ÆSKUSTÖÐVARNAR HEILLA.

Þar sem fleiri en ég Lautarpeyinn og bloggari þessarar síðu hafa áhuga á myndum sem tengjast æskustöðvunum, læt ég nokkrar koma hér til viðbóta þeirri sem ég birti úr Lautinni um daginn og munu þær vera teknar á árunum 1945-50.

Vestasti hluti Lautarinnar.

Hér er mynd sem sýnir vestasta endann af Lautinni og hleðsluna sem þeir muna sem til þekkja.

Húsin frá vinstri séð eru, Túnsberg sem  Þorleifur Einarsson átti og bjó ásamt konu sinni og dóttir og bjuggu þau á  efstu hæðinni. Á mið hæð bjuggu hjónin Guðmundur og Sigríður ásamt dætrum, henni Jónu og Öddu. Í kjallaranum bjó Magnús, sem fólk man kannski vel eftir þar sem hann var með mikið alskegg silfurgrátt. Hann sá um að kynda ofna í nokkrum húsum  hér í bæ.

Næst er það Ártún þar sem bloggari síðunnar er fæddur og foreldrar mínir áttu og bjuggu, Sjonni bílstjóri og Anna Guðrún, systkini mín voru Viktor og Sigríður Þóranna. Einnig var til heimilis hann afi minn Þorkell Guðmundsson, en í horninu fyrir ofan hann svaf ég  fyrstu ár ævinnar. Áður en ég sofnaði , hlýddi hann mér yfir nokkrar bænir sem hann hafði kennt mér, og,  Þegar því var lokið náði ég mér með báðu höndum taki á náttjakkanum hans afa og þá fyrst fannst mér ég vera öruggur og gat farið að sofa, hjá besta afa í heimi. Í kjallaranum var hann Addi netamaður og Stína ásamt dóttur, Ástu. Varmahlíð kemur næst sem hann Ágúst átti og Pálína og þeirra fólk og allir muna eftir Madda mállausa, Adda, Lárusi, Hafsteini, Þyri og svo foreldrum Hennar Pálínu.

     Hér aftur á móti sjáum við austur eftir miðri Lautinni og hana Sigríður Þórönnu systur mína  með barnavagninn sinn.  Þessi mynd er tekin árið 1947. 

                                                  Sigga systir.

Eins og sjá má er myndin í lit að hluta til og er það til komið þannig, að faðir minn var stundum að gera tilraunir með litun á svart-hvítum myndum. Í baksýn sjáum við Stein og hlöðuna sem ég held að hafi tilheyrt húsinu Lundi, ekki alveg viss, en í hlöðunni voru háðir margir og grimmilegir bardaga, ekki hvað síst þegar skylmingarmynd eða mynd með Roy Rogers hafði nýlega verið sýnd í Höllinni.

Í Steini bjuggu Guðni og Guðrún  (Bogga) ásamt sonum sínum þeim Bergi og Ragnari æskufélaga mínum. Einnig leigði Rútur Snorrason hjá þeim og í kjallaranum var hann Eyþór. Við Raggi brölluðum nú margt saman og væri það að bera í bakkafullan lækinn að segja hér frá því öllu saman svo ég læt það bíða til seinni tímans, enda sumt af því varla prenthæft, eða þannig.

Raggi og Keli.

 

Hérna koma æskuvinirnir Raggi og Keli og standa þeir fyrir framan útidyrnar á Ártúni.
Raggi að gefa honnör og ég held um
forláta dálk sem ég hafði eignast og var mjög montinn af að eiga.

Enginn dagur leið svo að við félagarnir væru ekki við leik eða eitthvað að bauka saman,
fótbolta, einhverjar íþróttir í Lautinni ásamt fleiri krökkum. Spretthlaup á Vesturveginum, en þar var Raggi í essinu sínu og kom það sér stundum vel þegar við félagarnir vorum að banka á hurðir fólks án þess að eiga sérstakt erindi við það. Á kvöldin voru ýmsir leikir við eina ljósastaurinn við Vesturveginn, sem staðsettur var fyrir framan Háeyri. Þar var oft fjölmennt og mikið gaman. Á veturna var brunað niður Hossandann og stundum myndaðist svell í sjálfri Lautinni og var þá gott að renna sér fótskrið á því, þar sem ekki var mikið um að krakkar ættu skaut.

Keli og Skari.

 

Fleiri  æskuvinir, frá vinstri, ég og  Óskar Þórarinsson frá Háeyri. Myndin er tekin af Sævari Ísfeld og erum við uppi á neðri Kleifum í Heimakletti að vetri til og er ég með heljar mikla kulda húfu þar sem ég var nýlega risinn upp úr mislingum, en að öllu jöfn var ég aldrei með höfuðfat.  Við Skari brölluðum ýmislegt og þá Raggi líka, en oft var það svo , að drengir völdust oft saman sem áttu sömu áhugamál.

Stundum þegar ég fór heim til Óskars og vildi leika við hann kom það fyrir að hann var að vaska upp fyrir móðir sína, sem var mikill sjúklingur á þessum árum. Á meðan ég beið eftir Skara lánaði hann mér myndablöð og spilaði á gamlan grammafón djasstónlist, sem Óskar var svo feikna hrifin af, en mér leiddist sú tónlist, en ég passaði mig að segja Óskari ekki frá því vildi sko ekki særa hann, enda var hann einn sá indælasti og besti félagi sem ég átti, ávallt tilbúinn að hjálpa og venda mann frá stærri strákum sem ætluðu að hrekkja, en Óskar var tveimur árum eldri  en ég og auðvitað hraustari.

img0501948Í lokin kemur svo hér mynd sem tekin er 1947-8 við suður gaflinn á Hólmi og sjáum hér krakka sem áttu þá heima í grennd við Lautina.

Frá vinstri talið: Sigríður Þóranna dóttir Sjonna bílstjór í Ártúni.
Þá er Það Margrét Kolbeinsdóttir,mamma Hermanns Hreiðarssonar knattspyrnumanns og svo Hildur systir hennar, en þær áttu heima á Hólmi . Þá kemur önnur
Margrét sem er dóttir Sigurðar Gissurarsonar sem þá bjó í Landakoti. Þar næst er það Þóranna Þórarinsdóttir á Háeyri  systir Óskars.
Drengurinn sem aðeins sést að hálfu, er Óskar Stefánsson  sem átti heima í húsinu Sandgerði.
 

Vonandi hafa sem flestir gaman af þessu myndum sem ég hefi sett á bloggið mitt hérna og eru teknar á árunum 1945-50 og tengjast allar Lautinni sem eins og allir vita er horfin nema úr huga og hjörtum okkar sem fædd erum og uppalin í grennd við víðfrægasta uppeldisstað í Vestmannaeyjum, Lautina.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Keli þetta eru alveg frábærar myndir .Þær fara upp á vegg á Reynistað og eru mikið skoðaðar af gömlum lautapeyjum sem koma þangað daglega.Takk fyrir kærlega kveðja Helgi Lása  ps Magga er mamma Hermanns

Helgi Sigurlásson (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 21:29

2 identicon

Fyrigefðu þú ert búinn að leiðrétta þetta lautakveðja

Helgi Sigurlásson (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 21:44

3 identicon

innlitskvitt.Ég var ekki einu sinni fædd þegar þessar myndir eru teknar. Enda hálfgerður unglingur.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 14:36

4 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Þetta er glæsilegt blogg hjá þér  og snyrtilegt.Þið eruð flottir á myndinni. þú og Skari.Þarna ungir og fallegir en núna bara falleygir.Það er gott að eiga hauk í horn Þar sem Oskar er.En þetta er snyrilegt bloggog frábært til aflestrar hjá þér.Þú ert komin með fastan lesandi í mér.Sjáumsr á morgunn.Sértu ávallt kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 25.11.2007 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband