin er vorið 1964, fjórum fimm mánuðum eftir að Surtsey kom upp á yfirborð sjávar með bloggara þessarar síðu á eyjunni Surtsey í óleyfi auðvitað (fékk 1000 kr. sekt), Jólaey gjósandi fjær og svo eitt grasstrá að baki? 

Tilgangurinn helgar meðalið , þar sem ég hefi lengi velt fyrir mér heimsspekilegri spurningu frá dóttir minni, sem árið 1970 var aðeins fimm ára. Við vorum á ferð nærri Hvolsvelli og höfðum sýn inn eftir Fljótshlíðinni, en eins og allir vita er Hlíðin fögur að sumarlagi og enginn skyldi undra gjörðir Gunnars að yfirgefa ekki sína heimabyggð þótt hausta tæki.

Nú, spurning dóttur minnar var eitthvað á þessa leið: Pabbi, "hver bjó til fyrsta grasið"? Svar mitt var mjög föðurlegt að mér fannst, guð skapaði grasið sagði ég. En sú stutta var ekki ánægð með það svar og ítrekaði, "fyrsta grasið" og þá skildi ég, fyrsta grasstráið átti hún auðvitað við.  Þá var ég kominn í vanda því að sjálfsögðu hafði ég enga hugmynd um það og gat því litlu svarað, reyndi samt að eigna guði heiðurinn af fyrsta stráinu.

Síðan eru liðin þrjátíu og sjö ár og þetta  poppar upp í huga mér af og til án þess að ég hafi leyst gátuna um fyrsta stráið. - Allavega geri ég mér grein fyrir, eins og myndin sýnir og ég horfði á með eigin augum hvernig jörðin hefur orðið til í árdaga.  Ég hefi einnig heyrt aðra fullyrða,  að guð hafi skapað heiminn á sex dögum, jörðina með grasi og öllum því sem hana prýðir í dag., en þá skýringu kaupi ég ekki.

Gróðurinn sem í dag þrífst á Surtsey  kom þangað með fuglum, vindinum og sjálfsagt fólki einnig. Þannig að spurningunni um það, hvernig fyrsta grasstráið kom til sögunnar er ólleyst í huga mér ennþá og verður sennilega um alla framtíð. Til gamans má geta þess, að þegar uppgræðslan hér á Heimaey stóð sem hæst eftir Heimeyjargosið, var oft talað um manninn sem fann  upp grasið, en eins og margir muna var það Gísli Jóhannes Óskarsson kenndur við Betel.

Gaman væri ef einhver þarna úti les þessar hugleiðingar mínar og hefur einhverjar meiningar þar að lútandi, léti það eftir mér og öðrum, að láta ljós  sitt skína.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Hæ Keli, ég veit ekki hver bjó til fyrsta grasið, en ég er komin úr einangrun.

Svava frá Strandbergi , 12.11.2007 kl. 02:27

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Þorkell, þetta er skemmtilegur pistill hjá þér og gaman að lesa þetta, sérstaklega er það skemmtilegt fyrir okkur sem munum þegar þetta Surtseyjargos kom og stóð að mig minnir í 3 ár. Ég var vélstjóri á þessum árum og þetta Surtseyjargos ollu okkur vélstjórum þónokkrum vanda þar sem allar síur á kælisjó  fylltust af vikri og fínasti vikurinn kost alveg inn í kælana.

Að endingu þakka þér fyrir aðgerast bloggvinur

kær kveðja 

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 12.11.2007 kl. 17:50

3 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Blessaður og sæll Sigmar, gaman að heyra frá þér. Aðeins meir um Surtsey. Þannig var, að Páll Helgason bað mig og Viktor bróðir, að koma með sér út í eyjuna, þar sem hann ætlaði að reisa tjald og stimpla á fyrstadags umslög, nokkur þúsund stk. Hann leigði lítinn vélbát sem ég man ekki hvað hét, en Ólafur átti bátinn og var skipstjóriinn, en þessi ágæti skipstjóri lést langt um aldur fram. Við náðum að ferja á gúmmíbát öll umslögin og tjaldið svo og okkur sjálfa án þess að nokkuð kæmi uppá. Páll stimplaði og stimplaði allan daginn en við bræðurnir sprönguðum um Surtsey og horfðu á gosið og voru tvö gos í gangi á þessum tíma. Við vorum þarna í Surtsey um sjö tima  og á þeim tíma kláraði Palli sitt verk. Báturinn beið og vel gekk að komast í hann aftur með umslögin og okkur. Við vorum sektaðir, en borguðum aldrei þá sekt að ráði Jóns Hjaltasonar lögfræðings. Þegar í land kom afhenti Palli stimpilinn Jóhanni póstmeistara, þannig að hann yrði ekki notaður meira.  Fyrstadagsumslögin hans Palla seldust mjög vel og fengum við bræður að verða fyrstu viðskipavinirnir.  Þannig fór um sjóferð þá og og endaði vel.  Sendi þér mínar bestu kveðjur. 

Þorkell Sigurjónsson, 12.11.2007 kl. 22:54

4 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Þorkell,  þetta er skemmtileg saga og gaman að hafa hana hér á blogginu, en svona sögum þarf að safna saman og gefa úr í bók, það líður að því að við sem upplifðum þessar náttúruhamfarir hættum að vera til og þá geymast þessar sögur ekki ef þær eru ekki settar á prent.

kærar kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 12.11.2007 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 250245

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband