Færsluflokkur: Dægurmál

ORRUSTUVÉL BROTLENTI Í HELGAFELLI 1944, HÉRNA Í EYJUM.

 

 

 

waarhawk


P. 40 ´Bandarísk orrustuvél úr sinni heimstyrjöldinni.
Vél sömu gerðar og fórst í Helgafelli árið 1944.

 

 

 

 

 

Ég man það þegar ég var peyi 7-8 ára gamall hefi ég verið,  þá fór ég einhverju sinni

upp í Helgafell ásamt félögum mínum til að skoða ummerki efir vélina sem fórst

á stríðsárunum hérna í Helgafelli.

Það sá aðeins á mótor vélarinnar,  þrátt fyrir að liðin voru 6 ár frá því hún fórst og

Kanarnir höfðu reynt að husla yfir brakið.

Vélin ´skall norð-austan í miðri hlíð Helgafells.

Flugmaðurinn varpaði sér út í fallhlíf.

Sveif hann vestur fyrir Hamarinn og lenti í sjónum, örskammt frá landi.

Rétt áður en flugmaðurinn lenti í sjónum kastaði hann skammbyssu sem hann var

með,  sjálfsagt til að hún íþyngdi honum ekki.

Peyjarnir í Eyjum fylgdust grannt með og einn þeirra varð til að finna skammbyssuna.

Sá mun hafa verið Sigurður Sigurðarson frá Vatnsdal.

Blíðskaparveður var og ládauður sjór.

Flugmaðurinn komst að landi og upp í flæðarmál, þegar golfmenn úr Herjólfsdal komu

og björguðu honum á land.

Sagan segir einnig frá því,  að læknir okkar Eyjamanna,  Einar Guttormsson hafi

komið þar að,  og hafi hann ætlað að hressa flugmanninn svolítið við eftir volkið,

og boðið honum koníaksdreitil.

Flugmaðurinn afþakkaði gott boð Einars,  þar sem það hefði sjálfsagt verið litið

alvarlegum augum af herlögreglunni ef hann hefði angað af vínlyk við yfirheyrslu,

nýbúinn að missa undan sér heila orrustuflugvél.

 

 

 

 

 

Atburður þessi átti sér stað þann 10. apríl á mánudegi, sem var annan í páskum, 1944.

og mun slysið haf gerst á milli 16.oo og 17.oo,  því börn og unglingar voru að koma úr

þrjú-bíói í Samkomuhúsinu.

Hermenn girtu svæðið af og urðuðu flakið.

Nokkru síðar fóru þeir að skoða flakið nánar en fundu sér til undrunar,  ekki

vélbyssuna.

Þá höfðu einhverjir Eyjapeyjar hirt hana og heilmikið af skotum og földu í heyhlöðu,

svo rækilega,

að hún fór undir hraun í gosinu.

Sá sem tók vélbyssuna til handagagns átti á þessum tíma heima í Ólafshúsum og

var þá ellefu ára og heitir Hilmar Þorvarðarson.

 

 

Frændi minn fór fyrir mig á stúffana inná elliheimili og ræddi þar við einn góðan mann,

sem mundi atvik frá þessu slysi.

Hann byrjaði á,  að fara með frænda minn afsíðis og leit í allar áttir hvort einhver

fylgdist með þeim. 

Frændi minn hélt í alvörunni að sá gamli ætlaði að greina sér frá alvöru

hernaðarleyndarmáli í tengslum við flugvélina, því nú fór sá gamli  að segja frá í

hálfum hljóðum.

Maður sem hann tilgreindi og bjó austur á bæjum varð einn af fyrstu sem að vélinni 

komu,  ætlaði sér ekki vélbyssuna né neitt slíkt,

heldur voru það, 

 hjól vélarinnar sem hann ágirntist.

Þetta fannst nú frænda mínum ansi þunnt leyndarmál frá gamla manninum,  en honum

hefur sjálfsagt þótt hann vera að greina frá atviki,  sem Kaninn mátti ekki heyra,

þó liðin væru sextíu og sjö ár síða Bandaríska orrustuvélin,

fórst hér í Eyjum,

í hlíðum Helgafells.  


ÞEGAR MAGGI SKAUT BRETUNUM SKELK Í BRINGU.

 

 

 

535
Sonarsonur minn og alnafni mundar hér nýtískuvopn í vopnaverslun
í Bandaríkjunum um s.l. áramót.
Þau voru ekki neitt í líkingu vopnin á stríðsárunum,  en eitt eiga þau sameiginlegt,
 það er að drepa fólk.

 

 

 

Magnús Magnússon var tíu ára snáði á stríðsárunum hér í Eyjum og bjó í húsinu

Kornhóli vestan við bragga Breta á Skansinum.

Hann var heimagangur hjá hermönnunum og fljótlega talandi á ensku.

 

Ég borðaði yfirleitt hjá þeim,  þeir voru með allt annan mat en við og betri t.d. ávexti,

sem aldrei sáust á borðum Íslendinga.

En ég man samt,  að ég stal oft kartöflum heima og færði þeim.

Þeir sneiddu þær niður og steiktu úr feiti,  eins konar franskar.

Mér fannst þetta ofsalega gott og finnst enn,  en þetta var það eina að ég held,

sem ég færði þeim.

 

 

Þegar þeir fengu útborgað í Kuða,  stungu þeir að mér súkkulaði,  og ég man að ég fékk

upp í 50 súkkulaðistykki á viku.

Og þegar ég fór í sveit sumarið 1942,  báðu þeir mig að koma við hjá sér,

þegar ég færi um borð í bátinn.

 

Þá var mér gefinn kútur,  álíka stór og hálfir gömlu vínberjakútarnir,  fullur af

brjóstsykri.

Ég átti þetta allt sumarið og var þó ónískur á hann.

 

 

Magnús segir fullorðna ekki hafa fengið að koma í herskálana en hann hafi verið þar

heimagangur og hermennirnir oft komið á heimili sitt.

Og væri hann veikur eða ekki komið þann daginn,  hafi þeir komið að vitja sín og spurt:

Where is Maggi!  Where is Maggi?

Eitt sinn lá hann veikur,  og þá færðu þeir honum epli og appelsínur.

 

 

Magnús segist oft hafa fylgst með hermönnunum við æfingar austur á Urðum.

Eitt sinn voru þeir að ljósmynda hann við vélbyssu á Skansinum,  og þá munaði litlu,

að illa færi.

Síðan var ég myndaður með handvélbyssu,  sem var með stóru hjóli og fullt af

skotum.

Þegar ég stillti mér upp,  tók ég óvart í gikkinn og fretaði þá helling úr hjólinu,  og lenti

það í sandpokum á milli fóta eins bresks vinar míns.

Ég stóð bara þarna og hristist,  en sem betur fer,

hreyfði ég ekki byssuna,  þannig að öll skotin fóru í sandpokann.

Ef ég hefði hreyft hana til hliðar,  hefði ég sagað af honum fæturna,  og ef hlaupið hefði

farið upp á við,

hefði ég drepið hann þarna. 


Á STRÍÐSÁRUNUM 1939-45 HÉRNA Í EYJUM.

 

358
Þegar við vorum í Bandaríkjunum um jól og áramót s.l.
komum við í forngripaverslun þar sem þessi
 forlát hermannariffill var til sölu.
Sonur minn Sigurjón stillir sé upp fyrir myndatöku.

 

 

Á stríðsárunum 1939-45 var staðsettar hér í Vestmannaeyjum herbúðir austur á

Urðum og voru þar fyrst Bretar og svo Kanar.

Sambúðin við herinn var yfirleitt árekstrarlaus.  Þó kom eitt sinn til ryskinga milli

Íslendings og hermanns.  Hann átti vakt á bryggjunni og varnaði Guðna Jónssyni

formanni að ganga til skips.

Hann var karlmenni og hafði engar vöflur á og afvopnaði hermanninn.

Tók hann byssuna og hafði með sér á sjóinn,  en þegar hann kom úr róðrinum,

beið lögreglan hans á bryggjunni ásamt herlögreglu.

Fóru þeir með hann til herbúða sinna í Kuða.

Þar var honum stefnt fyrir herrétt,  enda var árás á vopnaðan varðmann litinn mjög

alvarlegum augum.

Bæjarfógeti,  Sigfús M. Johnsen krafðist þess,  að dæmt yrði eftir íslenskum lögum,

og var það gefið eftir.

Sýknaði hann Íslendinginn,  þar sem hermaðurinn hafði ekki byssuleyfi.


SKEMMTILEGT FÓLK Á SIGLÓ ?

 

 

Sigló
Setið á síldartunnu á Sigló.

 

 

 

Góð og skemmtileg bók um lífið og tilveruna á Sigló á síðustu öld.

Frásagnir af  mætum mönnum og sérstæðum eru lifandi, skemmtilegar og fróðlegar

aflestrar.

Sýnir aðeins,  að víðar en hér í Eyjum er og var til fólk sem setti sinn svip á

bæjarlífið í smærri samfélögum úti á landsbyggðinni.

Hér eru nokkur sýnishorn úr bókinni,

Svipmyndir úr  síldarbæ:

 

Saga sögð af af Vagga í Bakka,  sem var í siglingum og sagði sögur af eigin

ævintýrum:

"Ég átti kærustu í öllum stærstu hafnarborgum heims.

Sú fegursta og fjörugasta var brasilísk.

Í einum túr til Ríó vorum við saman heila nótt og þegar við gerðumðað í átjánda

skiptið þá kom bara úronum loft."

Annar góður var Hannes Beggólín.

Hann átti um skeið trillu og hafði aðstöðu í Bátastöðinni.

Einn af vinum hans, drykkjubróðir og trillukarl,  var Bjarni Bjarnason.

Kona hans var Sigga Bjarna sem var móðir Dóra Siggu Bjarna.

Sigga var fræg í bænum fyrir að hafa sagt við son sinn,  þennan stóra 15 ára dreng

sem hafði ráðið sig á togara:

"Í háskóla skaltu,  helvískur,  ekki vanta þig gáfurnar!"

En einhverju sinni snemma morguns heldur Bjarni að heiman með nesti sitt og ætlar

á sjóinn.

Á leiðinni suðurá bryggju lítur hann við hjá Hannesi á Bátastöðinni og verður að ráði

að þeir splæsa í flösku.

Og þarna sitja þeir inni í beitningarplássinu og spjalla og þeim líður vel.

Siggu varð hins vegar órótt heima og hafði grun um að Bjarni væri eitthvað að svíkjast

um.

Og þessi smávaxna en skapstóra kona arkar suðrí Dokk.

Og þarna liggur báturinn Bjarna bundinn í góða veðrinu og ekkert bólar á

sjómanninum.

Lá þá beinast við að kíkja inn hjá Hannesi Beggólín því hvar annars staðar gæti

hann alið manninn?

Þeir sjá hins vegar hvar sú stutta kemur siglandi á fullu stími og er ekkert annað

til ráða fyrir eiginmanninn en að fela sig í skyndi úti í horni bak við stæðu af

línubölum.

Sigga rífur upp hurðina og hrópar:

Hvar er Bjarni?

Ekki er hann hér svarar Hannes.

O víst,  ætli ég þekki ykkur ekki!

Grípur þá Hannes riffil sem hékk uppi á vegg,  hleður í skyndi og hvæsir á Siggu:

Ef þú hypjar þig ekki í burtu í hvelli þá skýt ég þig.

Og þegar hann sér að kella ætlar ekki að láta sig þá hleypir hann af upp í loftið

og með það sama er Sigga tekin til fótanna og horfin.

Heyrist þá mjóróma hljóð úr horni:

"Lá'ún?"

Eftir þessa stuttu nauðvörn héldu þeir áfram góðlátlegu spjalli í indælli

hitamollu beitningaskúrsins.

Þessi síðasta frásögn er um ágætis fólk,  sem margir þekkja og kannast við,

þar sem þau fluttu hingað til Eyja laust eftir 1960.

Viðurnefni á Sigló voru alltíð ekki síður en annarsstaðar á landinu.

Segir hér af einum í lokin.

Haraldur Blöndal,  faðir Péturs alþingismanns og fésýslumanns,  var snyrtimenni

og ól ungur með sér þann draum að verða ríkur,  en nokkuð átti hann í land með það

og var því kallaður;

Greifinn af skítblank.


BURTFLUTTUR LISTAMAÐUR FRÁ EYJUM.

 

 

Einn af mörgum listamönnum sem fæðst hafa hér í Eyjum og fluttist ungur á

fastalandið, 

er Áki nokkur Gränz.

Áki Gränz 
Áki Gränz listamaður.

Hann er bróðir Ólafs heitins Gränz 

sem lengst af átti heima í Jónsborg við

Heimatorg, 

 en eins og flestir vita hvarf það undir hraun 1973.

Áki sem er fæddur hér í Eyjum 1925,   býr nú í Ytri Njarðvík.

Hér segi hann stuttlega frá því þegar hann var  í skóla í Vestmannaeyju:

Ég hafði gaman af að teikna í skólanum í Eyjum.

Það voru gríðarleg þrengsli og margir í teikninámi.

Halldór Guðjónsson skólastjóri vildi ekki leyfa mér að vera í teikninámi.

Hann sagði að ég þyrfti ekki á því að halda og betra væri að einhverjir aðrir kæmust

að.

Þeir gáfu mér síðan alltaf 9,8 í einkunn í teiknun og ég fékk aldrei neina kennslu

Seinni hlutann í Iðnskólanum var Engilbert Gíslason kennari.

Foreldrar mínir vildu koma mér í eitthvað nám og þegar þau fluttu úr Eyjum

1942 til Selfoss var sjómennska,  eða iðnnám það sem hægt var að velja á milli.

Ég greip því tækifærið og fór á samning hjá Engilberti.

Hjá Engilbert lærði ég sérhæfingu sem heitir að oðra.

Þetta er gömul handiðn,  iðkuð fyrr á öldum hér á Íslandi og víðar.

Að oðra felur í sér að mála ýmsar viðartegundir og marmara.

Húsgögnin í þá daga voru smíðuð úr furu,  síðan voru þau máluð og loks voru þau

skreytt með þeim viðartegundum sem fólk óskaði eftir.

Það gat verið hnota,  eik, eða mahóní.

Mestur minn námstími fór í þetta.

Fólki fjölgaði alltaf mjög mikið á vertíðinni í Eyjum og sjómenn keyptu oft húsgögn

af smiðum og sendu þau til oðrunar á verkstæðið til Engilberts.

Engilbert hafði lært í Kaupmannahöfn ásamt Ásgrími Jónssyni listmálara.

Þeir unnu saman á verkstæði þar í borg og voru báðir í myndlistaskóla þar fyrir utan.

Áki
Mynd eftir Áka.

Ég vann við oðrun í fjögur ár.

Þegar foreldrar mínir fluttu úr Eyjum 1942 vildi ég ekki fara með þeim því

íþróttastarfsemin hélt fast í mig.

Ég keppti á mótum og fór í keppnisferðir,  þar á meðal í bæjarkeppnir,  og keppti einnig

á Íslandsmótum á Melavellinum.

Eitt sinn keppti ég við Gunnar Huseby í sleggjukasti og sigraði hann.

Ég átti jafnframt drengjametið í sleggjukasti lengi.

Þingvellir ári 1000 Áki
Þessi mynd eftir Áka er svo raunveruleg að engu líkara en Áki hafi verið
viðstaddur kristnitökuna á Þingvöllum ári 1000.

Í Reykjavík fór ég til að vinna og var oft beðinn að skreyta hús,  jafnvel fyrir aðra

málarameistara.

Mér er minnistætt að í Búnaðarbankanum þurfti ég að mála doppur á stærð við

tíeyringa gegnum skapalón upp eftir öllum veggjum.

Eina nóttina vorum við að mála veitingastað í Hafnarstræti eftir lokun.

Ég labbaði að Ísafold og fór að skoða í bókagluggann.

Kom þá maður að baki mér og fór að benda á bókarkápurnar og ræða um þær.

Þetta var Kjarval sjálfur og við áttum mjög skemmtilega stund þarna.

Ég sé eftir að hafa ekki farið með honum þangað sem hann bjó,  en það var þarna rétt

hjá.

Ég hitti hann  aftur síðar og mundi hann vel eftir þessu atviki um nóttina

Á þessum tím var ég svolítið að fikta við að mála vatnslitamyndir.

Eldgos Áki
Mynd eftir Áka af eldgosinu í Heimaey 1973.

Í dag er Áki orðinn 86 ára gamall og býr á heimili sín í Ytri Njarjaðvík.

Þrátt fyrir háan aldur er Áki karlinn eldhress.  


Í EYJUM ER VOR Í LOFTI.

 

 

img031

 

 

 Það er vor í lofti.

Gekk framá bæjarstjórann okkar hann Elliða þar sem hann var að skola af

bílnum sínum vetrarrykið.

Auðvitað heilsuðumst við að góðra manna siðum.

 

Þar sem ég er að minnast á bæjarstjórann okkar  verð ég að segja eins og er,

að mér finnst hann liggja undir miklu ámæli margra í þessum bæ hversu illa hefur 

gengið með Landeyjarhöfn.

Að mínu viti er ekki hægt að skrifa það á reikning eins manns þó ekki hafi hingað til

gengið  sem skyldi með ferðir Herjólfs og væntingar fólks um betri samgöngur.

Hitt er svo það,  og öllu alvarlegar,

að flogið hefur það fyrir að Vestmannaeyjaflugvelli yrði lokað hér um næstu áramót.

Það væri staða sem enginn Eyjamaður vill sjá að gerist.

 

En að allt öðru og léttara hjali.

Hásteinsvöllur verður grænni í dag en hann var  í gær  og það táknar aðeins eitt,

að á næstu grösum fer Íslandsmótið í knattspyrnu að hefjast.

Lítið sem ekkert fréttist af karla liðinu nema það eitt,  að þeir eru nýkomnir úr

æfingarferð til útlanda.

Engar fréttir af nýjum framherja fyrir liðið í stað Gunnars Heiðars, sem því miður stóð

hér stutt við,  eins og allir vita.

Auðvitað geta menn ekki gert sér miklar vonir um góðan framherja fyrir liðið,

nema borga eitthvað fyrir,  en það virðast menn ekki tilbúnir í,

því miður.

Nú eigum við einnig kvenna lið í efstur deild og hlakka ég svo sannarleg til þess,

að fylgjast með þeim.

Kæmi ekki á óvart,  að stelpurnar muni koma virkilega sterkar til móts í sumar.

Allavega er ég bloggari síðunnar kominn með "fiðring",

 ekki í tærnar,

heldur eru það raddböndin hjá mér,  sem bíða spennt eftir að boltinn fari að rúlla.

Það varð mér á orði,  síðasta leikinn sem hann Tryggvi lék með FH hér á

Hásteinsvelli,

 hvort ég ætti ekki að ljá honum göngugrind,  að leik loknum, auðvitað sagt í hita

leiksins 

img248 
 

Það langar mig að segja honum Tryggva og öllum,  án þess að ég sé á nokkurn hátt að

rýra álit mitt á öllum hinum í ÍBV liðinu, síður en svo,  að "Karlinn"  hefur verið slík

vítamínsprauta  fyrir liðið, að honum yngri menn, mega taka hann sér til

fyrirmyndar í baráttu og hvatningu innan sem utan vallar.

 

Aðeins eitt í lokin,

  þó ekki rúmist það beinlínis undir léttara hjal,  eins og ég sagði hérna áðan.

Hvað skal segja á laugardaginn kemur,

á maður að segja "já eða nei,  eða nei eða já,"  þar er nokkuð erfitt um að segja.

Það virðist enginn vera með það á tæru,

hvað sé það besta fyrir okkar hrjáða þjóðfélag.

Eitt veit ég þó, 

 á kjörstað mæti ég. 

  


FRÁBÆR KNATTSPYRNA HJÁ ÍSLENDINGUNUM Í PRESTON.

 

 

 

Það var eitthvað annað að sjá til U21 árs landliðsins  en hörmungina  niðurfrá

 hjá svokölluðu A-landsliði karla, um daginn.

Hraðinn, tæknin og krafturinn,

allt til staðar hjá þessum ungu stráku þarna í Preston.

Frábær leikur og og góð skemmtun.

Takk fyrir drengir.


mbl.is Íslendingar höfðu betur gegn enskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MATARBOÐ FYRIR ÞRJÁ FÖRUMENN.

 

 

 

Halldór Hómer
Halldór Hómer förumaður.

 

 

 

Halldór Hómer einn af mörgum þeim,  sem um héruð fóru á fyrri tíð var mesta

prúðmenni í allri framgöngu,

allra manna kurteisastur og notaði mikið bugt og beygingar.

Snyrtimenni var hann svo af bar og hreinlátur.

Aldrei fylgdu honum óþrif af neinu tagi,  sem fátítt var á hans tíð,  að ekki fylgdi

förufólki.

Sagt var að hann sneiddi hjá bæjum þar sem skorti hreinlæti.

Alltaf var hann vel til fara og hirti föt sín í hvívetna,  svo framt að því yrði við komið.

Fötin voru mest uppgjafaföt af prestum og kaupmönnum,  en lítið slitin.

Oft var hann í þrem frökkum til að vekja á sér athygli.

Hann tileinkaði sér borðsiði af heldrafólki og fylgdi þeim út í æsar.

Halldór var neyslugrannur og borðaði hóflega.

 

Til er frásögn um eitt borðhald,  sem Halldór tók þátt í og hér segir frá:

 

Eitt sinn gistu 3 farandmenn að Eiðum á Fljótsdalshéraði í tíð Guttorms Vigfússonar

skólastjóra þar.

Menn þessir voru Gilsárvallar Guðmundur,  eða Gvendur,  sem kallaður var,

beljaki að vexti og matheill mjög.

Ekki þótti hann laus við óværu og talinn vitgrannur,  komst þó oft vel að orði og

orðhákur mikill.

Gvendur var talinn efnilegt barn,  en varð fyrir áfalli og "vantaði" eitthvað í hann

upp frá því.

Þeir Halldór Hómer og hann voru svarnir óvinir og fyrirlitu hvor annan.

Sá þriðji var Hallgrímur Víglundsson.

Hann var farandmaður að nokkru,  svaðamenni,  svo margir voru við hann hræddir.

 

Fólkið á Eiðum hugði nú gott til skemmtunar,  einkum með því að siga þeim

Halldóri og Gvendi saman.

Fyrsta skemmtiatriðið átti að vera í sambandi við borðhaldið.

Húsmóðirin á bænum var í fyrstunni treg að taka þátt í skrípaleik þessum,

en fór svo,  að hún leyfði þetta.

Var nú borð hvítdúkað og þar á raðað gljáfægðum diskum, auk hnífapara.

Ekki skorti rausn,

því fram var borið ket, harðfiskur og hákarl auk annars.

Halldór var í herbergi því sem dekkað var í og varð allléttbrýnn er hann leit til

borðsins.

Ekki þó vegna matarins einvörðungu,  heldur hinnar miklu viðhafnar.

Ekki hafði Halldór verið látinn vita um þá félaga,  heldur höfðu þeir verið geymdir

í piltahúsi og vinnumenn dvalið fyrir þeim.

 

Halldóri var nú sagt að gera svo vel og sest hann að borðinu,  hagræddi sér

fyrirmannlega,  lygndi augunum og byrjaði að lesa borðbænina.

En ekki er hann fyrr byrjaður en hann hrekkur upp við háreysti mikið og er hann

lítur til dyra,  birtist þar Gilsárvallar Gvendur og Hallgrímur á hæla honum.

Heldur þóttu það ófagrar augnagotur er þeir Halldór og Gvendur sendu hvor öðrum.

 

Tóku  þeir nú til matar síns og borðaði hver með sínu lagi.

Gvendur hóf sóknina með því að snara gafflinum út í horn og kvaðst ekki vita hvers

hann ætti að nota það verkfæri,  fyrst hann væri ekki að moka skít.

Rótaði hann síðan ketbitunum til með krumlum sínum latþvegnum,  valdi þá

girnilegustu úr og glotti þrælslega.

Hallgrímur tók upp sjálfskeiðung sinn og ruddist fast um.

Halldór Hómer féll í stafi yfir þessum aðförum og reyndi að setja upp fyrirlitningar

og meðaumkunarsvip.

Kanntu enga mannsiði,  Gvendur?  sagði Halldór.

Ég er nú ekki vanur að bæna mig mig lengi,  var svar Gvendar

Þú kannt  líkast til enga borðsiði.

"Gvendur greyið hefur nú lengst af étið sinn mat án þess að vera með einhverja

bölvaða tilgerð. ha, ha, ha.

Brúkaðu hnífapörin maður,  sagði Halldór og byrjaði að heldri manna sið.

En ekki var slíkt vænlegt til samkeppni,  því Gvendur tók nú hvern bitann af öðrum

af ketinu og stýfði úr hnefa,  gleypti hákarlinn og tugði  lítt harðfiskinn.

Þetta var líkt því að öllu væri hvolft í botnlausa hít,  því Gvendur gat étið á við marga

menn,  ef því var að skipta.

Hallgrímur gekk vasklega fram og fækkaði svo um föng,  að Halldór var rétt að byrja.

er borðið var nær hroðið.

 

Spratt hann þá upp af mikilli reiði og sagði ekki mögulegt,  að sitja til borðs með síkum

svínum,  sem Gvendi.

Hlógu menn þá allmjög.

Gvendur át meðan hann þoldi,  stóð síðan upp og fetti sig og bretti með allafkáralegum

tilburðum og leit hæðnislega á Halldór.

Illa féll Halldóri að Gvendur truflaði matarfriðinn yfir slíku veisluborði,  en nú kom

húsfreyjan og borðsetti Halldór Hómer í öðru herbergi, þar  sem hann fékk í friði

að éta það sem fyrir hann var lagt.


PRAKKARASAGA FRÁ EYJUM.

 

 

Ve.1938
Vestmannaeyjar árið 1938.
Við virðum fyrir okkur mynd frá löngu liðnum tíma og
endurminningarnar vakna hver af annarri.
Hús í röð við beinar götur, þar sem við áttum heima.
Hvítar breiður af saltfiski, þar hófst þátttaka margra í atvinnulífinu.
Garðlönd með gómsætum rófum.  Þetta var vettvangur okkar
og lífið var áhyggjulaust.  Við sjáum skólann okkar, einnig kirkjuna
þar sem við fermdumst.  Svo tók alvaran við með unglings- og
fullorðinsár.

 

 

 

 

 

 

Prakkarasaga:

Þannig var ástatt um hagi mína,  sem unglings í Eyjum að ég átti heima fyrir utan

bæinn og var einn af mörgum systkinum,  sem enga fyrirvinnu höfðu.

Oft var þröngt í búi og peningar sáust vart.

Stundum gátum við selt fisk og lifur sem aflað var ókeypis.

Fyrir þá peninga  keyptum við bræður skólabækur og stundum mat.

Eitt haustið var óvenju þröngt í búi.

Það var búið að vera tros á hverjum degi, lengi og normalbrauð og makarín með

kaffinu  á sunnudögum.

Á leið okkar í bæinn var hænsnakofi,  sem gamall karl átti og tilheyrði kannski Skuld,

London eða París.

Þangað fórum við að venja komur okkar til að næla okkur í egg.

Fyrst í stað var nú lítið af eggjum,  en einn daginn var nokkuð meira að hafa.

Í flýti reyndum við að sópa saman nokkrum eggjum og mikill hamagangur í okkur

við það,  því helv... læti  voru í pútunum og enginn friður.

Samt náðum við allmörgum eggjum og flýttum okkur út og földum okkur þar rétt hjá.

Í því sjáum við að sá gamli kom kjagandi með fötu með einhverju æti fyrir púturnar

sínar.

Karlinn var tölverðan tíma inni í kofanum og heyrðum við hann tautaði fyrir munni sér,

þegar út kom, 

 hvað hænurnar væru lélegar í varpinu.

Þegar karlinn var farinn þorðum við fyrst að rétta úr okkur og gengum í hægðum okkar

í bæinn,  því við ætluðum að selja eggin í versluninni Geysir,

hjá verslunarmanni,  sem við könnuðumst við og kallaður var

 "Jói rúsína",  en hann hafði oft lánað mömmu okkar þegar hún var í vandræðum,

og hann vissi að hún átti hænsni.

 

img129
Jói ásamt tveimur innanbúðardömum.

 

Jói var mikill knattspyrnumaður og í Þór,  og við bárum virðingu fyrir honum.

Það var frekar fátt um manninn eins og endranær og Jói viktaði eggin og bogaði okkur

5 til 6 krónur.

Síðan flýttum við okkur út.

En er við vorum við dyrnar heyrðum við að hann rak upp öskur mikið,

veifaði til okkar með einu egginu,  sem mun hafa verið gleregg og haft í bæli

hænsnanna til að þær verptu betur.

Við tókum til fótanna og flýðum eins og fætur toguðu og komumst burt án meiri

truflunar.

 

Bátarnir voru að koma að og sníktum við okkur í soðið og héldum svo heim á leið.

 

img049
Raggi í Steini og Keli í Ártúni á prakkaraárum sínum.

 

Við sneiddum framhjá Geysir og Jóa rúsínu og mamma okkar var ekki vond og virtist

ekki hafa frétt af tiltæki okkar.

 

Daginn eftir og reyndar langan tíma á eftir vorum við hræddir um að nú myndi

Stebbi pól koma og taka okkur  og setja í tukthúsið.

 

img093
Stebbi pól.

 

Hann kom aldrei og mamma talaði aldrei um þetta.

En mikið vorum við þakklátir Jóa rúsínu fyrir að kæra okkur ekki.

Seinna hafði ég lúmskan grun um,

að Jói hafi haft gaman af þessu atviki.

                                               Útlagar í sextíu ár. Grein svolítið stytt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband