Færsluflokkur: Dægurmál

NÚ ER ÉG AFTUR KOMINN Á RÓL.

 

 

 

img190
Þorkell Rúnar Sigurjónsso  á unga aldri.

 

 

 

Þegar ég loksins eftir nærri tveggja mánaða fjarveru,

reyndi að komast inn á bloggið mitt,  vildi innskráningin ekki meðtaka lykilorðið.

En svo lét hún undan og ég er hér.

Ætlunin er að reyna,  að vera virkari hér eftir en hingað til.

Vil þakka þeim sem fram á þennan dag eru að koma inn á bloggið hjá mér,

fyrir heimsóknirnar og grípa s.l  2 mánuði ávallt í tómt.

 

Ég er sem sagt kominn í ævarandi frí frá allri launaðri vinnu,  því nú er örstutt í það,

að ég fylli sjöunda áratuginn í aldri.

Þar með sé ég fram á rýmri tíma til að sinna ýmislegu,  sem flýgur fyrir hjá mér dags

daglega.

19. október segir sem svo í AA-hugleiðingu dagsins:

Geri ég mér grein fyrir því,  að ég veit ekki hversu langan tíma ég á eftir?

Það getur verið áliðnara en ég held.

Ætla ég að gera það sem ég veit ég á að gera áður en tíminn rennur út?

Hvernig ætla ég annars að lifa því sem eftir er lífsins?

 

 

Nú,

 þegar stórt er spurt verður allavega mér svara fátt.

Þegar sá fasti "póstur" í lífinu  þ.e.a.s. að vera ekki lengur á vinnumarkaðnum,

þá kalla  aðrar áherslur og önnur sjónarmið,  sem auðvitað verður að takast á við.

Mánudagurinn í dag er fyrsti  frídagurinn frá vinnu af 55 ára starfsævi minni,

þannig að ég er ennþá að átta mig á nýjum aðstæðum.

En ég rakst á ágætt vísukorn,  sem ég vonast til að geti orðið einskonar mottó

um framhaldið hérna á blogginu hjá mér.

 

Árin skilja eftir þó

innst í vitund manna

minninganna mikla sjó,

margt er þar að kanna.


VIÐREISN EFNAHAGSLÍFSINS.!

 
 
 


staln_1_1111401.jpg
Þrátt fyrir að félagi Stalín sé fallinn frá,  þykir mörgum áhrifa hans gæta

ennþá í Íslandi.


 
 
 
 
 
 
Eins og alþjóð veit,  eða veit ekki,
 
að núna með haustinu munu 63 þingmenn hefja sína orrahríð um landsins gagn og
 
nauðsynjar .
 
Ekki skal í efa dregið,  að þeir sem á þingi sitja  munu reyna á allan hátt,
 
að koma okkur áóvart,  og einmitt vegna væntanlegra kosninga í vor.
 
Við vitum það, 
 
sem eldri erum en tvævetra,  að misskipting gæða ríður ekki við einteyming,
 
svo mikið er víst.
 
 
En nú til hjálpar og leiðsagnar snillingunum við Austurvöll,  leyfi ég mér að birta
 
brag Dags Sigurðarsonar skálds og listamanns,
 
um viðreisn efnahagslífsins:
 
 
 
 
 
Eins og alþjóð er kunnugt
 
eru 2 + 2 = 5.
 
 
Þessa meginreglu tölvísinnar
 
hefur sérfræðingum vorum ekki sést yfir
 
í raunhæfum tillögu til úrbóta
 
á réttlátri skiptinu þjóðarteknanna.
 
 
 
Í þessum kassa eru 2 + 2 brauð
 
semsagt 5 brauð.
 
Braskarar hljóti 2
 
bitlingaseggir önnur 2.
 
 
 
Þá er
 
(eins og hver skyni gæddur maður hlýtur að sjá)
 
1 brauð eftir
 
og finnst okkur sanngjarnt
 
að það komi í hlut alþýðunnar.
 
 
 
Sumum kann að finnast þessi hlutur naumur
 
en hinir djúpvitru hagfræðingar vorir
 
hafa einnig fundið leiðir
 
til að hindra gerræði á þessu sviði.
 
 
 
Uppi á hálofti er 1 brauð aukreitis.
 
Það er að vísu hlaupið í það fúkki
 
en hvað um það.  Þess er að vænta
 
að hin þrautseiga og eljusama íslenska alþýða
 
 
 
sýni biðlund
 
lifi ekki um efni fram
 
og láti ekki þá ósvinnu spyrjast um sig
 
að hún sé matvönd.
 

OFT RATAST KJÖFTUGUM SATT Á MUNN !

 

 

c_documents_and_settings_jon_steinar_desktop_saa_klu_ur_alkinn_579607

 

 

 

 

 

 

Ég las einhverju sinni eftirmæli um mann og voru höfð eftir skáldinu,

Einari Benediktssyni.

Það vita vita sjálfsagt flestir,  að skáldinu þótti góður sopinn og það svo,

að hann mun hafa haft þann alvarlega sjúkdóm,  sem alkahólismi er og margir

glíma við,  dags daglega.

Eftirmæli Einars voru um mann,  sem átti við þennan vanda að stríða,

en hann gekk í "stúku" eins og það var kallað,  þegar menn vildu halda sig frá áfengi.

 Í þá daga fór litlum sögum af AA samtökunum.

 

Einar orðaði eftirmælin eitthvað á þá leið,

"að maðurinn hafi rembst,  sem rjúpan við staurinn"  að halda sér edrú,

og leynir sér ekki háðið í þessum ummælum skáldsins.

En þegar betur er að gáð,

þá eru sannleikskorn og meir en það í háði Einars í eftirmælunum.

Því það segir í ágætri bók okkar AA manna eitthvað á þessa leið:

 

 

 

Gleði okkar yfir að losna við áfengið rekur okkur til athafna.

Við tökum til starfa.

Við sækjum fundi.

Við förum og reynum að hjálpa öðrum alkahólistum.

Við látum þennan góða boðskap berast þegar við getum.

 

 

Og áfram:

Við AA menn höfum þau forréttindi að lifa tvennskonar lífi á sömu ævi.

Fyrst lífi ölvunar,  ófara og uppgjafar.

Síðan öðlumst við í AA-samtökunum nýtt allsgáð líf,  friðsælt og gagnlegt.

Við sem erum orðin allsgáð erum kraftaverk nútímans.

Og við erum á gálgafresti.

Sum hefðu átt að vera löngu dauð.

En við höfum fengið annað tækifæri til að lifa.

AA-leiðin er ekki auðveld.

En hún er djarft tafl og árangursrík.

Lífið væri einskis virði án AA.

AA- stefnan gefur okkur tækifæri til að lifa tiltölulega góðu lífi.

Það er baráttunnar virð,

hversu harðvítug sem hún er frá degi til dags.

 

Þannig að það má segja um eftirmæli skáldsins,

"að honum hafi ratast rétt orð á munn."


GÓSENTÍÐ FYRIR FUGLANA.

 

 

 

picture_34
Grasmaðkur.

 

 

Öll þau ár, 

 sem ég hefi gengið hérna um á Heimaey,

hefi ég aldrei orðið svona mikið var við grasmaðk eins og núna seinnihluta sumars.

Hver skýringin er á fyrirbærinu mun kannski vera veðráttan í sumar.

Í sjálfum sér gleðst ég fyrir hönd allra smáfuglanna sem á Eyjunni dvelja,

en svo er það skaðinn,  því grasmaðkurinn fer mjög illa gróðurinn og étur allt grasið,

sem reynir að spretta.

Vandamálið getur orðið víðfeðmt,  jafnt á heiðum og afréttum,  sem í byggð.

 

Lífsferli maðksins er á þann veg,

að hann verpir á hausti,  eggin liggja í dvala yfir veturinn og lifa af vorið,

ef þurrt er í veðri  (eins og viðrað hefur í sumar).

Hann, grasmaðkurinn púpar sig seinnihluta júní og hættir þá að éta.

Síðan er hann á púpustigi í nokkrar vikur þar til hann fer að fljúga.

Grasmaðkurinn þrífst ekki í mýrlendi eða öðru votlendi.


AFREK Í ÞAGNARGILDI.

 

 

 

Bróðir Gísla 
Gústav Stefánsson Ási.

 

 

 

 

 

Ástþór Einarsson fv. vörubílstjóri rakst á gagnmerka heimild um Gústav Stefánsson,

sem ýmist var kenndur við Ás eða Sigríðarstaði og fer frá sögn Ástþórs hér á eftir:

 

 

Gústav Stefánsson Ási var fæddur 22. ágúst 1898.

 

Gústav var frábær veiðimaður og 14 ára gamall seig hann niður á

Klemensarbæli til svartfuglaeggjatöku.

Klemensarbæli er austan í Ystakletti og nokkuð mikið loftsig niður á það.


Þetta þótti sérlega vel gert af svo ungum dreng.

 

Gústav fór eitt sinn í Akurey á Kollafirði til lundaveiða og veiddi þar á

einum degi, 1964 lunda og þótti það afar vel gert.

Til að ná þessum frábæra árangri,  stytt hann háfinn um 1/3.

 

 

Þessi frábæri lundaveiðimaður, 

ef ég fleyti honum til dagsins í dag er föðurbróðir Stefáns Gíslasonar, 

sem vinnur nú um stundir við

Safnahúsið.

 

243416_10150219437981740_2297232_o
Stefán Gíslason.


FREISTINGIN.

 

 

P1010523
Ófrýnilegur er hann.

 

 

Af því ég er í skapi til að vitna í og birta smá póst eftir  Dag nokkurn Sigurðarson,

skáld með meiru.

Hér kemur svo þetta lítilræði:

 

 

Þegar Frelsarinn hafði hímt matarlaus í móbergshellum, gengið sig sárfættan í

grænum og gulum líparítskriðum,  blóðgað sig í blágrýtisurðum og skolfið í næðingi

öræfanna í fjörtíu daga og nætur,

kom djöfullinn til hans og freistaði hans.

Skyggni var gott og djöfullinn fór með Frelsarann uppá Öskjuhlíð og sýndi honum,

Reykjavík, Kópavog, Akranes, Bessastaði og Keflavík.

Djöfullinn mælti:

Allt þetta skal ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.

Frelsarinn yggldi sig búmannlega.

- Hefurðu bréf uppá það ? spurði hann.

Djöfullinn tók skjal eitt mikið uppúr skjalatösku sinni og sýndi Frelsaranum.

Frelsarinn hnyklaði brýnnar og teygði fram álkuna,  því að hann var nærsýnn.

Hann skoðaði plaggið í bak og fyrir.

Og sjá:

Það var undirritað af bankastjóra Alþjóðabankans.

Frelsarinn mælti:

-Þú ert svei mér bíræfinn að veifa svona vita gagnlausu pappírum.

Þetta féll úr gildi í gær.

Og sjá!

Hósíanna!

Í sömu andrá stóðu hjá þeim herskarar hafnarverkamanna sem kyrjuðu

internasjónalinn og lofsungu lífið uns djöfullinn snautaði burt.

Góði Guð,  láttu sögu þessa gerast.

Ennþá er þessi sögn Dags í fullu gildi og þar af leiðir að við Íslendingar

þurfum ávallt að vera á tánum gagnvart öllum  vélráðum þess vonda.


BOÐIÐ Í LUNDAVEIÐI.

 

 

 

Keli í lunda
Bloggari á sínum sokkabandsárum klyfjaður lunda,  sem var veiddur á
Stórhöfða.

 

 

 

 

 

Laust eftir miðja síðustu öld réðist hingað til Eyja kennari,  Bjarni Rögnvaldsson að

nafni og muna sjálfsagt margir Eyjamenn eftir honum,

sem nú eru komnir á besta aldurinn.

 

Hann þótti nokkuð sérstakur maður og fór ekki troðnar slóðir dags daglega í lífinu.

 

Fræg er sú saga af honum,

þegar hann "straffaði" einn nemanda sinn og refsingin var,

að hann átti að sitja eftir í bekknum að lokinni skólastund..

 

Seinni hluta dagsins,

fóru foreldrar drengsins að undrast um hann,

höfðu samband við aðalkennara hans, Bjarna Rögnvaldsson.

Þegar Bjarni ansaði og móðirin spurði eftir syni sínum,

þá varð Bjarna að orði:

"ó guð minn góður ég var alveg búinn að gleyma drengnum"

 

Þetta atvik  varð m.a. til þess,

að skólastjóri Barnaskólans,  Steingrímur Benediktsson sá sér ekki annað

fært um vorið en segja Bjarna upp starfinu, 

 sem kennara.

 

En þar sem,  Bjarni var vel liðinn og reyndist ágætur starfskraftur,

gaf Steingrímur skólastjóri honum framúrskarandi meðmæli,

auðvitað til að auðvelda Bjarna að fá annarsstaðar kennarastöðu.

Ekki lánaðist Bjarna samt um sumarið,

að útvega sér kennarastöðu.

Þegar leið að nýju skóaári um haustið kom sú staða upp,

að kennara vantaði við Barnaskólann í Vestmannaeyjum og auðvitað sótti Bjarni

um það starf.

Nú komu meðmælin góðu í góðar þarfir,  því menntamáráð komst ekki fram hjá,

að hunsa þau,  

 þannig að Bjarni var ráðinn.

 

 

 

 

 

Nú víkur sögunni  til Færeyja,

en þar dvaldi Bjarni sumarlangt,  m.a. við það,

að skrifa bók sem bera átti heitið, "Brúin yfir sundið".

Til öflunar efnis í bókina,

gerði Bjarni sér ferð til Sandeyjar.

Þegar til eyjarinnar kom sóttist hann eftir að ná sambandi við æðstráðanda

 

eyjarinnar,  eða eins konar bæjarstjóra hennar.

 

Stjóranum þótti mikið til þess koma,

að rithöfundur frá Íslandi skyldi sýna þeim  í Sandey þann heiður,

 að heimsækja þá.

Ekki minnkaði álitið á rithöfundinum,

þegar í ljós kom,  að hann var ekki aðeins frá Íslandi,

heldur að auki frá Vestmannaeyjum.


 Því var það að stjóra Sandeyjar þótti ekkert annað koma til greina,

en sýna Bjarna fulla virðingu með því,

að bjóða honum til lundaveiða,

en þar sagðist rithöfundurinn og kennarinn frá Eyjum vera á heimavelli.

 

Nú, 

 svo var lagt í hann og er þeir nálgast veiðistaðinn og þar var nokkuð flug á lunda.

Nú gerist það,

sem engan hafði órað fyrir.

Bjarni tekur á rás og um leið lyftir hann lundaháfnum eins hátt og líkami og handleggir

leyfa upp fyrir höfuð sér.

Þannig með háfinn í hæstu stöðu,  hleypur Bjarni svo hratt,  sem aðstæður leyfa og

virtist ætla að fanga lundagrey,

sem með það sama var floginn sína leið.

 

Stjóri Sandeyjar hafði snarstansað,

og horfði nú agndofa á aðferð veiðimannsins frá Eyjum og þessa nýstárlegu

veiðitækni,  sem hann varð þarna vitni að,  og auðvitað skilaði engum árangri.

 

 

Ekki leist Færeyingnum á að taka meiri áhættu með þessa nýstárlegu veiðitækni

Bjarna,

 og lauk þar með veiðiferð lundaveiðimannsins úr Eyjum,

fyrr en skyldi.


"BJÖSSI Á BARNUM" GERÐI MÉR GREIÐA.

 

 

 

Bjössi á Barnum
Bjössi á Barnum,  Björn Guðmundsson
útgerðarmaður,  verlunarrekandi og m.fl.

 

 

Ef ég man það rétt,  var það árið 1965,

þegar ég starfaði á vertíðinni í frystingunni (í tækjunum) í Ísfélagi Vestmannaeyja.

 img158
Bloggar við það að binda í "tækjunum".

 

 

Það var búið að vera mikil og strembin vinna alla þessa vertíð,

og nú var komið að því,

að halda skyldi "slútt" í byrjun maí.

 

Þar var auðvitað  mikið fjör og mikil  drykkja,  allavega hjá sögumanni,

en allt fór samt vel fram.

 

Daginn eftir voru sumir ekki upp á marga fiska,  heilsufarslega.

Timburmennirnir störfuðu af miklum móð.

Seinna þennan dag var ekkert annað í stöðunni en reyna,  að "redda" einhverju í

vökvaformi til lagfæringar heilsunni.

 

Á þessum árum voru engir staðir,  þar sem hægt var að bjarga slæmri heilsu

helst, 

ef maður þekkti einhvern,  sem lumaði á eins og "einni."

 

Á rangli mínu þennan dag eftir "slúttið"  hitti ég Björn Guðmundsson,

sem var á þessum áru stjórnamaður í  Ísfélaginu.

Auðvitað vissi hann af stuðinu kvöldið áður,  og sjálfsagt séð að kappinn var ekki nema

hálfur maður.

 

Við Bjössi tókum nú tal saman og bar "margt á góma" hjá okkur.

M.a.  þeir fjárhagsörðuleikar er bloggar átti þá við að stríða

eftir hremmingar í verslunarrekstri okkar Þráins Einarssonar,   en þar var um stórar

upphæðir að ræða.

 

Því var það,

að ég spyr Björn beint út,  hvort hann geti á einhvern hátt hjálpað mér,

um lán úr banka eða slíkt ?

 

Á þessum árum fékk enginn lán í banka  nema þekkja bankastjórann mjög vel,

eða vera honum tengdur,  ættarböndum.

 

Nú, 

Bjössi karlinn sagðist skyldi sjá til eftir helgina,  hvort hann gæti eitthvað liðsinnt

mér.

Það gekk eftir hjá Birni og meira að segja "skrifaði hann uppá víxilinn,

sem bankastjórinn, keypti svo."

 

Ekki var þar með öllu sögð sú

 greiðasemi Björns Guðmundssonar þetta síðdegi,

fyrir 47 árum síðan,  því nú spurði ég karl hvort hann sæi einhvern möguleika,

að bjarga mér um,

 eins og eina "fríða". ? 

Þegar þarna var komið sögu vorum við komnir á móts við húsið Þingvelli,

sem stóð neðst við Heimagötuna.

 

 Þingvellir og ég stend við vesrur hornið
Húsið Þingvellir og bloggari,  sem bíður spenntur eftir Bjössa á Barnum.

 

 

 

Þá segir Bjössi við mig,  bíddu hérna Keli minn í smá stund.

Með það var Björn rokinn af stað fyrir hornið á húsinu Þingvöllum og upp Heimagötuna.

Auðvitað var ég forvitinn hvert karlinn færi,  svo ég kíkti fyrir hornið og sá

þá,

 Björn Guðmundsson á léttu skeiði upp Heimagötuna og frakkinn stóð aftur af karli,

eins og segl.

Ekki létti Björn skeiðið fyrr en á móts við prentsmiðjuna Eyrúni.

Eftir stutta stund kemur Bjössi þaðan út og gengur nú greitt niður Heimagötuna.

Auðvitað stóð ég þar sem við Björn skildum og nú var það spennan,

hvort hann Bjössi á Barnum kæmi með eins og eina.

 

 

Jú,

hvað skyldi blessaður maðurinn draga upp úr buxnastreng sínum,

heila flösku af Gordon Gin og rétti mér.

Atvik þetta er mér í fersku minni ennþá og hverskonar tegund áfengið var,

en að ég muni upphæðina á víxlláninu,

það man ég með engu móti,  nema það að upphæðin lagaði mína stöðu verulega,

það man ég.

 

Því segi ég þessa sögu frá viðskiptum okkar Bjössa á Barnum eins og hann var

kallaður í daglegu tali á þessum árum,

eru Birni Guðmundssyni til heiðurs fyrir,

 að vera góður maður í raun.

 


ÁTTAVITINN HANS STEBBA Á STRÝTU.

 

 

 

img193
Ögmundur Ögmundsson í Landakoti
langafi bloggar síðunnar,  en hann
réri lengst af á Gedion,  39 vertíðir.

 

 

 

 

 

Saga þessi sem nú verður sögð er skrifuð af Þorsteini Þ. Víglundssyni.

Hefst nú sagan.

 

Liðið var mjög á vertíðina veturinn 1928.

Ég átti þá daglega leið fram hjá steingarðinum,  sem lá frá norðaustur horni

verslunarhússins Drífandi í átt að Strandveginum.

Nokkrir öldungar stóðu þarna við garðinn næstum hvern dag,  þegar gott var veður,

og skeggræddu.

Þeir voru hættir öllu vertíðarstriti sökum aldurs.

Flestir voru þeir komnir undir áttrætt og sumir eldri.

Oftast sögðu þeir hver öðrum sögur af körlum og kerlingum á þeirra aldri,  eða ræddu

gamla atvinnuhætti og þá sérstaklega í Vestmannaeyjum.

Stundum sögðu þeir hver öðrum skrítlur.

Auðvitað ræddu þeir einnig daglega viðburði í kaupstaðnum,

Vestmannaeyjakaupstað,  þar sem þeir höfðu átt heima um langt árabil og sumir

fæðst þar.

Þeir ræddu aflann á vertíð,  aflabrögð hvers báts,  dugnað og kapp hinna ýmsu

skipstjóra  og skipshafna,  strákapör ungmenna,  kvennafar meðbræðranna og

ýmisleg kímileg fyrirbrigði í verstöðinni.

Þar vann margt aðkomufólk margvísleg störf á hábjargræðistímanum, 

vetrarvertíðinni.

Hugurinn var þó enn bundnastur aðalatvinnuvegi Eyjabúa,  sjávarútveginum.,

sem þeir höfðu stundað áratugum saman.

Vissulega mundu þeir tímana tvenna frá árabátaöld við illan aðbúnað,

fram til tíma vélskipa og mikils afla daglega,  svo að skipti tugum tonna.

 

Ég gaf mér stundum tíma til að hlusta  á tal karlanna á leið minni heim vestan úr

Skildingafjöru,  þar sem ég vann við fiskaðgerð,  eftir að skólastarfinu lauk í

marslokin.

 

 

 

 

Það var Stebbi gamli í Strýtu,  sem nú hafði orðið.

 

Já,   strákar sagði hann,   ég ætla að segja ykkur frá róðrinum,  þegar við skruppum

á Garnarjulinu hans Trana suður og austur á færableyðuna við Bensaklakk.

Veðrið var dásamlegt til að byrja með,  logn og hlýja.

Við Trani renndum færi eftir langan róður.

Brátt var sá guli vel við og við drógum á stuttri stund slatta í julið.

En svo tók að breytast veðrið,  syrti að.

Brátt var komin svarta þoka.

En svo kom að nú að því samt að halda skyldi heim.

Hver var nú hin rétta átt heim,  því í ljós kom að við vorum gjörsamlega áttavilltir

og vissum naumast okkar rjúkandi ráð og því síður stefnuna heim í höfn.

 

Þá voru ekki áttavitar til að vísa sjómönnum leiðina heim af miðunum,

eins og þið munið,  strákar frá duggarabandsárunum ykkar.

 

 

Eins og þið vitið,  strákar,  þá er ég alinn upp í Flóanum.

Á uppvaxtarárum mínum urðum við að fara langar verslunarferðir,

hættulegar alla leið til Reykjavíkur til vörukaupa.

Ég veitti því brátt athygli,  að sumir ferðafélagar mínir þarna úr heimasveitunum,-

en þeir voru allir eldri en ég, - höfðu með sér í farangrinum breiða fjöl.

Lengi vel var mér ekki ljóst til hvers hún var ætluð.

Einhver leynd eða hula virtist mér yfir því.

EF við lentum í dimmviðri og vissu ekki rétta leið yfir Heiðina,

var fjölin góða dregin fram og í skjól við stóran stein eða niður í skjólgóða hraungjótu.

Hvað þar fór þar fram,  fékk ég strákurinn á gelgjuskeiðinu ekkert að vita.

En allar áttir virtust vissar,  þegar fram var haldið á nýjan leik.

Það eitt var víst.

 

Margar ferðir fór ég yfir Hellisheiðina,  áður en ég fékk vitneskju,  til hvers fjölin var

notuð.

 

 

Löngu seinna öðlaðist ég þó vitneskju um það,  að hér voru sveitleg vísindi höfð með

höndum.

Það eru sem sé fornar,  íslenskar vísindalegar staðreyndir,  að lús,  hreinræktuð

mannalús,  þessi bráðvirti sexfætlingur,

leitar ávallt upp á við,  beint upp,  ef hún á á brattan að sækja en ella beint í

norðurátt,  ef leið hennar liggur um láréttan flöt.

 

Þar sem við nú félagarnir þarna suðaustur við Bensaklakkinn vorum orðnir

gjörsamlega áttavilltir,  þá laumaði ég hægri fingurklípunni minni undir lamhúshettuna

mína aftanverða og þreifaði varlega fyrir þarna í hnakkagrófinni.

Og brátt fann ég þarna áttavitann minn, - gerðarleg var hún og þrifleg  með dökka

rönd eftir miðju baki.

Á hana sló rauðlitum blæ.

Sá blær bar vott um gott eldi.

Fætur hennar reyndust ómeiddir og það var fyrir öllu.

Ég lagði hana á þóftuna og hún tók á rás.-

Snúðu julinu eilítið á stjórnborða ,  skipaði ég Trana mínum í Görn.

Það gerði hann í skyndi.

Ég vildi ganga úr skugga um,  hvort hún breytti þá um stefnu.

Og vissulega gerði hún það. Enginn vafi var á því,  hugsaði ég,  að hún veit sín viti og

er ekki áttavillt;  norðanáttin er hennar átt.

Með þeirri trú og sannfæringu tókum við til áranna og héldum rakleitt í lúsarnorðrið.

 Eftir nokkurn róður sáum við Bjarnarey gnæfa í norðvestrinu.

Okkur var borgið.

Þakka bar okkur hinum óbrigðula,  þjóðlega áttvita.

 

 

 

Brosleitur skundaði ég heim í hasti.-  Oft hefi ég síðan hugleitt hugmyndaflugið

hans Stebba á Strýtu. 


GREINILEGA Á NÚ ÍHALDIÐ SÍNAR GÓÐU HLIÐAR.

 

 

P1010092

 

 

Um daginn, þegar sýning á málverkum eftir Ragnar Engilbertsson fór fram í

anddyri Safnahússins,

notaði bloggari síðunnar tækifærið og sagði Ragnari smá sögu af bróður hans,

Gísla og fjölskyldu hans,  en þau bjuggu lengi við Vallargötuna.

 

Nú,  sagan sú gerðist fyrir góðlega 40 árum síðan,  en þá bjuggu einnig við

Vallargötuna, 

 Sjonni bilstjóri og Anna kona hans, ásamt syni sínum og svo dóttursyni þeirra hjóna,

sem þau ólu upp.

 

Faðir minn, Sjonni  var ávallt pólitískur og mikill vinstri maður,  sem auðvitað keypti

málgagnið, 

Þjóðviljann og oftar en ekki var hann líka áskrifandi af Mogganum.

Þá var sá siður,  eða ósiður, að Þjóðviljinn sendi áskrifendum happadrættismiða

fyrir hver jól,  til eflingar blaðinu.

Sjonni var þannig maður,

að hann var langt í frá,  að vera sölumannstýpa,  hvort sem um happadrættismiða

væri að ræða,  eða eitthvað annað veraldlegt glingur.

 

Í blómagarðinum að Vallargötu 18
Sjonni og Anna.

 

 

Því var það,  að Sjonni fól uppeldissyninum,  sem þá var 7 ára gamall,

að reyna nú,  hvort hann gæti kannski selt eins og einn eða tvo miða,

til eflingar hinni sósíalísku hugsjón.

Karl,  en það hét uppeldissonurinn fór nú eins og afinn bað um,

að reyna sölu á miðunum við Vallargötuna.

 

Áður en sá stutti lagði í hann,  sagði afinn við drenginn,

að hann skyldi alls ekki reyna að banka uppá hjá,

Gísla málara og Ellu,  því það væri borin von,  þar sem þau væru bæði

fylgjandi Sjálfstæðisflokknum og "heiðblá" blárri en allt sem blátt væri í Eyjum,

og því tilgangslaust að reyna sölu á happadrætti Þjóðviljans á það heimili.

 

Með þetta nesti fór drengurinn í það, að ganga hús úr húsi við Vallargötuna með þá

von að selja eitthvað af miðunum.

 

Ekki segir frekar af sölumennsku snáðans fyrr en heim kom.

Jæja  Kalli minn,  og hvernig gekk nú salan hjá þér?

Ekki of vel,

því enginn keypti af mér miða.

Þar fór í verra sagði afinn,  sem varð fyrir svolitlum vonbrigðum.

Jú afi minn,  ég seldi sko einn miða,

og hýrnaði nú heldur betur yfir þeim gamla.

Hver var svo góður að kaupa af þér einn miða Kalli minn?

Jú sjáðu til afi,

þegar ég hafði farið í öll húsin við Vallargötuna,   fór ég til Gísla og Ellu og bauð

þeim miða .

Þar sem drengurinn var ekki óvanur því,  að koma inn á heimili þeirra hjóna,

þar sem dóttirin hún Gunna hafði passað drenginn á fyrstu uppvaxtarárum hans ,

því fannst honum ekkert óeðlilegt við það,

að koma við hjá vinafólki sínu og bjóða þeim miða til sölu.

 

Gísli kom til dyra og drengurinn rétti fram miðana.

Þegar Gísli sá hvað snáðinn var að bjóða sagði hann,

hinkraðu aðeins við Kalli minn og að vörmu spori kom Ella kona Gísla fram.

Hún tók drengnum opnum örmum og keypti happadrættismiða.

 

Þegar nú drengurinn hafði lokið við,  að segja afa sínum söguna,

virtist afanum nokkuð brugðið við þessa frásögn ,

en stundi því loks upp:

"að greinilega ætti nú íhaldið sínar góðu hliðar."

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 250352

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband