BROT ÚR SÖGU VATNSINS Í VESTMANNAEYJUM.

DrykkjarvatnÞví hefur löngum verð haldið fram, að föst búseta í Vestmannaeyjum hafi verið háð vatnsskorti og hins vegar einangrun, þetta tvennt hafi verið aðalástæðurnar fyrir því,  hve seint föst búseta verður í Eyjum.

Uppsprettuvatn hefur ekki verið til staðar í Eyjum í bókstaflegri merkingu og hefur Daltjörnin að mestu orðið til af rigningarvatni, sem sigið hefur niður jarðveginn úr hlíðum umhverfis tjörnina.

Vatnsból austur á Kirkjubæjum var frá fornum og horfnum tíðum, Vilpan á Vilborgarstöðum.  Vilpa myndaðist svipað og Daltjörnin, af rigningarvatni, sem kom af túnum umhverfis hana, eða úr efstu jarðlögum. Til að hreinsa vatnið af áburði af túnunum voru hlaðnir torfgarðar þar sem vatnið síaðist í gegn.

Fátt olli Eyjafólki meiri erfiðleikum um aldir en vatnsskorturinn. Fastur liður frá fornu fari í daglegri önn fólksins og sérstaklega á vorin og sumrin var vatnssókn í Lindina í Dalinn.

Þegar handvagnar og svo hestvagnar komu til sögunnar var rudd vegarmynd í Dalinn, þá léttist vatnssóknin til muna.

img130

 

Hér til hægri má sjá nemendur Páls Steingrímssonar  hvílast og svala þorsta sínum við brunn Daltjarnarinnar. Myndin er tekin vorið 1954 eftir erfiða skemmtigöngu út í Stafnsnes.

Nemendur talið frá vinstri: Benedikt Ragnarsson, Viktor Úranusson, Ásta Kristindóttir, Þóra Bernódusdóttir, Gerður Gunnarsdóttir, Helga Óskarsdóttir, Ásgeir Lýðsson, Ester Magnúsdóttir.

Standandi frá vinstri: Halldór Svavarsson, Kristinn Baldvinsson, Þráinn Einarsson og sú sem snýr baki er líklaga Guðlaug Ólafsdóttir  og Aðalsteinn Sigurjónsson fylgist með henni drekka hið ágæta vatn úr Daltjörninni. Myndataka, Þorkell Sigurjónsson.

En meira þurfti til af vatni þannig að lífvænlegt þótti hér í Eyjum.  Öll söfnun regnvatns til neyslu og allra heimilisnota varð auðveldari, eftir að bárujárnsþökin komu til sögunnar, en þrátt fyrir það hefur ávallt neysluvatnsskortur valdið erfiðleikum, eða sérstaklega þegar ekki kom dropi úr lofti.

img127


Flutningamáti á vatni til neyslu var eins og áður sagði fyrr á tímum, á hand og hestvögnum.  Um 1940 kom nýtt til sögunnar, vatnsbíllinn  þar sem félagar BSV sáu um flutning vatnsins úr Dalnum með vörubílum.

Hér til hliðar má sjá bíl Sigurjóns Sigurðssonar (Sjonna bístjóra)við brunninn hjá Daltjörninni  og handdælan, sem dældi vatni í tankinn á bílnum.  Það þótti mikið sport að hjálpa við, að dæla og fá svo, að sitja í vatnsbílnum á eftir. Í þetta skiptið eru það frændurnir, Smári Guðsteinsson og Þorkell Sigurjónsson á því herrans ári 1947.


img126

Annar vatnsbrunnur var í Dalnum þar sem daglega safnaðist meir af vatni, en í brunn Daltjarnarinnar, en hann var við rætur hlíðarinnar undir Molda.  Um 1950, þegar þessi mynd er tekin af Sjonna ásamt börnum sínum, Þorkeli og Sigríði, þá var komin sú ný breytning til sögunnar, að vatninu var dælt með bensíndælu í tank bílsins og svo úr tanknum í brunna húsanna.

En eins og flestir hér í Eyjum kannast við voru byggðir brunnar við hvert hús hér áður fyrr þar sem regnvatni var safnað og oftar en ekki þurfti ábót úr Dalnum helst yfir sumartímann. Stundum urðu bílstjórarnir, að deila einum tanka á tvö hús, þegar skortur var mikill og lítið um vatn.

Vatnsþjónustan var oft mjög erfið, sérstaklega yfir vetrarmánuðina í misjöfnum veðrum og svarta myrkri. Þegar litið er til baka er ótrúlegt hvað menn gátu afreka með frumstæðum tækjum við erfiðar aðstæður.

Oft fylgdi pöntunum að ekki væri hægt að þvo úr barnableium, eða ekki væri hægt að hella upp á kaffikönnuna, en ávallt bjargaðist það allt saman. Takmarkað var hvað vatnsbólin gáfu af vatni, þannig að vatn var stundum flutt með flutningaskipi, sem leið áttu hingað og vatninu þá dælt beint í bíltankana, sem fluttu það í húsin í bænum.img128

Hér kemur mynd af félögum BSV frá árinu 1967 og flestir af þeim komu við sögu vatnsflutninga til bæjar búa, fiskiskipa og fyrirtækja.

Aftari röð frá vinstri: Hilmar Jónasson, Magnús Guðjónsson, Guðmundur Högnason, Einar Jónsson, Magnús Ágústsson, Ari Pálsson, Adolf Sigurjónsson, Jens Ólafsson, Gústaf Sigurjónsson, Guðsteinn Þorbjörnsson, Páll Gíslason, Jón Þorleifsson, Haukur Högnason Ármann Guðmundsson.

Fremri röð frá vinstri: Daníel Guðmundsson, Sigurður Jónsson skrifstofumaður, Jóhann Gíslason, Oddgeir Kristjónsson stöðvarstjóri, Andrés Guðmundsson, Engilbert Þorbjörnsson, Sigurjón Sigurðsson.

Eitt vatnsból er ennþá ótalið, en það var staðsett inn í Botni undir Hlíðarbrekku. Oftast var talað um, að sækja vatn inn í "Póst" og þótti það vatn hvað lakast til neyslu, en var notað eigi að síður. - Þar sem vatnið hefur verið hér í aðalhlutverki í þessu greinarkorni mínu, langar mig aðeins að skipta um gír og segja smá sögu af Sjonna bílstjóra.

Þegar faðir minn var við keyrslu vatns um 1950 innan úr Botni, tók hann eftir manni nokkrum, sem allir Vestmannaeyingar þekktu fyrr á árum, Axel frá Holti, eða Púlli eins og hann var kallaður dags daglega. Púlli átti við mikla fötlun að stríða, sem orsakaði það m.a., að hann gat lítt tjáð sig með orðum.   Púlli kom oft á netaverkstæðið hans Magnúsar Kristleifs Magnússonar, sem betur var þekktur sem Magnús með kýlið.  Rellaði Púlli á sinn hátt oft í strákunum á verkstæðinu, að þeir útbyggju fyrir sig lundaháf. Einn daginn urðu þeir svo við rellinu í honum, fundu til tveggja metra bambusstöng og hengdi í enda hennar netbleðil.

Með "háfinn góða fór Púlli glaður mjög á sínu sérstæða skeiði áleiðis inn eftir Strandveginum og inn í Hlíðarbrekku, en þar er töluverð lunda byggð eins og menn vita. Á leið sinni inneftir sá Sjonni til ferða Púlla, en faðir minn var mikill vinur Magnúsar netamanns og kom stundum í heimsókn á netaverkstæðið og þekkti því til óska Púlla um lundaháfinn. Netaverkstæðið hans Magnúsar og sona hans var staðsett við Skildingaveg. 

Fylgdist nú faðir minn með Púlla þar sem hann settist í hlíðarbrekkuna og fór að veifa bambusstönginni, en auðvitað varð veiðin að sjálfssögðu engin. Þá hugkvæmdist föður mínum, að nú skyldi hann slá tvær flugur í einu höggi, gera góðverk og stríða vinum sínum á netaverkstæðinu. Í einni ferð sinni með vatn í bæinn, kom hann við í fiskbúðinni hans Kjartans fisksala, en hann seldi á lundatímanum lunda í fiðri. Sjonni  kaupir hjá Kjartani fimm stykki.

Þegar inn í "Póst" var komið labbaði Sjonni til Púlla þar sem hann sat og  færði honum lundana. Púlli varð að vonum yfir sig glaður og ánægður og hélt strax sem leið lá austur Strandveg og niður á Netaverkstæði hróðugur  mjög. - Seinna frétti Sjonni af því, að þegar Púlli birtist með háfinn og lundana fimm bundna í kippu,að þá hefðu mönnum  brugðið illilega og undrast stórlega hvernig í ósköpunum hann hefði náð að veiða þessa fimm fugla. Næstu daga var ekkert rætt eins mikið og ýtarlega og veiðiafrekið hans Púlla og veltu menn vöngum í marga daga og klóruðu sér í höfðinu.

Daginn eftir kom Sjonni svo í heimsókn og fékk þá, að heyra um afrekið hans Púlla, en Sjonni  þagði lengi vel yfir leyndarmálinu og þóttist ekkert vita að sjálfssögðu, en hafði gaman af öllu saman.

Aftur að vatninu.  Árið 1968 mun hér eftir verða talið eitt af merkisárum í sögu Vestmannaeyja. Á því herrans ári var lögð vatnsslanga til Eyja frá suðurströnd landsins.

                                             

img129Síðan streymir uppsprettuvatn til Vestmannaeyja úr lind í 210 metra hæð í landi Syðstu-Merkur undir Eyjafjöllum. Þessi leiðsla var lögð til Eyja 17-18 júlí 1968. Á myndinni hér fyrir miðju sýnir það merkilega augnablik, þegar bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Magnús Magnússon togar  tappann úr grannri slöngu og fyrsta vatnsbunan frá landi lendir á Nausthamarsbryggjunni.

Þar með lýk ég örlitlu broti af sögu vatnsins, sem ávallt hefur verið okkur hér í Eyjum svo dýrmætt. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Keli, þetta er frábær pistill  hjá þér og mjög gaman að lesa þetta, ekki hvað síst vegna þess að maður man vel þessa tíma þegar verið var að keyra vatni í brunna við húsin.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 13.1.2008 kl. 12:38

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Blessaður og sæll Sigmar. Þessi keyrsla á vatni eins og myndirnar sýna, eru eitt af mörgu sem minna okkur á leiftur úr sögu Eyjanna fyrr á árum og má ekki glatast, að mér finnst. Kveðja.

Þorkell Sigurjónsson, 13.1.2008 kl. 21:23

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Gaman að lesa þetta og rifja upp sögu vatnsins í Eyjum. Ég man vel eftir stóra brunninum við Hásteinsveg 49, þar sem ég átti heima ásamt foreldrum mínum og systkinum. Svo var Mundi bróðir mömmu og pabba þíns hans Sjonna á neðri hæðinni með sína fjölskyldu. Ég man líka vel eftir þegar ég og Odda vorum að leika okkur saman í því húsi og hún kom alltaf skríðandi upp stigann úr eldhúsinu á neðri hæðinni. Það er mér líka minnistætt hver sparlega þurfti að fara með allt vatn.

Svava frá Strandbergi , 13.1.2008 kl. 22:24

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég veit ekki betur en ég hafi fengið að stýra þessum bíl hans Sjonna sem þú og Sigga sjást við! Á leiðinni út í Höfða.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.1.2008 kl. 19:30

5 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Já Sigurður þeir eru ófáir, sem fengu sína fyrstu reynslu, að stýra bíl í fyrsta sinn hjá honum Sjonna. 

Já Svava þau eru mörg augnablikin og stundirnar bæði góðar og slæmar, sem rifjast upp fyrir manni, frá æskudögum .

Þorkell Sigurjónsson, 15.1.2008 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 250248

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband