Færsluflokkur: Dægurmál
12.6.2009 | 19:09
LISTMÁLARINN GÍSLI ÞORSTEINSSON LAUFÁSI, VESTMANNAEYJUM.
Gísli Þorsteinsson frá Laufási Vestm. eyjum.
Þannig hafa mál æxlast í mínum ranni,
að ég hefi gerst sjálfboðaliði við Safnahús Vestmannabæjar.
Eitt fyrsta verkefni mitt, sem ég er að fást við núna er einmitt á
mínu áhugasviði og er það, að ljósmynda og skrá fjölmörg listaverk,
sem Gísli Þorsteinsson frá Laufási hefur málað.
Sjálfsagt muna margir, sem nú eru á besta aldri hér í Eyjum eftir
Gísla Þorsteinssyni.
Því miður þekkti ég Gísla ekkert persónulega, en mikið hefði það
nú verið gaman þar sem hann var ötull við að iðka sitt áhugamál og
málaði margar myndir, en seldi aftur á móti fáar þeirra,
því hann sagðist aðeins vera að mála fyrir sjálfan sig.
Nokkrar sýningar hafa verið haldna á verkum Gísla og þá sérstaklega
eftir daga hans.
Gísli var fæddur að Laufási hér í Eyjum þann 23. júní 1906 og lést
10. júlí 1987.
Gísli var einn af eigendum Fiskiðjunnar og var þar verkstjóri
aðrir eigendur með honum voru þeir, Gústi Matt og Steini á Blátindi.
Ég tek mér það bessaleyfi, að birta hérna á síðunni minni
nokkrar af þeim myndum sem Gísli frá Laufási hefur málað.
Ysti klettur Eyjafjallajökull og Bjarnarey, vantar Elliðaey?
Að taka gröf og taka í nefið.
Heimeyjargosið 1973.
Nokkuð sérstæð mynd, en sjá má gangar op suður af
Fiskhellanefi ( norður af Hásteinsvelli)
og mætti ætla að Gísli hafi verið forspár
um göng milli lands og Eyja.
Sumar og sól.
Vonandi hafa fleiri en ég ánægju af málverkunum hans Gísla
frá Laufási og er á engan hallað,
að segja,
að þetta eru fyrirtaks góð listaverk.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.6.2009 | 21:10
AÐ VERA MAÐUR SJÁLFUR ?
Matthías Johannessen rithöfundur.
Ég veit það,
að hann Matthías fyrirgefur mér þann veikleika minn fyrir skrifum hans,
að ég birti hérna
nokkrar línur úr bók hans "Ævisaga hugmynda", sem eiga kannski
aldrei betur
við en einmitt þessa dagana,
sjálfum mér og öðrum til upprifjunar og íhugunar:
Egóin eru misjafnlega stór og stærð þeirra oftast í öfugu hlutfalli
við hæfileika, greind og þekkingu.
Egó "plattenslagarans" og alvitringsins
eru stór, en lítilsigld.
Öll þurfum við að glíma við dómgreindarlítið sjálf okkar,
sumir ráða við það ef þeir hafa einhvern nasaþef af
dyggð og þekkingu, aðrir ekki.
Þeim geta poppið, fjölmiðlar og stjórnmál orðið að eftirsóknarverðum
vímugjöfum.
En þess eru þó sem betur fer dæmi að menn komi nokkurn veginn
heilskinnaðir úr þeim hildarleik.
Þórbergur segir margt um þessa agalausu sjálfvitringa og
metnaðarfullu
egóista, sumt skemmtilegt.
Í Kompaníinu hef ég þetta m.a. eftir honum:
"Þegar ég mæti stórri persónu, reyni ég alltaf að vera lítil persóna til
þess að stóra persónan hafi þá ánægju að verða ennþá stærri.
Það er líka nokkuð algengur veikleiki í fari manna að slá sér upp á
annars kostnað,
verða stórir,
þegar nokkrir eru viðstaddir,
segja þá eitthvað vanvirðulegt um einn,
gera hann hlægilegan og horfa svo upp á hina og spyrja með
uppétandi augnaráði:-
Var þetta ekki helvíti sniðugt hjá mér?-
Þetta er nokkuð algengt í fari manna.
Annars er stór persóna aldrei stór.
Hún dregur sig í hlé
og þegir..."
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2009 | 18:29
ÓLAFUR GRÄNZ ELDRI FRÁ JÓMSBORG Í VESTMANNAEYJUM.
Ólafur Gränz frá Jómsborg v/Heimatorg.
Ólafur var fæddur 4.mars 1912.
Ég hefi lengi haft hjá mér löngun til að minnast
Ólafs Gränz.
Ég þekkti þennan mæta mann þar sem hann og faðir minn voru miklir
vinir og brölluðu margt saman í "gamla daga" eins og oft er sagt
um löngu liðna tíð.
Báðir voru þeir Ólafur og faðir minn félagar í Akóges, sem var
stofnað eingöngu af Eyjamönnum.
Sigurjón faðir minn og Ólafur Gränz á góðri stund í Akóges.
Ólafur var trésmíðameistari og mikill hagleiksmaður.
Hvað-eina sem hann tók sér fyrir hendur lék í höndum hans.
Hann var og uppfinningarsamur og á undan sinni samtíð með marga
hluti.
Sem dæmi smíðaði hann kæli skáp, sem á þeim árum fyrir 1950 voru
nær óþekkt fyrirbæri á heimilum fólks.
Hliðar og hurð í kæliskápnum voru með tvöföldu rými, sem í var sett
spænir til einangrunar og skápnum var svo komið fyrir við útvegg
sem á voru tvö loftgöt út.
Þannig að í skánum myndaðist ágætis kæling.
Mér er ávallt minnisstætt, þegar faðir minn varð fertugur, þá útbjó
Ólafur lagtertu með rúgbrauði og osti á milli þannig að það minnti á
brúntertu eins og við þekkjum í dag.
Hlutir sem bloggari á og eru smíðaðir af Ólafi Gränz.
Faðir minn og Ólafur dvöldu oft við smíðar á verkstæði Ólafs í
Jómsborg en Ólafur bjó þar einnig með konu sinni, henni Ástu Gränz
og börnum.
Jómsborg.
Þeir félagar dvöldu oft á tíðum næturlangt við smíðar á verkstæðinu.
Faðir minn var lagtækur vel og smíðaði sófasett og stofuskáp og það
sem mér er hvað minnisstæðast"kamínu" einskonar arinn með eldi.
Allir þessir hlutir gengdu hlutverki í stofunni heima.
Ekkert var Ólafur að dunda við að þvo "gardínurnar" sem fyrir
verkstæðisgluggunum héngu, heldur tók þær niður af og til og
"sprayaði" yfir þær með málningar sprautunni sinni, þegar fallegur litur
var í sprautukönnunni og voru þau þá,
sem ný.
Á jólum voru gjafir frá Ólafi og fjölskyldunni í Jómsborg og á ég ennþá
pennaveski úr tré og jólasvein sem gengur niður braut og var
að sjálfsögðu smíðað af Ólafi.
Galdrakassa smíðaði hann og gaf föður mínum, sem ég á núna.
Mér er minnisstæð ein jól, þegar bæði Ólafur og faðir minn klæddust
búningi jólasveins og heimsóttu heimili sín með jólagjafir, en ávallt
um hver jól höfðu þeir þann hátt á meðan börn þeirra voru ung að
árum.
Þá var það, þegar ég sat á hné annars jólasveinsins,
sem var Ólafur í það skiptið,
þegar hann allt í einu tók niður skeggið,
sem var mikið og sítt.
Það var mikið áfall fyrir 5 ára dreng að uppgötva það,
að jólasveinninn væri bara hann Ólafur Gränz.
Ólafur lærði á sínum tíma Esperantó ásamt
þeim séra Halldóri Kolbeins, Þórarni Magnússyni kennara o.fl. góðu
fólki.
Á árunum 1934- 1948 var hann mikilvirkur, sem leikari með leikfélagi
Eyjanna og oftar en ekki sá um að smíða og mála leikmyndirnar, sem
notaðar voru á leiksýningum, en
gróska mikil var þá í leiklistinni á þessum tíma.
Ólafur Gränz og Valdimar Ástgeirsson (Valli í Bæ)
á sviðinu.
Eitt er það sem ótalið er og Ólafur fékkst nokkuð við,
en það var að mála myndir.
Ég eignaðist eftir föður minn ágætis málverk eftir Ólaf og birti ég
það hérna.
Olíumálverk eftir Ólaf Gränz.
Síðustu árin sem Ólafur lifði var hann farinn nokkuð af heilsu,
en samt reyndi hann eftir megni að vinna, og var það með akstri
leigubíls,
sem hann átti sjálfur, Chervolett ef ég man rétt og bar númerið,
V-160.
Á árunum 1950- 1960, eða þar til hann lést var hann nær daglegur
gestur á heimili foreldra minna, sem þá bjuggu að Vallargötu 18.
Alltaf var stutt í glens og gaman þar sem Ólafur var annars vegar,
brosmildur og hress í lund,
þannig mun ég ávallt muna þennan
sómadreng.
Ólafur Gränz, Gunnlaug kona Þórarins kennara, Ólafur Gräns yngri
Silli sonur Þórarins og Laugu, ég Þorkell, Lóló dóttir Þórarins og Laugu
og svo Magnús Þórðarson bóndi í Neðradal Mýrdal, en þar var ég
vinnumaður á sumrin í fjögur ár.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2009 | 15:41
DRAUMURINN SEM ÞVÍ MIÐUR RÆTTIST.
Sagt er, að alla dreymi og það marga drauma sömu nóttina.
Er verið að færa okkur skilaboð með draumum?
Eru þeir að miðla til okkar skilaboðum,
eða ráðleggingar?
Svo lengi,
sem sögur fara af hafa menn reynt,
að ráða fram úr draumum.
Sumir eru svo berdreymnir, að þeir segja fyrir að morgni um atburði
dagsins.
Lang flestir draumar gleymast, en einstaka draumur virðast sterkari
en aðrir.
Sá sem þetta ritar er enginn sérfræðingur í draumum, eða hvað þeir
tákna, en þar fyrir hafa draumar verið fyrirferða miklir á hverri
nóttu hjá mér,
en misvel gengur að muna þá að morgni.
Einn draumur er mér ofarlega í sinni og hann upplifði ég undir morgunn
og mundi þess vegna vel, þegar ég vaknaði.
Að auki þá var hann skýr og greinilegur og
sterkari en markir þeir draumar,
sem mig hafði dreymt áður.
Draumurinn:
Í byrjun árs 2008 fannst mér ég vera á gangi og gekk þá fram
á vasaúr, sem ég tók auðvitað upp.
Þá þótti mér ég halda á vasaúri úr gulli er afi minn Þorkell Guðmundsson
gaf mér rétt áður en hann lést ári 1952.
Þegar ég skoða úrið nánar eru farnir af því báðir vísarnir og fannst
mér í draumnum það mjög miður.
Þegar ég vakna var mér draumurinn skýr og greinilegur og þegar
þannig er þykir mér það vera einhverskonar fyrirboði,
því áður hefur mig dreymt drauma, sem komið hafa fram!
Nú, fljótlega þegar ég kom á fætur eftir að hafa dreymt umræddan
draum leit ég í drauma ráðningarbók.
Þar segir um úr:
Draumar þar sem úr og klukkur koma við sögu geta verið vísbending
um hversu langt menn eiga eftir ólifað.
Séu menn á einhvern hátt háðir klukkum eða tengdir þeim og tíminn
sé að renna frá mönnum getur það verið fyrirboði að menn eigi stutt
eftir.
Hið sama á við vanti vísa á klukku.
Þegar ég sagði konu minn frá draumnum brosti hún og sagði,
hafðu engar áhyggjur af þessu Keli minn.
Vinnufélögum mínum sagði ég fá draumnum og hafði í flimtingum,
að ekki tæki því fyrir mig að endur nýja árskort mitt í þreksalnum á
ný byrjuðu ári
þar sem ég væri dauðans matur samkvæmt draumnum.
Anna Jónsdóttir og Elísabet Ólafsdóttir ásamt Ólafi Helga syni sínum
og voru þau stödd í barna afmæli 22 mars 2008. Nokkrum dögum
síðar var Anna látin. Rúmum tveimur mánuðum eftir það, eða í byrjun júní
lést konan mín Elísabet Ólafsdóttir.
En það átti ekki fyrir mér að liggja að fara yfir móðuna miklu,
heldur voru það tvær aðrar manneskjur sem mér voru mjög tengdar.
Anna Jónsdóttir gift frænda mínum Karli Björnssyni,
en ég hefi ætíð litið á hann sem litla bróðir minn frekar en frænda, þar
sem
hann er uppalinn hjá foreldrum mínum frá tveggja ára aldri.
Sem sagt Anna deyr snögglega rúmlega tveimur mánuðum eftir
umræddan draum minn.
Elísabet Ólafsdóttir konan mín lést þann 2. júní 2008,
eða rúmlega 4 mánuðum eftir þennan draum um vasagullúrið,
sem á vantaði á vísanna tvo.
Þegar mig dreymdi umræddan draum, sem betur hefði ekki ræst á
þennan hryggilega hátt
var ekkert sem benti til, að þessa tvær konur væru feigar.
ÉG er þess fullviss, að draumar geta verið
fyrirboðar ókominna atburða.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2009 | 13:06
ÞISTILFIÐRILDI Í VESTMANNAEYJUM.
Sá eitt slíkt á fimmtudaginn í s.l. viku hérna í Eyjum, en var ekki viss
um tegundina þá, vegna þess að
mikill hraði var á því og ég sá það einungis í sjónhendingu.
Laugardaginn 6. júni var svo frétt í Mogganum,
að Þistilfiðrildi hefðu sést hérna suður með sjó og í Reykjavík og taldi
ég þá sjálfsagt að um Þistilfiðrildi hafi verið um að ræða,
sem ég sá.
Það staðfestist svo seinna þennan sama dag,
þegar ég sat hérna úti á sólpallinum hjá mér,
en þá birtist Þistilfiðrildi í allri sinni dýrð og flögraði um og settist,
þannig að ég sá það mjög svo gjörla.
Þistilfiðrildi við Látrabjarg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2009 | 16:23
AÐ SITJA 39 VERTÍÐIR VIÐ SAMA KEIPINN.
Myndin vakti þegar athygli mína, -ekki aðeins hin gömlu sjóklæði, engu
minna andlit gamla mannsins, sem mér fannst
draga að sér athygli mína.
Það er eins og manngæðin og göfugmennskan skíni af
því, þessu aldraða sjómannsandliti.
Þannig byrjar grein í Blik eftir Þorstein Þ
Víglundsson um
Ögmund Ögmundsson Landakoti, langafa
bloggara þessarar síðu. Ögmundur fæddist 1849
að Reynisholti í Mýrdal. Hann kom fyrst til
Vestmannaeyja á átjánda árinu. Hann réðst þá
háseti á áttæringinn Gídeon og réri næstu tvær
vertíðir með Árna Diðrikssyni bónda og skipstjóra
í Stakkagerði.
Eftir þessi tvö ár, gerðist Hannes Jónsson,
síðar hafnsögumaður formaður með Gídeon.
Þeir félagar réru 36 vertíðir saman á Gídeon, en
Ögmundur var þar samfellt 39 vertíðir sem
háseti. Ögmundur Ögmundsson.
Flestar eða allar vertíðirnar var Ögmundur í krúsinni (þ.e. fremsti
maður) og átti hann að sjá um klýfinn og sjá um hann er siglt var.
Allar vertíðirnar hvíldi (reri) hann við sama keipinn, andófskeipinn á
bakborða.
Ögmundur lenti í útilegunni miklu árið 1869 er árarnar fuku upp úr
keipunum. Veður þetta kom mjög snöggt og var ekki við neitt ráðið
fyrir veðurofsanum.
barnameðfæri. Þær voru 18 feta
langar og eftir því gildar.
Þegar fallið var á, tveir menn um
hverja ári og sátu því 4 menn á
hverri þóftu. Tvö möstur og seglin
lágu á milli ræðaranna. Gídeon var róið til fiskjar í 72 vertíðir.
Til
gamans má geta þess hér, þegar Sigurjón faðir bloggara síðunnar bjó
ásamt Þórunni móður sinni í Landakoti ungur drengur og Ögmundur réri
á Gídeon, þá hafði gamli maðurinn þann sið, að fara út að kveldi og
kasta af sér vatni og lét það gossa í hendur sínar, sem
hann nuddaði svo vel og lengi því talið var, að það mýkti og græddi.
S.s. Nivea krem þess tíma!
Árið 1868 fluttist til Eyja 31 árs gömul sæta, Vigdís Árnadóttir frá
Akurey í Landeyjum. Vigdís gerðist vinnukona hjá Árna í Stakkagerði
og var það þá, sem Ögmundur fór að gera hosur sínar grænar fyrir
henni.
Þau hrifust hvort af öðru og felldu hugi saman.
Og innri loginn brann með þeim Vigdísi og Ögmundi bæði í orði og á
borði, svo að húsmóðir þeirra í Stakkagerði þótti nóg um.
Og ávextir logans helga létu ekki lengi á
sér standa hjá þeim Vigdísi og Ögmundi,
því þeim fæddist
einkar efnilegt meybarn, frítt og
föngulegt.
Stúlkan litla var skírð Þóranna.
( Myndin sú arna er af Þórunni
Ögmundsdóttur þá 85 ára ásamt sonar
dóttur sinni, Sigríði Þórönnu Sigurjónsdóttir. Myndin tekin á fermingar
degi Sigríðar árið 1958. Sigríður Þóranna er móðir Karls Björnssonar
læknis.)
Ögmundur Ögmundsson og Vigdís byggðu sér lítinn bæ, sem þau
nefndu Landakot. Veggir voru úr torfi og grjóti
eins og tíðast gerðist þá í Eyjum.
Þak var gert úr viði lagt tjörupappa. Risið var
hátt og sneri stafn með glugga gegn suðri.
( Á þessari mynd má sjá Sigurjón, Sjonna
bílstjóra son Þórönnu ásamt konu sinni Önnu
Guðrúni og fyrsta barni þeirra, Ögmundi Viktori
á stéttinni fyrir framan Landakot)
Tveir kunnir Eyjamenn ólust upp hjá þeim hjónum í Landakoti, þeir
Þorbjörn Arnbjörnsson, bróðursonur Ögmundar og Hannes Hansson,
sem lengi bjó að Hvoli hér í bæ.
Þóranna Ögmundsdóttir amma mín giftist Sigurði Jónssyni skipstjóra,
sem byggði Fagurhól. Hann fórst með Ísak 2. febrúar 1914.
Þá áttu þau hjón 4 börn í ómegð. Þau eru: Ögmundur útgerðarmaður,
Sigurjón bifreiðastjóri Vallargötu 18, Sigurrós sem lengst af bjó í Rvk.
og Guðrún, Blátindi hér í bæ. Eftir fráfall Sigurðar flutti Þóranna að
Landakoti til Ögmundar föður síns með börnin fjögur.
Örlögin eru ekkert til að spauga með og til að enda þessa litlu tiltekt
um hann Ögmund Ögmundsson langafa minn sem lengst af bjó í
Landakoti hérna í Vestmanneyjum, þá höguðu örlögin því svo, að hann
fór ekki í hafið, þrátt fyrir langa æfi á sjó, heldur varð
hann fyrir vörubíl og lærbrotnaði. Út úr því fékk hann
lungna bólgu og lést 84 ára gamall.
Dægurmál | Breytt 7.6.2009 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2009 | 22:22
NÚ ER VONLAUST AÐ RÓA LENGUR FRAM Í GRÁÐIÐ ?
Ég skynja þunga orðanna;
"þyngri róður en ætlað var".
Nú loksins virðist, sem ráðamenn þessarar þjóðar
hafi komist að,
hinum hryllilega sannleika um vonlausa stöðu þjóðarbúsins.
Og hvað gerist í framhaldinu?
Kannski væri ráð, að yfirgefa hið sökkvandi fley ?
Allavega gæti ég farið í langa heimsókn til dóttur minnar,
sem býr í Svíþjóð og hefur gert undanfarin tuttugu ár.
Sjálfsagt gæti ég fengið að "dudda" við eitthvað smálegt heima við
fyrir hana.
Jafnvel hjálpa til á matsölustaðnum
að útbúa pizzur og þess háttar hjá tengdasyninum.
Eða, sem ærlegur Íslendingur og afkomandi víkinga
hlúi að mínu búi og taki því með karlmennsku,
sem koma skal.
Þyngri róður en áætlað var | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.6.2009 | 15:15
MARXISTI = KOMMÚNISTI ?
Ja hérna hann Dalai Lama er þá eftir allt saman bara
venjulegur
kommi.
Marxisti en ekki Lenínisti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2009 | 21:21
FYRIRGEFNINGIN GERIR OKKUR FRJÁLS.
Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá þeim, sem fylgst hafa með
sjónvarpinu undanfarið, að kona ein hefur ásakað
kirkjunnar þjón um kynferðislega áreitni.
Að sjá og heyra virðist konan vera mjög vansæl og skal engan
undra það.
Þegar þjónar Guðs bregðast því trausti, sem við
venjulega fólkið berum til þeirra, þá spyr maður sjálfan sig,
hvað er til ráða?
Er ráðið kannski, að hata gerandann og vilja ekki fyrirgefa honum?
Nei það held ég alls ekki að muni duga neinum,
því ef við viljum vera frjáls frá vandamálum og sársauka okkar
eigin fortíðar og jafnframt frjáls frá afleiðingum
áframhaldandi áþjánar,-
verðum við skilyrðislaust að læra að
fyrirgefa.
Fyrirgefning og traust er alls ekki það sama og allir hljóta að sjá,
að það að fyrirgefa er alls ekki eitthvað sem ekki er á þínu valdi
að gera.
Fyrirgefa er ekki að leysa annað fólk frá ábyrgð sinni,
heldur það,
að
fyrirgefningin gerir okkur frjáls.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2009 | 16:41
ÖRLÍTIÐ BROT ÚR SÖGU VATNSINS Í VESTMANNAEYJUM.
Því hefur lengi verið haldið fram, að föst
búseta í Vestmannaeyjum hafi verið háð
vatnsskorti og hins vegar einangrun, þetta
tvennt hafi verið aðalástæðurnar fyrir því,
hve seint föst búseta verður í Eyjum.
Uppsprettuvatn hefur ekki verið til staðar
í Eyjum í bókstaflegri merkingu og hefur
Daltjörnin að mestu orðið til af
rigningarvatni, sem sigið hefur niður
jarðveginn úr híðum umhverfis tjörnina.
Vatnsból austur á Kirkjubæjum var frá fornum og horfnum tímum,
Vilpan á Vilborgarstöðum. Vilpan myndaðist svipað og Daltjörnin, af
rigningarvatni, sem kom af túnunum umhverfir hana, eða úr efstu
jarðlögum. Til að hreinsa vatnið af áburði voru hlaðnir torfgarðar
þar sem vatnið síaðist í gegn.
Fátt olli Eyjafólki meiri erfiðleikum um aldir en vatnsskorturinn.
Fastur liður frá fornu fari í daglegri önn fólksins og sérstaklega á vorin
og sumrin var vatnssókn í Dalinn.
Þegar handvagnar og svo hestvagnar komu til sögunnar var rudd
vegarmynd í Dalinn, þá léttist vatnssóknin til muna fyrir bæjarbúa.
Hérna til hægri má sjá nemendur Páls Steingrímssonar kennara
árið 1954 hvílast og svala þorsta sínum
við brunn Daltjarnarinnar.
Myndin er tekin af nemendum Páls
eftir erfiða skemmtigöngu út í
Stafnsnes.
Nemendur taldir frá vinstri:
Benedikt Ragnarsson, Viktor
Úranusson, Ásta Kristinsdóttir, Þóra Bernódusdóttir, Gerður
Gunnarsdóttir, Helga Óskarsdóttir, Ásgeir Lýðsson, Ester Magnúsdóttir.
Standandi frá vinstri: Halldór Svavarsson, Kristinn Baldvinsson, Þráinn
Einarsson og sú sem snýr við okkur baki er Guðlaug Ólafsdóttir og
Aðalsteinn Sigurjónsson fylgist með henni drekka hið ágæta vatn úr
brunni Daltjarnarinnar. Myndina tók Þorkell Sigurjónsson.
En þörfin fyrir meira vatn var ávallt fyrir hendi, þannig að
lífvænlegt þætti hérna í Eyjum. Vatnsþörf jókst í kjölfar nýrra
fyrirtækja og stofnanna svo og ört fjölgunar íbúa hér í Eyjum.
Söfnun regnvatns til neyslu varð hérna mun auðveldari, þegar
menn fóru að nota bárujárn á þök húsa sinna og safna þannig
regnvatni, sem fór í brunna við húsin, sem þá var sjálfsagður hluti
nýbygginga.
Þrátt fyrir regnvatnið kom oftar en ekki upp sú staða, að neysluvatns
skortur olli erfiðleikum og sérstaklega , þegar ekki kom deigur dropi úr
lofti.
neyslu úr Dalnum var
eins og áður sagði á
hand og hestvögnum.
Um 1940 kom nýtt til
sögunnar, vatnsbíllinn
þar sem félagar
Bifreiðar stöðvar Vestm.eyja, BSV sáu um flutninga á vatni úr
Herjólfsdal í þar til gerðum "tanki" er var á palli vörubílsins.
Hér til vinstri má sjá bíl Sigurjóns Sigurðssonar (Sjonna bílsstjóra)
við brunninn hjá Daltjörninni og handdælan sem dældi vatni í "tankinn á
bílnum. Það þótti mikið sport, að hjálpa við það, að dæla upp vatninu
og fá svo að sitja í bílnum.
Á myndinni þerri arna eru frændurnir, Smári Guðsteinsson og Þorkell
Sigurjónsson og er myndin tekin sumarið 1947.
var í Herjólfsdal þar sem
daglega safnaðist meira
vatn, en í brunninn við
Daltjörnina. Hann var
við rætur hlíðarinnar
undir "Molda."
Árið 1950, þegar þessi mynd er tekin af Sjonna ásamt börnum sínum
Þorkeli og Sigríði Þórönnu, þá var komin sú nýbreytni til sögunnar,
að vatninu var dælt með bensíndælu upp í tank bílsins og einnig tæmdur
þannig í brunna húsanna.
Eins og áður segir voru brunnar við hvert húsum hérna um miðja
síðustu öld og regnvatnið sem í þá safnaðist dugði ekki til daglegs brúks,
þá þurfti oftar en ekki ábót úr Dalnum og auðvitað helst yfir
sumartímann. Stundum urðu bílstjórar vatns bílsins að deila vatni úr
einum tanki í, tvo eða þrjá húsbrunna, sérstaklega þegar skortur var
tilfinnanlega mikill og lítið um vatn yfir sumartímann.
Vatnsþjónustan var oft erfið, sérstaklega yfir vetrarmánuðina í
misjöfnum veðrum, svarta myrkri og ísingu og átti það helst við, þegar
allur bátafloti Eyjamanna var þjónustaður þannig með vatn.
Þegar litið er til baka er ótrúlegt hvað menn gátu afrekað með
frumstæð tæki og erfiðar aðstæður.
Oft fylgdu pöntunum á vatni, "að ekki væri hægt að þvo úr
barnableium, eða hella "uppá" kaffikönnuna", en ávallt bjargaðist það
allt saman.
Takmarkað var hvað vatnsbólin gáfu af vatni, þannig að vatn var
stundum flutt hingað með flutningaskipi, sem leið átti hingað.
Var þá vatninu dælt beint í tankinn á bílnum, sem ók svo vatninu til
þeirra sem þurfandi voru.
Hérna er mynd af
félögum BSV árið 1967.
Flestir komu þeir við sögu
vatns flutninga til íbúa
Eyjanna, fiskiskipa og
fyrirtækja.
Þeir sem myndinni eru
taldir frá vinstri efri röð: Hilmar Jónasson, Magnús Guðjónsson,
Guðmundur Högnason, Einar Jónsson, Magnús Ágústsson, Ari Pálsson,
Adólf Sigurjónsson, Jens Ólafsson, Gústaf Sigurjónsson, Guðsteinn
Þorbjörnsson, Páll Gíslason, Jón Þorleifsson, Haukur Högnason,
Ármann Guðmundsson.
Fremri röð frá vinstri: Daníel Guðmundsson, Sigurður Jónsson skrifst.
Jóhann Gíslason, Oddgeir Kristjánsson stöðvarstjóri, Andrés
Guðmundsson, Engibert Þorbjörnsson og Sigurjón Sigurðsson.
Eitt af vatnsbólum Eyjanna er enn ótalið, en það var inn í "Botni"
undir Hlíðarbrekku. Oftar en ekki var talað um að sækja vatn inn í
"Póst" og þótti það vatn hvað lakast til neyslu.
Þar sem grein þessi fjallar um neysluvatn hér í Eyjum er ekki úr
vegi, að skipta um "gír" og segja smá sögu af Sjonna bílstjóra.
Þegar faðir minn var sem oftar við að aka vatni á árunum um 1950
innan úr "Botni" tók hann eftir manni nokkrum, sem allir Eyjamenn
þekktu, Axel frá Holti, eða Púlli eins og hann var nefndur dags daglega.
Axel átti við mikla fötlun að stríða, sem
gerði það að verkum, að hann gat lítt tjáð
sig með orðum.
Axel kom oft á netaverkstæði hans
Magnúsar, sem betur var þekktur sem
Magnús með "kýlið". Rellaði Púlli oft á
sinn hátt í strákunum á neta verkstæðinu
að þeir gerðu fyrir hann lundaháf.
Einn daginn urðu þeir svo við rellinu í
Púlla og fundu til tveggja metra
bambustöng og settu á annan enda hennar netbleðil.
Með háfinn góða fór Púlli glaður mjög á sínu sérstæða "skeiði,"
sem leið lá inn eftir Strandveginum og inn í Hlíðarbrekku, en þar er
töluverð lundabyggð eins og menn vita.
Á leið sinni inn Strandveginn sá Sjonni til ferða Púlla, en faðir minn
var mikill vinur Magnúsar netamanns og kom oft í heimsókn á
verkstæðið og þekkti því til óska Púlla um lundaháf.
Fylgdist nú Sjonni með ferðum Púlla þar, sem hann settist í Hlíðar
brekkuna og fór að veifa sínum frumstæða lundaháf. Auðvitað náði
Púlli karlinn í engan lundann.
Því hugkvæmdist Sjonna, að nú skyldi hann slá tvær flugur í einu
höggi, gera góðverk og stríða félögum sínum á netaverkstæðinu.
Í einni ferð með vatn í bæinn kom Sjonni við í fiskbúðinni hans
Kjartans fisksala og keypti fimm lunda í fiðri.
Þegar inn í "Póst" var komið, labbaði Sjonni til Púlla þar sem hann sat
með háfinn sinn í "brekkunni" og auðvitað engan lundann hafði hann
veitt. Þegar Faðir minn rétti Púlla lundana fimm sem hann hafði keypt
glaðnaði heldur betur yfir honum. Púlli var ekkert að tvínóna við veiðina
lengur, en tók strikið austur Strandveginn á skeiði miklu og beinustu leið
niður á netaverkstæðið.
Þegar þangað kom sýndi hann strákunum á verskæðinu veiðina og var
að vonum glaður mjög.
Seinna frétti Sjonni af því, að þegar Púlli birtist með lundana fimm,
en þá hafi mönnum brugðið og þeir undrast stórlega, hvernig í
ósköpunum Púlli hefði getað veitt lundana, sem hann kom með.
Næstu daga var ekkert rætt eins mikið á verkstæðinu og veiði
afrekið hans Púlla.
Nokkrum dögum seinna kom Sjonni í heimsókn á verkstæðið og fékk
þá að heyra um góða veiði Púlla..
En Sjonni þagði lengi vel yfir leyndamálinu og þóttist ekkert vita,
en hafði af öllu saman gaman af.
Til þess að enda þessa grein um neysluvatn í Eyjum er frá því að
segja, að árið 1968 mun verða talið eitt af merkis árum í sögu
Vestmannaeyja, því það ár var lögð hingað vatnslögn frá fasta landinu.
Sýnir þessi mynd þáverandi bæjarstjóra Eyjanna
Magnús Magnússon toga tappinn úr grannri
slöngu og vatn frá fasta landinu bunaði
tignarlega niður á Nausthamars bryggjuna við
mikinn fögnuð þeirra sem mættir voru.
Þar með lýkur að segja örlítið brot úr sögu
neysluvatns okkar, sem búum hérna í
Vestmannaeyjum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Þorkell Rúnar Sigurjónsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- ibvfan
- fosterinn
- maggibraga
- solir
- georg
- gretaro
- sigthora
- kjartanvido
- eyglohardar
- rustikus
- svenko
- eyjapeyji
- kokkurinn
- valdivest
- disin
- smarijokull
- kristleifur
- gudnihjoll
- sjonsson
- nautabaninn
- prakkarinn
- bergen
- icekeiko
- asthildurcesil
- joiragnars
- hallarut
- annabjo
- jensgud
- jonaa
- svarthamar
- kaffi
- stormsker
- olinathorv
- zunzilla
- gbo
- steinibriem
- siggith
- ea
- svanurg
- tannibowie
- valdimarjohannesson
- martasmarta
- gullfoss
- elnino
- sunna2
- thjodarskutan
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 25
- Frá upphafi: 250389
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar