Færsluflokkur: Dægurmál
23.3.2011 | 17:18
SÉRSTÆÐASTI MAÐUR EYJANNA, FYRR OG SÍÐAR?
Hjörtþór Hjörtþórsson,
eða Hjörsi eins og hann var nefndur í daglegu tali, setti mikinn svip á bæjarlífið
hér í Eyjum fyrr á árum.
Þetta segir í grein eftir Árna á Eiðum í sjómannablaði Vestm.eyja fyrir nokkrum áru
síðan.
Og áfram heldur Árni með frásögn sína af þessum sérkennilega Eyjamanni:
Á þessum árum bjó hann í kjallaranum á Sólheimum rétt ofan við Strandveginn.
Nær daglega kom hann í beituskúrinn til okkar beitustrákanna á mb.Helgu, enda stutt
fyrir hann að fara.
Beituskúrinn stóð þar sem Ísfélagið er núna.
Hjörsi var hinn ræðnasti og gaman að spjalla við hann, en í miðju samtali átti hann
það til, að snarast út án þess að kveðja.
Næsta dag lét hann sem hann sæi okkur ekki ef við rákumst á hann.
Hjörsi var óáreitinn við náungann, en lét engan vaða ofan í sig og gat þá verið
snöggur upp á lagið.
Hjörsi var hvað frægastur fyrir hinar ógurlegu snýtur sínar.
Svo mikið tók kappinn á, að hann varð eldrauður í andliti og tútnaði út við átökin.
Þetta þótti með svo miklum ólíkindum að rétt þótti að athuga geðheilsu hans og því
var brugðið á það ráð, að senda Stebba pól með hann til Reykjavíkur svo geðlæknir
gæti litið á hann.
Ekki segir af ferðum þeirra félaga þar til þeir mæta í viðtal hjá lækninum.
Nú tók læknirinn að spyrja Hjörsa spjörunum úr og fékk greið svör við öllum
spurningum, sem hann færði inn á til gerða skýrslu.
Allt í einu spyr Hjörsi hvort hann megi snýta sér.
Læknirinn kvað það sjálfsagt,
slíkri kurteisi átti hann ekki að venjast.
Hjössi vandaði nú vel allan undirbúning og svo kom þruman - og þvílík ósköp!
Læknirinn sem var niðursokkinn við skriftirnar,
brá svo að hann spratt upp af stólnum og spurði hvað annars gengi á.
Hjörsi var fljótur að svar og sagði:
Hvað er þetta maður,
ertu eitthvað slæmur á taugum?
Þú ættir að láta líta á þig.
Nú varð skjótur endir á viðtalinu. Hann kvað Hjörsa ekkert erindi eiga inn á spítala,
hann sá í gegnum stráksskapinn hjá honum,
enda hafði Hjörsi gott skopskyn.
Eitt sérkenni Hjörsa var hversu heitfengur hann var.
Daglega klæddist hann nankinsjakka og buxum, skyrtulaus, aðeins í bol og oftast
berfættur í skónum.
Nokkuð fékkst hann við að róa og ekki var hann betur búinn í þessar sjóferðir
Sjóklæðin voru samtíningur.
Ég man eftir honum í regnkápu og hálfháum stígvélum, ekki virtist kuldinn angra hann.
Það var eitt sinn að vorlagi að Hjörsi réri með Manga á Hrafnabjörgum á litlum dekkbát
sem hét Krummi.
Þegar Krummi rennir upp með Bæjarbryggjunni að vestan tókst ekki betur til en svo,
að báturinn tók niðri að framan, en stórstraumsfjara var.
Við þetta kom mikill halli á bátinn svo að stærsta langa, sem ég hef augum litið,
rann út um rekkverkið og ofan í djúpan pytt, sem var fyrir aftan bátinn.
Það merkilega skeði að langan stóra fannst ekki hvernig sem leitað var,
en búið var að slægja hana svo hún flaut ekki.
Þetta var grátbroslegt því þarna fór stór hluti aflans þann daginn.
Ég læt lokið þessum hugleiðingum um sérstæðan mann, sem fór eigin leiðir,
en kryddaði upp á mannlífið í Eyjum á þeim tíma.
Hjörsi bregður á leik, hann kunni ýmislegt fyrir sér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2011 | 17:27
KYNLEGUR KARL HANN ODDUR STERKI.
Maður nokkur,
sem fæddist fyrir nær 130 árum síðan, Oddur Sigurgeirsson betur þekktur sem
Oddur sterki af Skaganum, eins og hann oftast var kallaður á meðan
hann lifði, var einn hinna
kynlegu kvista á fyrri hluta aldarinnar síðustu.
Bágindi Odds voru afleiðing af slysi, höfuðhöggi er hann hlaut 3 ára gamall og varð
heyrnadaufur alla tíð síðan.
Þegar hann óx upp hlógu menn að honum og héldu sumir að hann væri aumingi,
vegna þess,
hve hann átti bágt um mál.
Á efri áru notaði Oddur látúnshorn, sem hann stakk í eyrað til að heyra betur hvað
aðrir sögðu.
Aðeins 15 ára hóf hann sjómennsku og þótti strax töggur í honum.
Hann réri fyrst á opnum bátum, en síðan á skútum áru saman, og var þá ýmist
kallaður Oddur sjómaður, eða Oddur sterki.
Oft leitaði hann huggunar hjá Bakkusi á skútuárum sínum og drakk þá illa.
Einn veturinn sem Oddur réri, var hann háseti ásamt Sæmundi sífulla hjá
Sjána bláa.
Þegar Oddur var fullur, var hann kunnur að sníkjum sínum.
Gef mér 10 aura greyið , ég ætla að kaupa mér brennivín fyrir þá.
Þegar Oddur var nær fertugsaldri gjörbreyttist líf hans.
Hann veiktist og var lagður á skurðarborðið og mikill holskurður gerður á honum.
Eftir það þoldi hann ekki strit né vosbúð og varð hálfgerður flækingur á götum
Reykjavíkur.
Þegar hér var komið notaði hann tímann til að heimsækja gamla skútufélaga sína,
sem margir bjuggu úti í sveit.
Oddur átti hest, og kom hann sér vel fyrir karlinn, þegar hann var í þessum ferðum
sínum um sveitir landsins.
Oddur var smámæltur mjög og hafði skrítinn talanda, lá hátt rómur eins og títt
er um suma menn sem heyra illa.
Hjartalag hans var gott og samstöðu sýndi hann með fátækum verkamönnum og
sjómönnum.
Hann fylgdist með baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og gekk sjálfur í
Sjómannafélag Reykjavíkur og svo Alþýðuflokkinn.
Á árunum 1924 var Oddur dubbaður af einum leiðtoga Alþýðuflokksins í að gefa út
blöð, og hét annað þeirra "Harðjaxl réttlætis og laga" en hitt var,
"Endajaxlinn" tímarit gefið út af Harðjaxlaflokknum.
Íhaldið á þeim árum voru sendar svæsnar pillur undir nafnleynd.
Mogginn skammaðist yfir því, að menn notuðu Odd sem skálkaskjól.
Sjálfur var Oddur hrekklaus maður.
Fyrir Alþingishátíðina, 1930 gáfu nokkrir vinir hans honum fornmannabúning,
með tilheyrandi vopnabúnaði er gerður var úr tré.
Gekk Oddur iðulega um götur Reykjavíkur í honum ásamt vopnum sínum.
Þegar nær dró Alþingishátíðinni óttuðust menn að Oddur, eða aðrir af kynlegum
kvistum, kynnu að valda veisluspjöllum.
Oddur hafði átt það til, að hrópa háðsyrði um
Kristján Danakóng,
en jafnframt hyllt róttæka foringja jafnaðarmanna.
Allt kom þó fyrir ekki, þeir hittust Oddur og kóngur og fór vel á með þeim.
Hér er Oddur sterki ásamt Kristjáni konungi,
Aþingisárið 1930
Margar skoplegar lýsingar Odds voru hafðar eftir honum um afreksverk hans og
hreysti.
Hann á að hafa sagt um áflog sem hann lenti í;
"Þá kom hann á móti mér með hnífinn í annarri og hnefann í hinni.
Svo lagði hann á flótta.
Ég á undan og hann á eftir."
Oddur ánafnaði samtökum sjómanna digrum sjóði í erfðarskrá sinni.
Lét hann Hrafnistu njóta eigna sinna
Síðustu árin lifði Oddur Sigurgeirsson á elliheimilinu Grund
og lést þar 7. maí 1953.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2011 | 16:43
SELTJARNARNESIÐ ER "lítið OG lágt"
Seltjarnarnesið er lítið og lágt.
Lifa þar fáir og hugsa smátt.
Aldrei líta þeir sumar né sól,
sál þeirra er blind eins og klerkur í stól.
ÞÞ.
Vill að bæjarstjóri Seltjarnarness víki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2011 | 13:49
KAKÓHREYFINGIN Í EYJUM, 1933-43.
Rakst á skemmtilega grein í gömlu þjóðhátíðarblaði, sem fjallaði um göngu klúbb
er var til hér í Eyjum og lifði í 10 ár á árunum, 1933-1943.
Tilgangurinn var að fara í gönguferðir.
Haft var meðferðis skaftpottur gerðalegur, strengjahljóðfæri eitt til tvö og auk
þess nokkur matvæli í bakpoka.
Þetta voru meðlimir hinnar svonefndu
Kakóhreyfingar,
og takmark hennar voru gönguferðir um Heimaey á hverjum sunnudagsmorgni,
og skyldi þá jafnan, hita kakó í skaftpotti til hressingar.
Jafnframt var upphafinn söngur mikill með strengjahljóðfærum,
r.d. mandólín, ukulele eða gítar.
Þeir sem lengst héldu merki hreyfingarinnar á lofti voru:
Karl Guðjónsson, Árni Guðmundsson, Jóhann Gíslason og Oddgeir Kristjánsson.
Oddgeir Kristjánsson.
Karl Guðjónsson kennari.
´ Árni Guðmundsson, Háeyri
Frá vinstri er Jóhann Gíslason.
Þegar nýir félagar hlutu þá náð að fá inngöngu í Hreyfinguna,
voru þeir innteknir með sérstöku "ritúali", lamdir í hausinn með hvannanjóla og
skvett kakói í klæði þeirra.
Voru þeir að því loknu fullgildir til starfa.
Heimaklettur og Ystiklettur voru uppáhaldsstaðir, sem oft voru heimsóttir.
Þá Hvíld, fögur brekka sunnan í Blátindi, óskipta aðdáun félaganna.
Á hverjum stað voru byggðar hlóðir og þar soðið kakóið.
Ekki mátti nota prímus eða önnur hitunaráhöld, kakóhreyfingin fyrirleit öll slík
áhöld frá vélamenningunni.
Meðan beðið var að syði í pottinum, var sungið og kveðið.
Loks þegar kakóið sauð, ráku allir upp öskur mikið og hrópuðu:
Það sýður, það sýður!
Þá var upphafinn söngur Kakóhreyfingarinnar:
Nú drekkum við kakó með kæti í lund o.s. frv.
Nú tók hver fram sína drykkjarkönnu og brauð og flatkökur var dregið upp úr
bakpokanum og snætt af mikilli lyst.
Jafnan var dansaður ástríðuþrunginn dans kringum hlóðirnar og sungið með
sérkennilegt lag.
Þetta hafði örvandi áhrif á eldinn, enda gert í særingarskyni ef illa logaði í hlóðunum.
- Kölluðu sumir þetta villimannadans.
Margar ljósmyndir voru teknar af Kakóhreyfingarfélögunum á ýmsum stöðum
Heimaeyjar við allskonar störf:
inntöku nýrra félaga, kakódrykkju, særingardans umhverfis eldinn o.s. frv. -
- Myndirnar geyma minningarnar um lífsglaða unga menn,
sem elskuðu eyjarnar sínar fögru og kynntust rækilega fegurstu stöðunum á
þessum gönguferðum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2011 | 18:06
MYNDRÆNIR MOLAR FRÁ LIÐINNI ÖLD Í EYJUM.
Guðrún Ingubergsdóttir og
Sigurður Ingi, Árni Johnsen bakatil.
Séð vestureftir Vesturveginum.
Systkynin Tómas og Erla Pálsbörn.
Jóhann Björgvinsson, betur þekktur sem Jói danski.
Karl Björnsson læknir 2 ára. Er hér að hjálpa
afa sínum og mundar hamarinn mjög fagmannlega.
Derhúfan hans afa er greinilega aðeins of stór á mig!
Á sjómannadag. Hér er sjósund á milli Bæjarbryggju og
Edinborgarbryggju.
Jeppi hífður frá borði báts í Þorlákshöfn.
Árið 1945.
Bloggari síðunnar situr hér á húddi
vörubíls föður síns.
Takið eftir bensíndælunni!
Dægurmál | Breytt 10.3.2011 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.3.2011 | 12:21
ÞÓRÐUR MALAKOFF.
Þórður Árnason mun hafa fæðst, 1830 og var betur þekktur í henni Reykjavík,
sem Þórður malakoff.
Þórður stundaði sjóinn, ættaður úr Garðinum, en fluttist ungur til Reykjavíkur:
"Hann elskaði þilför hann Þórður,
og því komst hann ungur á flot", segir í kvæðinu um hann.
Þótti hann vaskleikamaður,
mikill vexti og sterkur og lét ekki hlut sinn fyrir neinum,
er á kraftana reyndi.
Margar sögur eru af ýmsum afrekum hans.
Ein segir, að hann hafi borið 200 punda (100 kg.) rúgmjölspoka hvíldarlaust frá
Hafnarfirði til Reykjavíkur, og fékk fyrir 2 krónur.
Þórður hneigðist snemma að drykkju og því meir, sem á leið.
Um miðjan aldur tók hann að slá slöku við sjóinn því,
"sjómennskan er ekkert grín"
og tók að vinna fyrir sér með ýmsum viðvikum fyrir kaupmenn og verslanir þeirra,
einnig stundaði hann það,
að vera vatnsberi.
En þorstinn í hina sterku drykki magnaðist með ári hverju, og fór svo að lokum,
að hann sinnti lítt vinnu, en hafði öll spjót úti til þess að ná sér í löggina.
Hann varð tíður gestur á krám bæjarins, þar sem staupasala var, og varð vel til
fanga.
Dögum og vikum saman reikaði hann um, án þess að af honum rynni.
Vikapiltur á Hótel Íslandi frá þessum árum, sagði að Þórður hafi verið tíður gestur
á veitingastofuna, sem kölluð var
"Svínastían".
Þar var eingöngu selt brennivín og aðra sterka drykki í staupum og blikkmálum.
Þórður var mikill drykkjumaður en aldrei svo drukkinn,
að hann væri ekki ferðafær.
Þó Þórður væri mikill að vallarsýn og allsvakalegur, var hann meinleysismaður.
Stundum greip hann uppivöðsluseggi, þegar þeir voru sem æstastir,
og setti þá niður sér við hlið, eins og óþæga krakka, hélt þeim þar,
uns þeir sefuðust.
Og engan vissi ég svo djarfan,
að hann sýndi Þórði mótþróa.
Öllum þótti sjálfsagt að hlýða heljarmenninu.
Klæðaburður Þórðar var fábrotinn, vaðmálsjakki og buxur og var oftast vestislaus,
en stundum í prjónapeysu undi jakkanum.
Hattkúf með mjóum börðum, og voru börðin alltaf brett niður fyrir eyru,
ærið fornlegur.
Auknefnið "malakoff" sem Þórður bar, vildu sumir halda því fram, að tilkomið væri,
að Þórður malaði kaffi fyrir verslanir í bænum.
En aðrir ,
og er sennilega nær lagi, að á þessum tíma var í tísku dægurvísa er hófst á
þessari ljóðlínu:
"Malabrock er död í Krigen".
Malabrock var hershöfðingi á þessum tíma á meginlandinu.
Vísan barst til Reykjavíkur,
og fyrr en varði var Þórður ímynd hershöfðingjans,
og alamala færðist yfir í "malakoff".
Læknaskólanemendur renndu hýru auga til Þórðar,
og gerðu við hann kaup:
Þeir útveguðu honum tiltekna fjárhæð til þess að kaupa brennivín fyrir,
en í staðinn lofaði hann því í votta viðurvist,
að læknaskólinn mætti eiga hans jarðnesku leifar til rannsóknar, þegar hann væri
allur.
Og Þórður fékk peningana og drakk út á skrokkinn sinn og hélt áfram að lifa.
Þá barst það um bæinn að Þórður væri allur.
Brá læknanemum illa í brún, er þeir hittu karlinn sprelllifandi og vel hýran í einni
versluninni.
Þá varð bragurinn frægi til:
Þó deyi aðrir dánumenn
Loff Malakoff!
Hann Þórður gamli þraukar enn.
Loff, Malakoff! Mala! Lifir enn hann Malakoff,
þótt læknar vilji flensa í Malakoff-koff,-koff,
þá lifir Malakoff.
En svo fór auðvitað að Þórður dó.
Læknanemar þess tíma tóku til starfa að kryfja líkamshluta alla af mikilli
vísindalegri nákvæmni,
og þótti undarlegt, hversu líkamsbygging Þórðar var traustleg, vönduð með
afbrigðum, og þótt undarlegt megi virðast,
fundu nemarnir hvergi spor eftir allt það brennivín,
sem hann hafði hesthúsað inn um dagana.
Þegar svo nemarnir kistulögðu Þórð, var skál gamla mannsins drukkin og
heiðrúnardropum stökkt á hans jarðnesku leifar.
Þannig endar saga Þórðar, en um hann lifir í söngnum,
sem hefur verið lærður og kyrjaður í 100 ár.
Stúdentarnir sáu um það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2011 | 16:45
UM FRÆGAN VASAHNÍF OG Á ÞJÓÐHÁTÍÐ Í EYJUM.
Vasahnífur Eyjólfs í Fjósum. Hann var gerður úr
þremur efnum, járni (stáli) silfri og mahogny.
Blöðin eru þrjú, mismunandi að stærð. Krókur sem Eyjólfur notaði
til að kraka úr hófum, korktrekkjari, þá alir tveir.
Flísatöng og tannstöngull, einnig blóðbíldur til að taka
blóðtöku stórgripa.
Langt er síðan ég heyrði fyrst getið um hníf Eyjólfs, segir Þórður Tómasson
safnavörður í Skógum, einnig hvernig hann komst í hendur hans.
Það skeði í ársbyrjun 1973 að ég stóð við dyr hússins Þingeyri við Skólaveg í
Vestm.eyjum.
Vingjarnlegt bros frá henni Guðrúni Eyjólfsdóttir frá Fjósum mætti mér.
Það var gott að þú komst, því hnífurinn hans föður míns á hvergi heima,
en á safninu í Skógum.
Jóna eldri systir Guðrúnar var láti, þegar þetta var 1973, en þær systur fluttu
1960 til Eyja frá Fjósum.
Jóna var einnig listasmiður eins og faðir hennar og eru gripir á safninu í Skógum,
sem hún smíðaði.
Þegar ég var peyi í sveit fyrir 58 áru síðan, eða árin 1953-4-5-6 þá var það í
Neðradal, Mýrdal, en á milli bæjanna Neðradals og Fjósabæjarins var örstutt.
Hér má sjá bæinn Fjós í baksýn, en ég og bóndinn í Neðradal eru hér
að vinna við að ná heyi saman.
Fyrsta sumarið mitt í Neðradal, þá var sumardrengur í Fjósum, Magnús Jónsson,
bróðir Sigurjóns apótekara hér um árabil.
Var hann, Sigurjón einnig á þessum árum hjá Guðjóni í Stóra-Dal, ca. ein
fótboltavallarlengd var á milli þeirra bræðra.
Annað sumarið mitt í Neðradal var Kjartan vinur minn Guðfinnsson, sem lést á s.l. ári
langt um aldur fram.
Kjartan Guðfinnsson tengdasonur Sigga á Freyjunni.
Oft heyrði ég um það rætt, hversu Eyjólfur í Fjósum hafi verið mikill hagleiksmaður,
og svo Jóna dóttir hans.
Það sem ég man af systrunum var m.a., þegar þær áttu erindi til Víkur.
Þá gengu þær út dalinn með 3-4 metra millibili og töluð mjög hátt, svo vel mátti
greina.
Ekki virtust þær alltaf sammála og heyrðu fremur illa, svo þeim lá þessvegna
sjálfsagt hátt rómur.
Eitt sinn er ég átti erindi að Fjósum fyrir húsbónda minn,
var mér boðið inn í bæinn.
Inni var var allt sérlega hreinlegt og snyrtilegt.
Ekki var bakkelsið, sem á borð var borið fyrir mig neitt "slor".
Hvít lagterta með rabarbarasultu og margar gerðir af smákökum.
Þessu renndi ég niður með ískaldri nýmjólk af bestu list.
Þakklátur var ég systrunum fyrir góðgerðirnar, því á þessum árum í sveitinni var
maður látinn vinna
eins og orkan leyfði og þessvegna alltaf svangur.
Kjartan ásamt hundinum í Neðradal honum Kuta.
Vatnið í baksýn er Oddnýjarvatn, eðaTjörn.
Einu sinni kastaðist í kekki millum mín og annarrar systurinnar, Jónu.
Það var þegar við Kjartan ákváðum að fara á Þjóðhátíð heim til Eyja.
Ég kom að morgni laugardags til að ræsa Kjartan og bankaði á glugga, sem ég vissi
að Kjartan svaf undir.
Birtist þá ekki Jóna í glugga, sem út að hlaðinu snéri og byrjaði að hundskamma mig
og vandaði mér ekki kveðjurnar.
Sagði að best hefði verið að skvetta úr hlandkoppnum yfir mig, fyrir það
að draga hann Kjartan til Eyja, og það um hásláttinn.
Ekki létum við vinirnir slá okkur út af laginu, hvorki Jónu, húsbændur okkar og
héldum okkar striki.
Fórum svo frá Skógarsandi með flugvél, en þangað var áætlun á sumrin á þessum
árum.
Dægurmál | Breytt 2.3.2011 kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2011 | 17:08
ÖRLÍTIÐ TIL VIÐBÓTAR AF FÖRUMÖNNUM
Símon Dalaskáld var einn frægasti flakkari
landsins.,
Hannes roðauga var einn þessara manna, sem fóru um sveitir.
Hann var óþrjótandi brunnur að segja sögur; gat hann haldið út með það dag eftir
dag, ef því var að skipta, og svo hitt, að hann hafði alltaf eitthvað á milli handa,
svo sem að þæfa sokka og stærri flíkur.
Elti skinn svo vel, að af bar o.fl., sem allt var þegið af kvenþjóðinni.
Hannes var fremur lítill og grannur.
Hann lét ávallt þvo af sér, og bendir það til að hann hafi verið hreinlegur.
Roðauganafnið kom til af því, að hann fór einhvertíma að nota roðauga fyrir
gleraugu til að líta betur út.
Langstaða-Steini var einn þessara farandmanna.
Aðalskemmtunin af Langstaða-Steina voru eftirhermur hans, en hann var snillingur
í að herma eftir og þó sérstaklega að tóna eftir prestum í Árnessýslu.
Þá var einnig gaman þegar Þorsteinn lék alla hreppsnefndina í
Hraungerðishreppi, þegar þeir voru að setja niður, ráðstafa ómögunum.
Lét hann alla umræðuna snúast um bölvað letiblóðið hann
Langstaða-Steina.
Hafði hann róm úr hvers manns munni, og var vitnisburðurinn ófagur, enda vildi
enginn sjá hann.
Töldu þeir allir fara best á því,
að hann hrykki upp af sem fyrst, en en þetta fór nú aldeilis öðruvísi,
því Stein lifði langt fram yfir hreppsnefndarmennina - eða fram undir nírætt,
og sannaðist á honum, að þeir lifa lengst, sem með orðum eru vegnir.
Halldór Hómer flakkaði um Austurland.
Hann fór um sveitir með leikatriði.
Hann var einskonar trúður, sem fór um og skemmti - og tók hlutverk sitt alvarlega.
Hann söng og lék m.a. barnagælur, sem hann samdi sjálfur.
Kveðskapurinn sem Halldór samdi var afar sérkennilegur, svo ekki sé meira sagt.
Hér er vísa sem hann flutti oft, með viðeigandi látbragðslist og dansi:
Guðmundur í geðið þaut
líkt var það sem gamalt naut
skyrpti fast og skeggið strauk,
þar rauður loginn brann.
Hnykillinn í húfunni hjólliðugt rann
Tromm, tromm, heilla mín.
Á síðari hluta 19. aldar fór Einar grettir um, með kálfshala í farangrinum, og hafði í
frammi skríngilæti til skemmtunar.
Ein helsta list hans var í því fólgin, að "kálfast".
sú íþrótt var í því fólgin, að hann hengdi á sig halann og líkti síðan eftir kálfum,
þegar þeim er hleypt út í fyrsta skiptið á vorin.
Marga fleiri mætti til nefna af þessu fólki sem háði lífsbaráttu sína, með flakki
og bónbjörgum um sveitir landsins.
Hér eru nokkrir til nefndir:
Árni gersemi,
Jónas blánefur,
Sveinn holgóma,
Sigurbjörn flækingur,
Rauði-Finnur,
Jóhann sólskjöld.
Nú er allt hér á landi svo breytt, að hinir fornu flakkarar þrífast ekki lengur,
ekki auðið að ferðast langt peningalaus, greiðasala orðin almenn, samgöngur
og öll ferðatæki allt önnur en fyrrum, auk þess hugsunarháttur fólks mjög breyttur
frá því er var,
þótt eigi sé lengra til jafnað en mannsaldur.
Gamla flökkufólkið er farið og kemur aldrei aftur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2011 | 22:09
AMERÍKUFERÐIN GÓÐA.
Walt Disney World í baksýn.
Sigríður ,Azíta,Þorkelljr. Sigurjón og Sigþóra.
Í byssuversluninni hans Tim's Guns and Range Class III.
Þrátt fyrir að vera friðarsinni og enga trú á mátt fírveksins í heiminum
stóðst ég ekki mátið, að máta eina hríðskotabyssu.
Á æfingarsvæði verlunarinnar skutum við á mark eins og óðir menn
Kanarnir í verluninni vildu meina að hér væru Íslenski Rambóar mættir,
og hristu höfuð sín.
Það er öllu friðsamlegra yfir þessari kvöldmáltíð.
Barnabörn mín, Sigþóra og Azíta.
Í Ameríkuferðinni var yngsti meðlimur fjölskyldunnar, hún Natalía
barna-barnið mitt.
Á bak má sjá
ömmu hennar, tengdadóttir mína og Ólaf Helga son minn.
Florída er þekkt fyrir appelsínuræt og þegar ég trimmaði á
morgnanna í sól og sumaryl, voru appelsínuakrarnir vítt og breitt
á leið minni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2011 | 15:09
FÖRUMENN FRÁ FYRRI TÍÐ.
Guðmundur kíkir var einn af þeim sem síðast
fóru um Suðurlandið á flakki sínu.
Frá því í fornöld hafa hér á landi verið fleiri eða færri,
sem hafa gert flakk að lífsstarfi sínu að meira eða minna leyti.
Ýmist bað það um gjafir eða settist að á heimilum eins og því sýndist.
Þetta varð á fyrri tímum mesta plága, eins og mörg rit sýna.
Þegar óvenju mikil harðindi, eldgos eða fiskileysi orsökuðu bjargarskort,
varð fólk beinlínis neytt til að flakka.
Flakk var að vísu óheimilt, undir flestum kringumstæðum og lágu við því,
hýðingar og ærumissir.
Flakkararnir, sem kölluðu flakkið ról, höfðu það að orðtaki sín á milli:
Það má vera góð vist, ef hún er á við rólið.
Jón Gissurarson var einn þessara manna sem tilheyrðu flökkurum.
Hann hafði misst sjónina á öðru auga mjög ungur, þannig að bor rakst upp í
augað á honum.
Svo var það, er hann var um þrítugt að hvellhetta fór í hitt auga hans,
og gerði hann alblindan til æviloka.
Á meðan hann hafði sjón, mátti svo heita að hann bæri af ungum mönnum
bæði að myndarlegheitum og greind og allri karlmennsku.
Sagt var að hann hafi farið til sjóar á hverri vertíð,
en vont verk hafi það þótt, að leiða hann í vondum veðrum.
Aðalvinna Jóns eftir að hann varð alblindur var að ríða körfur úr viðartágum,
og þóttu þær snilldarvel gerðar,
jafnvel vatnsheldar.
Ekki hefi ég séð af því sem um Jón hefur verið sagt, að hann hafi verið með
eitthvert uppnefni.
Þó tel ég sennilegt að hann hafi verið, manna á milli kallaður
Jón blindi.
Jón andaðist 74 ára vinafár og óefað saddur lífdaga.
Sannaðist á honum sem mörgum öðrum,
að annað er gæfa en gjörvileiki.
Bjarni læða var annar af þessu mönnum sem lagði fyrir sig flakk.
Líklega var viðurnefnið til komið af því,
að honum var tamt að segja, þegar honum var strítt, sem oft var:
Það vil ég þú látir, helvítis læðan þín, eða sjálfur ertu læða, - en með þessu
læðunafni var honum mest strítt.
Eitthvert sinni kom hann til Lárusar Pálssonar hómópata á Sjónarhóli, en vissi ekki
að það var Lárus sjálfur, sem hann átti tal við um hve hann Lárus drykki mikið,
en varð svo hræddur og hentist í burtu, þegar hann komst að því rétta,
við hvern hann var að tala, og sagði:
Guði sé lof, að ég sagði þó allt satt.Bjarni var nokkuð stór vexti og ekki ólaglegur,
hafði hringskegg sem þá var siður og tuggði tóbak, ef hafði.
Latur var hann, en illa lyntur, og af því mun flakk um landið hafa stafað og svo
af leti hans.
Eyjólfur tónari flakkaði um nokkur ár hér á Suðurlandi.
Eyjólfur var lágur vexti, en þrekinn, búlduleitur í andliti og nokkuð holdugur.
Eyjólfur skemmti fólki með tóni sínu og var svo frábrugðið öllu öðru,
sem menn heyrðu,
að það var ómögulegt annað en komast í gott skap að heyra í karli.
Stundum var hann færður í hempu- pils - og setja á hann prestskraga - breiðan
hvíta klút á herðarnar á honum - og setja hann upp á einhvern pall.
- Þá byrjaði hann fyrst á tóninu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þorkell Rúnar Sigurjónsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- ibvfan
- fosterinn
- maggibraga
- solir
- georg
- gretaro
- sigthora
- kjartanvido
- eyglohardar
- rustikus
- svenko
- eyjapeyji
- kokkurinn
- valdivest
- disin
- smarijokull
- kristleifur
- gudnihjoll
- sjonsson
- nautabaninn
- prakkarinn
- bergen
- icekeiko
- asthildurcesil
- joiragnars
- hallarut
- annabjo
- jensgud
- jonaa
- svarthamar
- kaffi
- stormsker
- olinathorv
- zunzilla
- gbo
- steinibriem
- siggith
- ea
- svanurg
- tannibowie
- valdimarjohannesson
- martasmarta
- gullfoss
- elnino
- sunna2
- thjodarskutan
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar