Færsluflokkur: Dægurmál
13.11.2010 | 15:06
EITT OG ANNAÐ ÚR EYJUM.
Þetta viljum við sjá hérna í Eyjum.
Handboltavertíðin er byrjuð hér í Eyjum og sýnir öllum þessar fyrstu
vikur tímabilsins, að við erum í fremstu röð í handboltans, að getu,
bæði hjá konum og körlum.
Þar sem bloggari er ekki lengur að vinna í íþróttarmiðstöðinni,
hefi ég ekki fylgst eins vel með og áður.
En allir gera sér grein fyrir að grasrótin í íþróttum er það,
mikilvægasta og að vel sé að þeim hlúð, framtíðarsýn mörkuð og
ekki hvað síst, að þjálfarar séu góðir og samviskusamir.
Knattspyrnuhúsið er við það að verða tilbúið til notkunar og enginn
velkist þar í vafa um gildi þess og þar á bæjarfélagið heiður skilið fyrir
góða framgöngu.
Ekki aðeins fyrir þá sem æfa á keppnisforsendum, heldur einnig
fyrir almenning, sem fær þarna skjól fyrir vetrinum til liðkunar
og upplyftingar fyrir sál og líkama.
Hægt gengur,
að safna liði fyrir næsta sumar í knattspyrnunni.
Reyndar eru tveir frábærir komnir til sögunnar, þeir Ian Jeffs og
Guðmundur frá Selfossi.
Ekki má svo gleyma þeim sem fyrir eru og voru að gera það gott í sumar
og verða bara öflugri á næsta ári, en betur má ef duga skal.
Von mín er,
miðað við árangurinn í sumar og hversu nálægt við vorum að verða
Íslandsmeistarar, takist það á næsta tímabili.
Þrátt fyrir að ég var lengst af sumarsins erlendis og samt náðist þetta
góður árangur,
er kannski spurning um það,
að ÍBV kaupi mig til að verða barasta
allt næsta sumar á erlendri grundu !
Í síðasta bloggi mínu um sérstæða menn, kom fram ráðlegging manns,
að best sé að vera hlutlaus í pólitíkinni !
Þessi ágæti" karakter", Haukur pressari ráðlagði á sínum tíma,
Pétri Péturssyni útvarpsþuli, að vera alveg hlutlaus og ganga í
félag sjálfsstæðismanna og kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Ástæða þessara sérstæðu ráða að sögn Hauks voru, að best sé að
hætta því alveg að skipta sér af pólitík, það sé ömurlegt.
Menn tapi bara á því og það sé tóm vitleysa.
Það sé best að vera hlutlaus.
Þá verður enginn reiður við mann.
Það er ömurlegt að láta alltaf vera að skamma sig,
sagði Haukur pressari.
Það má segja með öllum munninum, að hann Haukur pressari hafði
þó nokkuð til síns máls, eða hvað ?
Hér í Eyjum hefur lengst af ráðið bæjarmálum, Sjálfsstæðisflokkurinn.
Ekki nóg með það, allir helstu póstar í atvinnumöguleikum fyrir okkur
hérna í Eyjum, eru í höndum yfirlýstra flokksmanna,
Sjálfsstæðisflokksins.
Þannig,
að staðan verður þannig því miður, að enginn venjulegur maður, sem
ekki getur veifað bláu flokkskírteini, þorir hreinlega ekki að tjá
sig,
né andmæla nokkru í þessum ágæta bæ okkar.
Varnaðarorðin hans Hauks pressara virðast eiga svo sannarlega upp á
pallborðið hérna í Eyjum, því miður.
Kannski færi best á því, að ég og allir aðrir,
stein héldum kjafti..
Samt er það svo, að ég er í engu skapi til að láta kyrrt liggja ýmislegt,
sem okkur varðar hér í Eyjum.
Um daginn bloggaði ég smávegis um það, sem að kvóta lítur.
Engin viðbrögð,
þrátt fyrir að það sé um líf eða dauða þessa
bæjarfélagsins að ræða.
Ég fullyrti,
að óbreytt fiskveiðistefna gæti gert okkur hér
algjörlega berstrípuð atvinnulega, ef stærstu eigendur kvótans hér
í Eyjum,
tækju allt í einu upp á því, að selja hann hæstbjóðanda,
eins og nærri því gerðist fyrir rúmlega þremur árum síðan.
Fyrir stuttu síðan hnaut ég um ætlan bæjaryfirvalda,
að nú skuli hætta að skipta við einkaaðila með kerfisfræði þjónustu..
Sem sagt,
nú á að Sovétvæða hjá bænum.
Svolítið hlálegt þar sem flokkurinn, sem vill frelsi á öllum sviðum skuli
nú reyna að drepa niður einkaframtakið.
Auðvitað er virðingarvert að reyna að spara, en reyndi bæjarfélagið,
að bjóða út kerfisþjónustu fyrir bæinn ?
Dægurmál | Breytt 14.11.2010 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2010 | 17:08
HAUKUR PRESSARI.
Haukur hét hann og var Guðmundsson, betur þekktur í Reykjavík undir nafninu,
Haukur pressari.
Einhversstaðar rak ég augun í frásögn Péturs heitins Péturssonar útvarpsþular á
árunum áður, sem segir frá samskiptum hans við Hauk.
Haukur vinur minn pressari hafði miklar áhyggjur af örlögum krónunnar.
Hann kveið niðurlægingar hennar og rýrnandi gildi.
Safnaði smámynt til þess að verjast fjárhagsáföllum lækkandi gengis meðan kostur
var.
Það mun hafa verið um miðjan sjötta áratuginn að Haukur ákvað að ganga á fund
Bjarna Benediktssonar, sem þá var dóms-og menntamálaráðherra.
Erindi hans var að leita ásjár Bjarna og ráða í peningamálum.
Haukur sagði:
Þeir segja strákarnir að krónan sé alltaf að lækka og verði bráðum ónýt.
Gerðu það fyrir mig Bjarni minn.
Reyndu að passa þetta. Ég segi þér satt það er ómögulegt að standa í þessu lengur.
Það þýðir ekkert að vera að safna aurunum ef allt verður að engu.
Ég er með fullt blikkbox suður á Vífilsstöðum, sem hann Skúli geymir fyrir mig
með límbandi utanum.
Svo skulda ég í sjoppuna.
Það má ekki eyðileggja þetta fyrir manni.
Ég er kurteis maður og það er erfitt að bera pressudótið ef maður tapar svo öllu
og krónan verður ónýt.
Bjarni var skjótur til svars. Hann á að hafa sagt:
Ég lofa þér því, Haukur minn, að krónan skal alltaf verða fjórir
tuttuguogfimmeyringar.
Önnur saga frá Pétri var þegar Haukur kom til hans í heimsókn til að pressa fyrir
hann:
Góði Pétur minn, ég ætla að biðja þig um að hætta að skipta þér af þessari pólitík.
Þú átt að vera alveg hlutlaus.
Það er langbest fyrir þig að hætta þessu alveg.
Vertu bara hlutlaus.
Þú skalt ganga í Varðarfélagið og kjósa Sjálfstæðisflokkinn og vera alveg hlutlaus.
Það er ómögulegt fyrir þig að standa í þessu.
Þú tapar bara á þessu.
Þetta er alveg rétt hjá mér.
Þetta er tóm vitleysa hjá þér.
Það er best að vera alveg hlutlaus. Þá verður enginn reiður við mann.
Það er ómögulegt að láta alltaf vera að skamma sig.
Að lokum þessi:
Haukur og Eyjólfur voru góðkunningjar.
Þeir hittust stundum í afgreiðslusal Landsbankans, þegar þeir áttu erindi í
sparisjóðinn.
Þei voru bóðir sparsamir og höfðu fest sér vel í minni heilræði bankans.
"Græddur er geymdur eyrir".
Eyjófur spurði Hauk eitt sinn er þeir biðu afgreiðslu.
Hvernig gengur þér að safna í bókina þína, Haukur minn?
Mér gengur vel, sagði Haukur.
Ég er kominn á blaðsíðu tvö.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2010 | 15:24
VIGGI LITLI !
Horfið á þennan mann, það er allt í lagi, hann er vanur því að á hann sé starað.
Þarna stendur hann bísperrtur, glerfínn og það er engu líkara en að hann sé
andskoti ánægður með sjálfan sig?
Getur verið að það fyrsta sem manni dettur í hug þegar horft er á
Vigga litla sé að þarna fari hávaxin mannvera eða þá fullvaxinn 35 ára dvergur?
Í raun skiptir það engu máli því ef marka má myndina þá er hann sjálfur ekki í
nokkrum vafa um tröllvaxna ímynd sína.
Það er málið, Viggi litli er smár á vöxtinn, en það er ég sannfærður um,
að þrátt fyrir smæð sína,
er hann stærri en margur, sem raunverulega eru stórir, líkamlega.
Það er nú bara þannig stundum, að líkamsvöxtur er alls enginn mælikvarði á menn.
Mörgum manninum hefi ég kynnst um mína ævi, sem hafa verið stórir,
en svo örlitlir inni í sér, hafa smáa sál.
Indælt þykir mér fólk, sem getur komið beint framan að mér og sagt mér til
syndanna, ef því finnst að ég hafi á einhvern hátt komið illa fram.
Það sem ég vildi segja,
hvort sem maður er lítill eða stór, að hann sýni af sér það,
sem eftirsóknarvert er,
dyggðugur, umburðarlyndur, velviljaður og umhyggjusamur og geti litið fram hjá alls
kyns smámunum og komist hjá því að gera úlfalda úr mýflugu.
Slíkar persónur eru því miður alltof sjaldan á ferðinni,
en þannig fólki vil ég mæta á leið minni.
Snöggir blettir og þeir sem á vegi okkar verða.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2010 | 17:33
FRÁSÖGN AF LÆKNI OG DÝRAVINI Í EYJUM.
Ólafur Ó. Lárusson héraðslækir í Eyjum,
1925-1951.
Ég sem skrifa þetta blogg man vel eftir Ólafi lækni og sérstaklega heimsókn til
hans á læknastofuna í fylgd móður minnar.
Ég var með í "eyrunum eins og það var kallað".
Ég minnist þess, að hafa verið fjarskalega kvíðinn og óttasleginn á leið okkar til hans.
En það reyndist algjörlega ástæðulaus ótti, því svo mildur var hann til handa og
framkomu við lítinn og skelkaðan dreng, sem aldrei líður úr minni.
Síðan hefur
myndin af Ólafi lækni verið , sem grópuð í huga mér.
Einnig hefur grein um Ólaf blundað innra með mér, sem ég las 1957
og fjallar um lækninn og dýravininn Ólaf Ó. Lárusson.
Þessi frásögn, sem nú er 53 ár gömul, hafði sterk áhrif á mig og leitaði ég því eftir
greininni á bókasafninu, og fann hana.
Nú eftir öll þessi ár er mér ljúft að birta þessa einstæðu grein:
Í túnfæti hins gamla Stakkagerðistúns á Heimaey byggðu þau sér læknishjónin,
Sylvía Guðmundsdóttir og Ólafur Ó. Lárusson, stórt steinhús, sem þau nefndu
Arnardrang.
Hús þetta var ekki aðeins byggt fyrir heimili þeirra hjóna, heldur voru líka í því
lækninga- og sjúkrastofur.
Sjúkrastofurnar voru oft fullskipaðar erlendum sjómönnum og þá sérstaklega á
vetrarvertíðinni.
Þar hlaut margur maðurinn þá aðgerð og aðhlynningu, sem lengdi líf hans.
Fyrir læknis- og hjúkrunarstörf sín hlutu hjónin margs konar viðurkenningu, ekki
síst frá erlendum stjórnar völdum.
Arnardrangur í dag.
Kringum þetta ágæta læknissetur var fljótlega gerður garður, sem húsmóðirin lét sér
mjög annt um.
Vestmannaeyjar, sem rísa úr hafi undan hinni hafnlausu suðurströnd (?) Íslands,
eru fleirum kærkominn nauðleitarstaður en sjómönnum, því eyjarnar laða oft
til sín vegmóða farfugla og vængjaða flækinga, sem borið hefur af leið.
Slíka fugla ber oft veðurbarða til Heimaeyjar- og þá ekki síður sjófugla, sem lent hafa
í hrakningum og eru sumir þeirra ataðir olíu.
Um slíka gesti láta eyjarskeggjar sér mjög annt, og margir lögðu leið sína með
lemstraða fugla til læknishjónanna í Arnardrangi.
Þessir sjúklingar höfðu ekki að bakhjarli útgerð eða sjúkrasamlag, sem greiddi
læknishjálpina, en aldrei voru hin starfsömu læknishjón svo önnum kafin, að þau gæfu
sér ekki tóm til að sinna þeim.
Illt er að geyma sjúka fugla í mannabýlum, og hjónin létu því reisa fuglaspítala
í garðinum bak við húsið sitt.
Í þessu óvenjulega sjúkrahúsi voru þrjár sjúkrastofur, tvær litlar og jafnar að stærð,
og ein stór.
Myndin hér fyrir ofan sýnir framhlið fuglaspítalans.
Ég naut þeirrar virðingar (segir Þorsteinn) að vera aðstoðarmaður hjónanna í þessu
sjúkrahúsi, og minnist ég með aðdáun og gleði þeirrar umhyggju og alúðar,
sem þau sýndu sjúklingum sínum.
Á jólaföstunni 1940 voru sjúklingar þessir:
Stóra sæsvala. Hún var særð á höfði, hafði flogið á gaddavír.
Flipinn var saumaður niður og plástur yfir.
Langvía. Hún var ötuð olíu á bringu. Hún var þvegin daglega úr parafín-olíu.
Silfurmávur með rifinn væng. Vængurinn var bundinn upp, sárin hreinsuð og borin
á þau smyrsli.
Mér hefur ekki liðið úr minni dagurinn, sem ég kom til að vera viðstaddur, þegar
silfurmávinum væri sleppt.
Nú skyldi hann útskrifaður.
Húsmóðirin mataði hann rækilega að skilnaði, og læknirinn tók hann og lagði hann
undir vanga sinn, strauk hann og mælti til hans gælin kveðjuorð.
Alúð þeirra hjóna var aldrei endaslepp neinni lífveru, sem til þeirra hafði borist.
Kærleikur þeirra beggja var undursamlega mikill.
Báðum var þeim ljúft að vernda með höndum, sem yljaðar voru af frábærri
hjartahlýju, hvern lífsneista, næra hann og glæða.
Nú er lífsneisti beggja þessara kærleiksríku hjóna slokknaður.
Í október s.l. var frú Sylvía lögð við hlið manns síns á Heimaey, en hann lést
í júní 1952.
Með þessari stuttu frásögn í Dýraverndaranum vildi ég bæta við þau minningarorð,
sem sögð hafa verið og rituð um þessi merku hjón- og sýna lítilfjörlega viðleitni
til að þakka alla þá alúð, sem þau létu í té mörgum hröktum og lemstruðum
sjófugli, sem leituðu hælis á Heimaey eða við strendur hennar.
ÞORSTEINN EINARSSON.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2010 | 08:31
EYJÓLFUR LJÓSTOLLUR.
Einn er sá maður, sem athygli mína hefur vakið fyrir sérstakt lífshlaup sitt,
Eyjólfur ljóstollur.
Viðurnefnið fékk hann, því hann rukkaði bændur um toll fyrir
ljós í kirkjuna.
Hann hét fullu nafni, Eyjólfur Magnússon, fæddur 1842.
Eyjólfur varð stúdent úr Bessastaðaskóla með mjög góðum vitnisburði.
Hann þótti skarpgáfaður og vel að sér, skáldmæltur, skörulegur og varð
m.a.barnakennari í Borgarfirði.
Eyjólfur þótti bráðgáfaður efnismaður í æsku, en hann var ekki á tímabili heill á
geðsmunum og sneið það lífsláni hans þröngan stakk upp frá því.
Ekki var það heldur til að bæta um fyrir honum, að hann var drykkfelldur um of.
Á efri árum ferðaðist hann mikið um byggðir, var óeirinn við verk, orti lausavísur
um menn og málefni, sem ekki varð til, að afla lund hans né skáldskap,
vinsælda.
Samt var það svo, að þeir sem lítið höfðu iðkað skrift, fengu Eyjólf til þess að skrifa
fyrir sig bréf, og iðulega var hann beðinn að lesa á kvöldvökum fyrir heimilisfólk,
þar sem hann gisti.
Þegar Eyjólfur kom til Reykjavíkur undi hann sér með höfðingjum m.a.
landshöfðinganum,
sem líklega hefur verið, Magnús Stephensen.
Tóku þeir eitt sinn tal með sér úti á götu og þúuðust eins og vera bar.
Einhver,
sem átti leið um, heyrði á tal þeirra og hneykslaðist, segir í umvöndunartón:
Þúarðu landshöfðingjann, Eyjólfur?
Eyjólfur lítur við manninum og segir:
Ég þúa guð og góða menn, en þéra yður og andskotann.
Þótt Eyjólfur væri ekki við eina fjölina felldur með dvalarstaði, mun ekki rétt að hann
hafi verið flakkari;- hann sníkti aldrei.
Eyjólfur átti það til, að vera tölvert á lofti, og þorðu strákar þá ekki að bekkjast til við
hann.
Þrátt fyrir að vera "góður með sig" og þá aðallega, þegar hann var með víni
hann var það sem kallast "túramaður", var illmennsku ekki til að dreifa hjá karli
og var hann all tíð,
hið mesta góðmenni og öðlingsmaður.
Í lokin læt ég fljóta hérna tvær vísur eftir Eyjólf ljóstoll og verður ekki annað séð,
en hann hafi á sínum tíma,
fylgst með stjórnmálum:
Stirð er þessi stjórnarskrá,
stendur lítt til bóta,
konungshollir ofan á
ístrubelgir fljóta.
Standslaust flaug um fold og laug
frekur kjaftastraumur,
orðinn að draug á öskuhaug
eldhúsrafta flaumur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2010 | 14:31
JÓN SINNEP.
Það hefur verið mér nokkuð hugleikið,
að skyggnast inn í líf landans.
Þá helst þeirra sem á einn eða annan hátt, hafa bundið hnúta lífshlaupsins,
öðrum hnútum en almennt gerist.
Þar má til nefna,
Jón Sigfússon Bergmann, betur þekktur á árunum áður sem,
Jón sinnep.
Hann var Austfirðingur, fæddur 1874 og dó aðeins fimmtugur að aldri árið 1927.
Ekki er ætlunin að hefja hér langa eða ítarlega frásögn af lífshlaupi Jóns,
en ekki er mögulegt kappanum að kynnast, nema stikla þar á stóru.
Aðeins einn vetur var Jón í námi í Flensborgarskólanum og er þá upptalin hans
skólaganga.
Tuttugu og sjö ára giftist Jón og átti með konu sinni eitt barn.
Sambúðin varð fremur stutt, og átti Bakkus sjálfsagt þar hlut að máli.
Ýmislegt starfaði Jón.
Var nokkur ár í siglingum, aðallega milli Fleetwood og Ameríku, einnig á Enskum
togurum.
Í þessum ferðum sínum, glataði hann ferðakistu sinni, sem hafði að geyma flest
af því, sem Jón hafði skrifað og margt af því hvergi til nema þar.
Lögregluþjónn var hann tvö ár í Hafnafirði og síðustu 12 ár ævinnar,
stundaði hann sjó, kennslu, bóksölu og skriftir.
Jón var tveggja manna maki af afli og harðfenginn.
Andlegt atgervi hans lýsa vísurnar best, sem hann orti.
Lítið kver,
"Ferskeytlur og farmannsljóð gaf dóttir hans, út árið 1949 og lýsa
frábærum skáldskapargáfum Jóns.
Fátækur var hann alla ævi að veraldlegum fjármunum, svo fátækur,
að hann átti sjaldan föt til skipta.
Sögur hafa verið sagðar af Jóni sinnepi og eina þeirra rakst ég á í gömlu blaði.
Þar segir, að Jón og tveir félagar hans örkuðu um götur Akureyrar.
Jón var með koffort á bakinu, annar með hjólbörur, sem hinn þriðji sat í.
Fóru þeir kveðandi um götur, en stönsuðu við og við og fengu sér brennivínssopa.
Þegar stansa skyldi kallaði sá, sem í hjólbörunum var:
"stopp kúsk"! samtímis var stansað af þessari skringilegu þrenningu,
og allir settust á koffortið hans Jóns,
og drukku af stút og báru sig konunglega.
Síðan var haldið af stað í fylgd barna og unglinga, sem þótti þetta skemmtileg
nýlunda.
Önnur saga að norðan var á þá leið, að Jón kom sönglandi með höfuðfat sitt
í hendinni og sjáanlega í góðu skapi.
Á móti honum kom nú amtmannsfrúin gangandi í sínu fínasta pússi.
Vindur Jón sér að henni eins og örskot og hrækir á frúna og mun hrákinn hafa lent á
brjósti hennar.
Rak hún upp hátt vein, en Jón þaut gólandi út veginn.
Undir stiganum í Unuhúsi var afþiljað skot, sem venjan var að geyma sópa og
skolpfötur.
Í þessu svartholi undir stiganum, bjó Jón sinnep um tíma.
Eins og fram hefur komið var Jón drykkjumaður og þegar hann var ofurölvi
skreið hann á fjórum fótum dimmt sundið við Unuhús og í afdrepið undir stiganum.
Fátæktin og Bakkus voru hans fylginautar og þessvegna átti hann aldrei,
fast heimili
Eins og fram hefur komið var Jón sérlega hagmæltur og því við hæfi,
að birta nokkrar ferskeytlur eftir hann;
Margt af heimskra manna dóm
mér var aldrei hlífið,
hef ég þó með krepptum klóm
komist gegn um lífið.
Þegar háar bylgjur böls
brotnuðu á mér forðum,
kraup ég þá að keldum öls,
kvað í fáum orðum.
Hvorki víl né vonasvik
verður hjá mér skrifað;
ég hef alsæll augnablik
ást og víni lifað.
Mammon ýmsu kom í kring,
-krónan margan svíkur,-
enda er kominn inn á þing
okrarinn "sem slíkur".
Það er eins og andleg pest
eyrun gegnum skríði,
þegar ég á pokaprest
predikandi hlýði.
Mikil þingsins ábyrgð er,
eins og stendur skrifað,
verði menn að "sálga sér"
svo þeir geti lifað.
Stuðst við gamalt og gott.
P.S. Það er mér ráðgáta hversvegna Jón fékk viðurnefnið "sinnep",
en ef einhverjir hafa hugmynd um það, væri gaman frá honum eða henni að heyra.
Það eina sem mér kemur til hugar, er að "sinnep" gæti vel verið eins konar
vörumerki fyrir þennan sérstæða, hrausta og kjarnyrta hagyrðing.
Dægurmál | Breytt 7.11.2010 kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2010 | 14:52
EYJAPRESTURINN DÚLLAÐI FYRIR OKKUR.
Guðmundur Árnason, betur þekktur sem Gvendur dúllari var einn af þeim mörgu
sérstæðu mönnum, sem um landið fóru á síðustu öld.
Á ferðum sínum bar hann eigur sínar í buxum, skálmarnar hengu fram yfir axlirnar,
en botninn aftur á bak, þannig rúmaðist furðu margt í því íláti.
Hann gekk ávallt með langan og sveran broddstaf, vel til hafður í vaðmálsfötum.
Ævinlega gekk hann í leðurskóm, sem voru flennistórir.
Þegar hann var spurður, hversu það gætti, sýndi hann hver ástæðan væri.
Neðst var góð visk af þurru grasi þar ofaná, þunn torfa, vel þurr.
Aðspurður, sagði hann þetta notalegt við fótinn, annað að hann héldi óskertu minni,
og þriðja lagi yrði hann allra manna elstur.
Guðmundur þótti efnilegur í æsku, en veiktist ungur af heilabólgu og varð ekki sami
maður eftir það.
Á ferðum sínum var hann oft beðinn um að dúlla og var það einskonar söngur,
sem hann söng með sérstökum serímonum.
Ævinlega sat hann við borð þegar hann dúllaði, studdi olnboga á það, en hafði
litla fingur í eyranu og staðinn fyrir textann velti hann tungubroddinum upp og niður
við efri góminn, svo að dillandi hljóð í margvíslegum tilbrigðum barst frá honum.
Honum fannst þetta dásamleg list, sem enginn Íslendingur gæti leikið annar en
hann.
Misjafnt var það hvað fólki þótti um skemmtanagildið, en því fannst þetta spaugilegt,
að sjá hreyfingar hans og hrifningu á sjálfum sér.
Börn og unglingar voru því hrifnari og þótti þeim þetta góð skemmtan í
tilbreytingarleysi hversdagslífsins.
Nú var það svo,
að bloggari þessarar síðu var í Gagnfræðaskólanum hér
í Vestmannaeyjum fyrir rúmlega hálfri öld síðan.
Einn kennarinn okkar
var séra Halldór Kolbeins, sóknarprestur í Eyjum til fjölda ára.
Að eigin sögn, sagðist hann hafa heyrt í Gvendi dúllara og þótt mikið til koma.
Því var það einhverju sinni í tíma hjá honum, að við færðum það í tal hvort hann,
gæti kannski dúllað fyrir okkur nemendur bekkjarins?
Það man ég vel, að séra Halldór var lengi mjög tregur til þess.
Samt héldum við áfram að nauða í prestinum, og að lokum gaf karl sig.
Allt sem gerðist næst mínúturnar eru sem grópaðar í minni mitt, þrátt fyrir að 53 ár
séu liðin frá því atburðurinn átti sér stað.
Nú varð svo hljótt í kennslustofunni, að heyra hefði mátt saumnál detta og allir biðu
í ofvæni eftir því að prestur byrjaði að dúlla.
Prestshjónin að Ofanleiti í Vestmannaeyjum.
Það var lyginni líkast það sjónarspil sem nú hófst þarna fyrir framan okkur
nemendurna.
Prestur laut nú fram og beygði um leið bæði hnén og settist nærri á hækjur sér,
þrátt fyrir að vera íturvaxinn maður.
Hann reisti sig upp,
með þeim furðulegustu hljóðum, sem ég hefi á ævinni heyrt,
og þannig endurtók hann dúllið sitt og líktist nú í hreyfingum sínum
harmanikkubelg sem gekk,
upp og niður.
En gamanið stóð því miður alltof stutt, þar sem ein bekkjarsystir okkar,
sem sat fremst, rak upp hlátursroku hvella og skerandi, en það var hennar vörumerki.
Þá gerist annað undrið í þessum ótrúlega farsa, að prestur verður greinilega
ofsalega reiður, þessari óvæntu truflun og skipti það engum togum, að prestur
tók þarna eldsnöggt hliðarspor, ekki ósvipað ballerínu og stóð þá fyrir framan
hana, sem hláturinn kom frá.
Eldsnöggt lét hann kreptann hnefann falla af miklu afli á mitt borðið,
þannig að allt lauslegt hoppaði hátt í loft upp og féll svo tígurlega á gólfið.
Allt skeði þetta á nokkrum sekúndum og virkaði eins og sprengja hefði fallið
í miðri skólastofunni.
Auðvitað þorði enginn að hreyfa sig og því síður að segja aukatekið orð.
Presturinn,
séra Halldór Kolbeins var eldrauður í framan og greinilega mjög miður
sín en sem betur fór virtist hann fljótur að jafna sig,
blessaður karlinn.
En aldrei eftir þetta var presturinn og kennarinn,
beðinn um að dúlla aftur,
eins og Gvendur dúllari varð svo frægur fyrir á sinni tíð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2010 | 15:49
FIÐLUSNILLINGUR, SEM VIÐKOMU HAFÐI Í EYJUM.
Ingimundur Sveinsson, eða Ingimundur fiðla eins
og almenningur kallaði hann.
Það var á dimmu hráslagalegu rigningarkvöldi haustið 1920,
að nokkrir piltar úr efsta bekk Menntaskólans í Rvk. voru í afmælishófi.
Þá var það að drepið var á dyr, lágt og kurteislega.
Gestgjafinn oppnar dyrnar og útifyrir stendur gestur með fiðlu undir handleggnum,
berhöfðaður í snjáðum frakka, hár vexti, holdgrannur og tærður í vöngum og drýpur af
honum regnið.
Komumaður segist hafa verið greitt fyrir að skemmta í þessum afmælisfagnaði.
Gesturinn tók sér stöðu í einu horni stofunnar og hóf að leika.
Þarna höfðu þeir fyrir augum hinn kunna "sönglistamann",
Ingimund Sveinsson, sjálfan skotspón skrílsins, ættaðan af Meðallandi og frægan um
allt Ísland og Færeyjar af fáranlegum "konsertum" þar sem höfuðskemmtun
áheyrendanna er að sjá listamanninn elta uppi þá smápeninga, sem þeir kasta til
hans upp á sviðið.
Svo kynlega tókst samt til í þetta sinn, að afmælisgestirnir stóðust ekki þá sáru
lífsreynslu, sem við blasti, þeir virtu betur þennan undarlega hörpusvein fyrir sér
og mun þeim öllum hafa verið hið sama í hug,
þegar Ingimundur fór, að þarna hefðu þeir horft á eftir íslensku lánleysi margraalda
út í rigninguna og myrkrið.
Hingað til hafa menn velt því fyrir sér, hvað hefði getað orðið úr þessum manni,
ef hann hefði notið sín?
Kannski tónsnillingur á sama mælikvarða og bróðir hans, Jóhannes Kjarval,
hefur orðið snillingur á sviði málaralistarinnar?
Í Reykjavík, þar sem götuauglýsingar hans eru eitt af því sem setur svip á bæinn,
heldur hann "konserta " sína í Bárunni.
En listamaður með stóra hugsjón bíður ekki endilega eftir því að honum oppnist
veglegir listasalir.
Hann kemur sjálfur til fólksins, hvar sem það er að hitta,
og gerir sér engan mannamun.
Þess vegna má oft sjá hann labba, hverju sem viðrar, með fiðlu sína eftir
þjóðveginum frá einni verstöð til annarar og það er sama, þó að hann komi
langhrakinn í afangastað og hafi kannski látið fyrir berast á víðavangi:
það bregst ekki að hann haldi sinn "konsert" og spili fyrir manneskjurnar í
beituskúr eða fjárhúsi, ef ekki vill betur.
En reyndar er hann ekki einn á ferð.
Venjulega er með honum ástkona hans, Sigríður að nafni, grönn og veikluleg en
léttfætt eins og hreindýr.
Hún klæðist gjarnan litsterkum flíkum af álfkonu hætti.
Í hugum almennings er þetta óaðskiljanleg þrenning,
Ingimundur, fiðlan og Sigríður.
Í bókinni "Fiskur undir steini" segir Einar ríki Sigurðsson frá því, að Ingimundur fiðla
komið stundum í Eyjar á vertíð til að spila fyrir fólk.
Eilífðin sést hér lengst til hægri.
Einu sinni spilaði hann undir gaflinum á Eilífðinni.
Hópuðust þar margir í kringum hann, en eins og vant var, þegar Ingimundur lék
listir sínar, gengu þá samskot og veitti fylgikona hans peningunum viðtöku.
Þó að þarna væri allstór hópur fólks og margt aðkomumanna safnaðist ekki í
þetta sinn nema ein króna.
Ingimundur hætti brátt að spila, og þá spyr einhver.
Ætlarðu ekki að spila meira?
Ingimundur svaraði:
"Það er ekki lengi spilað fyrir krónu".
Fátt mundi nú vitað um fyrstu kynni hins unga sveins af veröldinni, ef ekki vildi
svo til, að sjálfur hefur hann látið eftir sig furðugóða leiðsögn inn í hugarheim
bernsku sinnar.
Þá leiðsögn er að finna í örlitlu kveri, sem hann gaf út 1920 og nefndi,
"Huldudrengurinn".
Í þessum minningu sínum er einstæð heimild um það, hvernig vaknandi
listamannseðli segir til sín í gáfuðu barnshjarta.
Þetta eru fátækleg ágrip úr litlu kveri, sem sennilega er flestum gleymt og hefur
aldrei átt innangengt í neinni bókmenntasögu.
Og svo var það einn fyrsta dag septembermánaðar árið 1926,
að Jóhannes Kjarval kemur heim til Þórarins Guðmundssonar og segir við hann:
Heyrðu vinur.
Heldurðu þú vildir ekki koma með mér og spila fyrir okkur
Munda bróður?
Þá vissi Þórarinn að Ingimundur Sveinsson var allur.
Stuðst við:
Horfin tíð, og Fagur fiskur í sjó.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.10.2010 | 15:39
FRÁ GAMALLI TÍÐ ÚR MÝRDALNUM OG EYJUM.
Vigfús Brandsson Bóndi Reynishjáleigu,
Reynishverfi í Mýrdal.
Þessa mynd tók bloggari árið 1955.
Þegar ég var í sveit sumrin 1954-5-6-7 í Neðradal Mýrdal, kom stundum gamall maður
til okkar, sem Vigfús Brandsson hét. Ég sem unglingur fann ekki þann fjársjóð,
sem spjall við Fúsa hafði að geyma bæði vegna þess, að lítill tími gafst frá önnum
við sveitastörfin og Fúsi, þrátt fyrir að vera kominn á átræðisaldurinn var í ýmsu stússi
á bænum.
M.a. hlóð hann veggi með grjóti og torfi. " Handeraði " fýlinn þegar sá tími var,
reitti og sveið hann með góðri hjálp frá mér.
Þannig,
að sá gamli var aldrei verklaus, þá daga sem hann dvaldi hjá okkur.
Fúsi að saga í eldinn á bæjarhlaðinu í Neðradal.
Það man ég, að Fúsi notaði aldrei gaffal þegar hann mataðist, aðeins
sjálfskeiðunginn sinn.
Sérstaklega man ég, þegar fýllinn var á borðum þá var karl í essinu sínu og át
af mikilli lyst.
Fyllan og gumpurinn á fýlnum var engin fyrirstaða, því öllu því gumsi slöfraði hann
í sig með tilheyrandi stunum og kjammsi og fitan ýrðist um allt skeggið á karlinum.
Vigfúsi þótti mikið til þess koma og sagði oft frá því, þegar hann hitti
Hermann Jónasson forætisráðherra og tók í hendina á honum.
Einnig tiltók hann forsetann, Svein Björnsson en lagði samt minni áherslu á það
handaband en hjá Hermanni, sjálfsagt hefur karlinn verið Framsóknarmaður.
Vigfús Bransson sem ég hér hefi verið að segja frá átti tvö systkyni, Krístínu
og Vilhjálm.
Vilhjálmur þessi átti eina dóttur sem átti heima hér í Eyjum og var gift Sigurði
Stefánssyni sem lengi var á árunum, form. sjómannafél. Jötuns.
Þegar Villi flutti hingað til Eyja bjó hann í Langa-Hvammi við Kirkjuveg.
Langi-Hvammur og dyrnar af "kamesi" Vilhjálms Brandsonar.
Hann var silfursmiður og man ég það, að ég fór með bróður mínum með
silfurhring, sem hann átti og var í sundur genginn.
Þegar innfyrir var komið var þar fátt húsgagna, annað en lítið vinnuborð, rúmbálkur
og stór skápur.
Viðgerðin á hring bróður mín hélt illa, því í sundur gekk hann nokkrum dögum eftir
viðgerðina.
Tvær sögur gengu á þessum árum af Vilhjálmi og koma þær hérna:
Karli þótti gott í staupinu og þá, er Bakkus hafði náð sterkum tökum á karli,
þá brást það ekki að á hann rann mikill vígamóður, sem lýsti sér þannig að honum
þótti þá,
sérstaklega skápurinn góði vera orðinn að fornkappa og átti
við hann glímur miklar og erfiðar, sem oftar en ekki, endaðuðu með því,
að Villi kom kappanum (skápnum) út úr íbúðinni og út á blettinn við húsið.
Einhverju sinni lenti Villi undir í öllum atganginum við skápinn og þá hraut út úr honum,
nú hafðir þú betur, skrattakollur.
Hin sögnin var að Vilhjálmur eins og svo margir sem einir búa,
elda sér graut eða súpu sem endist viku til tíu daga.
Einu sinni átti Villi graut sem orðinn var heldur ókræsilegur og var sagt að hann hefði
skorað á sjálfan sig að éta hann og fá að launum, góðan snaps á eftir.
Karl úðaði í sig grautnum og þótti nú, sem hann ætti snapsinn góða skilið.
En sagan segir,
að hann hafi sagt sem svo; ja, nú plataði ég þig Villi minn,
því engann snapsinn færðu að þessu sinni.
Það las ég í minningaargrein um Jón nokkurn Kristinsson, sem var um tíma
kennari í Mýrdalnum, að hann hafi þekkt til Vigfúsar og þótt hann margfróður og hafði frá
mörgu segja,
frá öldinni sem leið (hér átt við nítjándu öldina.)
Ein sagan frá Vigfúsi, segir frá þegar þeir
bræður voru ungir.
Voru þeir sendir upp á Heiðarvatn, sem er ca. tvo kílómetra frá Reynishverfinu.
Hlákuveður var búið að vera og þegar þeir koma í Heiðardalinn, fóru þeir hjá
sauðarhúsi Ingva bónda á Rofum,
sem átti til að segja ýmisslegt "frágert" við annað fólk.
Hittu þeir hann þar við sauðahúsin og mælti hann til þeirra:
"Hvert eruð þið að fara drengjatetrar?
Sögðu þeir honum hvert förinni var heitið.
Þá sagði Ingvi bóndi:
"Hann Jón minn var austur á vatni í gær og fór með kíkinn upp undir læri og
ísinn nærri dottinn af vatninu"
Snéru þeir bræður þá heim að svo búnu.
Önnur smá saga frá Vigfúsi.
Árni frá Fossi í Reynishverfinu var víst nokkuð slarksamur við sjó.
Eitt sinn var Árni að lenda í Reynishöfn, fékk hann oft svo mikla "kæfu",
að þá er landssjórinn féll stóð ekkert upp úr nema árarnar.
Þar með lýkur þessari upprifjun frá þeim bræðrum,
Vigfúsi og Vilhjálmi sonum Brands.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.10.2010 | 15:13
STIKLAÐ UM Á SÍÐUSTU ÖLD Í EYJUM.
Dansiball í Gaggó. Nemendur sem nú eru á besta aldri? Maggi Sveins og fl.
.
Ekki eru allar minningar góðar úr þessari laug. Man vel
eftir erfiðleikum með blessað "kotið" þ.e.a.s. það var það, sem hélt uppi
hásokkunum sem maður klæddist á þessum áru 1950.
Sjómannadagur í Eyjum. Rikki frá Ási er ábyggilega einn af þessum köppum.
Þessa myndarlegu kumpána þekkja allir? Arnar, Sigurður og Krismann.
Sveinbjörn Guðlaugsson og Jóhann Guðnason.
Greinilega við að "uppfarta" í Samkomuhúsinu.
Nokkrir vaskir Þórarar. Sigurgeir frá Skuld, Sæli, Muggur, Svenni,Arnar. o.fl.
Áður fyrr var mikið líf
í félögunum Þór og Týr hérna í Eyjum.
Bæði félög ráku á síðustu öld félagsheimili,
sem mikið voru sótt.
Helgi Benediktsson heldur ræðu á Stakkó.
Verkstjórnarnámskeið ásamt kennurum 1951.
Myndarlegir bræður, Arnar og Hermann Einarssynir.
Skyldi þetta vera Hallgerður-langbrók. Nei ekki er svo. Þetta mun vera
Sigurður Jóhannsson og frú (man ekki nafn hennar) á hlaðinu við Stíghús sem var við Urðarstíg.
Magnús Tómasson, Mangi krummó. Man eftir konunni en ekki nafni hennar.
Mangi var kunnur trillusjómaður og fisksali og bjá að Hrafnabjörgum v/ Hásteinsveg.
Bloggvinur minn hann Simmi koló. Er ábyggilega að flytja ræðu
á Sjómannadeginum, en hvaða ár ?.
Kröfuganga á leið upp Skólaveginn.
Það var ekki þrautalaus að krefjast hærri launa
hér áður fyrr, því að þeir sem tóku þátt eins og í
kröfugöngu áttu það víst að fá enga vinnu eins og,
þegar skip komu með salt eða kol.
Ungur og myndarlegur vinur minn, Ingólfur Grétarsson.
Básaskersbryggjan
Sennilega er þessi ágæta mynd frá árinu 1938.
Nú ætla ég,
að verði smá hlé á birtingu gamalla mynda á síðunni.
Vona svo sannarlega að fólk hafi haft gaman, að skyggnast inn í
gamla tímann héðan úr Eyjum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Þorkell Rúnar Sigurjónsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- ibvfan
- fosterinn
- maggibraga
- solir
- georg
- gretaro
- sigthora
- kjartanvido
- eyglohardar
- rustikus
- svenko
- eyjapeyji
- kokkurinn
- valdivest
- disin
- smarijokull
- kristleifur
- gudnihjoll
- sjonsson
- nautabaninn
- prakkarinn
- bergen
- icekeiko
- asthildurcesil
- joiragnars
- hallarut
- annabjo
- jensgud
- jonaa
- svarthamar
- kaffi
- stormsker
- olinathorv
- zunzilla
- gbo
- steinibriem
- siggith
- ea
- svanurg
- tannibowie
- valdimarjohannesson
- martasmarta
- gullfoss
- elnino
- sunna2
- thjodarskutan
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 250374
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar