Færsluflokkur: Dægurmál

Í TILEFNI DAGS SJÓMANNA.

 

 

 

Elli-Bergur
Hér má sjá þann sómadreng,  Ella-Berg.

 

Við byrjuðum á línuvertíðinni frá Sandgerði,  og höfðum aðstöðu í verbúð hjá

Haraldi Böðvarssyni & Co.

4 menn voru í landi og komu þeir með beitta línuna um borð,  en 7 menn voru

svo á sjónum,  sem kallað var

Landmenn og sjómenn unnu svo að því að ganga  frá aflanum um borð,  en síðan var

siglt til Reykjavíkur til losunar.

 

Er netavertíðin hófst í Vestmannaeyjum,  var haldið til Eyja á netavertíðum þar lauk

um 10. maí.

Aflahrotan var þá vanalega um páskaleytið,  m/s Ágústa var 37 tonn og einn stærsti

báturinn í Eyjum, árið 1929 og flaut ekki að bryggju með fullfermi,  enda umsetið

hvert bryggjupláss og enginn tími mátti fara í bið,  svo hægt væri að draga netin

næsta dag.

Við komum með fullan bátinn í lest og á dekki í um það bil heila viku,

og lá þá Ágústa útá legunni,  og var skipað upp í uppskipunarbáta sem við svo

þurftum að losa úr upp á bryggju.

 

Við áttum netin nokkru fyrir vestan Þrídranga,  og var keyrslan í land ekki nema

1-1 1/2 klukkutími,  og hvíldin því ekki meir en 3 til 4 tímar á sólahring á meðan

á aflahrotunni stóð.

 

Þá kemur að því,  að aflahluturinn fyrir línu og netavertíð,

árið 1929 varð 760. oo krónur, sjö hundruð og sextíu kr.

Fimmtíu árum seinna, 

árið 1979 kostaði ein skósvertudós þessa sömu upphæð.

 

Skósvertudósin
Ein skósvertudós árið 1979 á verðgildi vertíðarhluta ári 1929.

 

Á friðarhafnarbryggju
Hér er greinilega tími páskahrotunnar  í Eyjum,  fyrr á árum.

 

img111
Glaðhlakkalegir sjómenn, þeir Grétar og Hafsteinn .

 

Sjómenn, 

 til hamingju með daginn.


JÓNAS HALLGRÍMSSON Í ALLT ANNARRI MYND !

 

 

 

jonas1
Enginn þarf að velkjast í vafa hver þessi maður
er,  Jónas Hallgrímsson ljóðskáldið ástsæla.

Þegar ég var ungur  og var í skóla,  þótti sjálfsagt að læra kvæðin hans Jónasar.

Hvernig maður hann var í raun fór nú fyrir ofan garð og neðan,  nema myndir hér á

blogginu var eina vísbending um útlit mannsins.

Það sem mér varð fljótlega ljóst, að Jónas átti við áfengisvandamál að stríða,

var alkahólisti eins og við segjum í dag.

Samkvæmt lýsingu sem ég fann um Jónas,  var hann meðalmaður á hæð og

limaður vel.

Vel réttur í göngu,  herðamikill, nokkuð hálsstuttur og höfuðið heldur í stærra lagi.

Jarpur á hár og með karlmannlegt andlit, beint nef, kinnbein hans há,

munnurinn fallegur og varir mátulega þykkar.

Stóreygur og móeygur.

Þannig hljóðar lýsing á Jónasi Hallgrímssyni og má af henni sjá,  að maðurinn hefur 

verið hinn vörpulegasti.

Í kvæðinu "Ferðalok" segir Jónas frá ástinni sinni og man ég það svo vel,

að kennarinn minn í barnaskóla var mjög hrifinn af kvæðinu.

Það eitt man ég úr kvæðinu og segir;

"Greiddi ég þér lokka

við Galtará

vel og vandlega;

brosa blómavarir,

blika sjónstjörnur,

roðnar heitur hlýr."

 

Þannig var Jónas ofar öllu öðru og einnig veraldavafstri og ég tala nú ekki um ástina,

sem hann orti svo yndislega um.

Því var það að mig rak í rogastans,  þegar ég las bréf,  sem stílað var á

skólafélaga hans, Stefán Gunnlaugsson bæjar og landfógeta.

Þar leitar Jónas á náðir fógetans og biður hann ásjár í vandræðum sínum.

Fer tilskrifið hér á eftir:

Þú þekkir þessa kerlingu - Þóra heitir hún, vitlaus að ég held, og hefur brókarsótt

og situr um mig nótt og dag, úti og inni, svo ég hef aldrei frið og er hér eins og í helvíti.

Nú get ég svarið við æru mína og við guð, ef þess er krafist,  að ég hef aldrei í orði

né verki gefið henni tilefni til þessarar aðferðar, en ég hef heyrt, að meðan ég lá veikur

hafi hana dreymt ég myndi lifna við aftur,  og verða seinni maðurinn sinn.

Þetta er eins og þú sérð sjálfur óþolandi;  hún hafði hægt á sér um stund,

en er nú aftur allt í einu orðin meir en óþolandi;   ég verð að þekja fyrir gluggann minn,

svo að ég skuli ekki allan daginn þurfa að sjá í þessa svívirðulegu og

afgömlu pútuaugu. - Ég vildi þú værir stundarkorn kominn í minn stað,

svo þú gætir séð hversu réttlátt það er,

að pólitíið trassar fyrstu skylduna sína;  að vernda saklausa borgara.

Guð veit,

ég er saklaus, og hef nú orðið að þola þessa svívirðu á þriðja ár.

En þolinmæðin er þrotin;

ef ég í bræði minni rek stein eða spýtu út um rúðuna í kjaftinn á henni,  þá verð

 ég sektaður.

Þinn Jónas Hallgrímsson.


KANNSKI ÚTGERÐARMENN OG AÐRIR GETI AF KARLI DUNGANON LÆRT ?

 

 

 

Dunganon, hirðskáld St. Kilda, hörputrummu sem junni að berja
DUNGANON hirðskáld St. Kilda slær
hörputrummur.

 

 

 

 

Karl Einarsson,

 greifi af Dunganon og hertogi af St.  Kilda hefur verið um margt,

ansi skrautlegur "karakter".

Því var það, 

að ég rakst á viðtal við greifann og fór það fram fyrir rúmlega sextíu árum

síðan.

Það sem vakti mesta athygli mína var það,  hvernig lífið skyldi ganga á eyjunni

St, Kilda þar sem hann ætlaði að ríkja.

Það væri kannski ráð fyrir einhverja útgerðamenn,  eða þá sem telja sig í dag eiga

undir högg að sækja,  að þeir notuðu sér þann háttinn á,  sem hertoginn af St. Kilda

vildi innleiða,  ef menn hefðu þrekið til:

 

 

VIÐTALIÐ:

Það á enginn að gera neitt frekar en hann vill,

og þessvegna vilja nú allir komast þangað.

En þeir sem á annað borð vilja bjástra við eitthvað,  verða settir í útgerð.

Sú útgerð verður þá með alveg sérstöku fyrirkomulagi,  því ekki höfum við efni á að

tapa á aðalatvinnuvegi þjóðarinnar eins og Íslendingar.

Ég hugsa mér það þannig,  að taka tvö skip á leigu í Suður-Frakklandi og hlaða annað

með víni en hitt með ungum Parísarstúlkum.

Stúkuskipið kalla ég Hvíta skipið,  en hitt Svarta skipið.

Svo læt ég sigla skipunum norður fyrir Ísland í júníbyrjun og eiga þar skipti við

síldveiðimenn, - utan landhelgi auðvitað.

Þá verða keyptar vistir fyrir ágóðann,  skipunum lagt til næsta vors, stúlkurnar teknar

í land og haldin  veisla vetrarlangt.

Þá verður nú dansað dátt og sungið hátt á St. Kilda.

PS: Blaðamaður spyr greifann af Dunganon hvort það séu margir sem vilji flytjast til

eyjarinnar til hans og játaði greifinn því,  sagði að þúsundir manna hefðu þegar

sótt um borgararétt í hinu væntanlega ríki,  síst mundi sig skorta fólk. 

 

Hirta, St. Kilda Höfnin og yfirgefna þorpið
St. Kilda og höfnin.

 

Karl Einarsson,

eða greifinn af Dunganon og hertogi af St. Kilda var  margslungin persóna, og

áleit að lífið væri yndislegt,  ef menn væru ekki alltaf að skipta sér af því,

sem þeim kæmi ekkert við.

Hamingja hvers einstaklings væri fólgin í draumum hans og hugsun,  en ekki í þessum

taktlausa hávaða,  sem nefndur er efnisheimur.

 

Skjaldarmerki Dunganons
Skjaldarmerki Dunganons.

 

Faðir K.E. Magnús Einarss. mynd William Heinesen
Magnús Einarsson faðir Karls Dunganons.

 

 

Magnús,  faðir Karls Dunganons var úrsmiður m.a. og rak verslun.

Var hann mjög svo uppfyndingarsamur og hafði dauðann kött í búðarglugganum

sem drifinn var með úrverki og spilaði á fíólín.

 

 

 

Á miðjum aldri fór Karl Einarsson Dunganon að mála myndir og virtist það

liggja vel við þessum lífskúnstner og fagurkera.

Einnig var hann skáld gott,  þá sérstaklega á bundið mál. 

Það fullyrti hann, 

að listaverk fyrr og síðar,  væru annaðhvort sköpuð af trú,  kjarki,  eða með galdri.

Málverkasýningu hélt hann í Reykjavík árið 1961.

Það var vinur hans sem ljáði honum aðgang að hýbýlum sínum til sýningarinnar.

 

Fiskidrengurinn eftir Karl Ein.ss Dunganon
Fiskidrengurinn mynd eftir Karl.

 

Í stað þess,  að hengja myndir sínar á veggina,

þá lagði hann myndirnar á gólfið og þannig komið fyrir,  að á milli þeirra voru lagðar

"fjárgötur", 

 þannig að fólkið sem kom til að skoða myndir hans, urðu að horfa 

niður á gólfið til að njóta sýningarinnar.

Gandakallur teikn Karl Ein.
Teikning eftir Karl,  Gandakallur.

 

Apamenn og mannapar
Apar og apamenn eftir Karl Einarsson.
  


VESTMANNAEYJAR VERÐA "WISKYMANNAEYJAR" Í NOKKRA DAGA.

 

 

 

show_imageCAPFLXGJ
Þjóðhátíð í Eyjum.

 

 

 

 

Í Fylkir,

 árið 1950 segir frá því, 

 að tveir Svíar hafi þá verið hér á þjóðhátíð í

Eyjum,  blaðamaður og ljósmyndari.

Á meðan á dvöl þeirra stóð hérna í Vestmannaeyjum,

dvöldu þeir á hóteli HB  í eigu Helga Benediktssonar,  kaupmanns og útvegsbónda.

 

ÞEIM SAGÐIST SVO FRÁ:

 

Ég hafði tekið í mig kjark og boðið hýreygri fríðleiksmær í dans.

Hrífandi ómuðu tónarnir frá litlu hljómsveitinn milli hárra fjallshlíðanna og við

olnboguðum okkur ákveðin áfram milli tjaldaraðanna.

En við innganginn að danspallinum hlaut för sú sneypulegan endir.

Hranalegur vörður þreif í mig og hvessti á mig augun.

Aðgöngumiðinn að dansinum - sem kvöldið áður kostaði mig 40 krónur - var úr

gildi genginn!

Í kvöld kostaði það aðrar 40 krónur, vildi maður skemmta sér.

Heimsins dýrast dansmiði,  það veit trúa mín - en stúlkan var sannarlega þess virði.

 

Þegar aðrir Íslendingar hitta Vestamannaeying,  sýna þeir honum næstum því lotninga

kennda auðsveipni og virðingu.

Að vera Íslendingur er það besta,  sem hugsast getur, 

að vera Vestmannaeyingur

img127
Hótel HB í byggingu.

 

enn fínna.

Virðingin á ef til vill rætur sínar að rekja til þess,

að Vestmannaeyingar eru manna ríkastir á Íslandi.

Og það skilur maður,  að svo hlýtur að vera,  þegar þeir bæði taka og fá 80  Ísl,

krónur (gengi 3:15) fyrir nokkra snúninga tvö kvöld í röð.

 

Ríkastur hinna ríku er maður sá,  sem dylst bak við bókstafina "HB",  sem maður sér

hvarvetna í Vestmannaeyjum.

 

img139
Helgi Benediktsson ´heldur ræðu á 17. júní á
Stakkó.

 

Þeir eru bróderaðir á rekkjuvoðirnar í hótelinu,  þar sem maður sefur,  þeir standa á

matarílátunum í matsölinni,  þar sem maður borðar.

Maður les þá á húsveggjunum beint á móti,  þegar maður vaknar og hleypir upp

fellitjaldinu,  þeir standa á öllum dósum með niðursoðnum fiski,  á öllum bátum,

öllum bílum,  í öllum búðargluggum....  Það lítur ekki út fyrir að þarna rúmist neinn

nema þessi, 

 Helgi Benediktsson.

En þótt hann lifi eins og kóngur í ríki sínu,  hafa allir hinir 4000 undirsátar hans í

kaupstaðnum að meðaltali bestu bankainnstæðurnar í bönkum á Íslandi.

 

En hversu ríkir sem Vestmannaeyingar eru nú,

geta þeir aldrei keypt sig frjálsa.

Með árlegri afborgun geta þeir byggt sín eigin hús,  en þeir geta aldrei eignast lóðina -

öll eyjan er eign ríkisins.

 

Fiskveiðar og eggjataka eru aðalatvinnuvegirnir og Vestmannaeyingurinn er iðnari og

kemst betur áfram en landar hans.

 

 

En einu sinni á ári tekur hann sér frí og fer a.m.k.  á ærlegt fyllerí.

Þá eru Vestmannaeyjar í nokkra daga frekar

"Wiskymannaeyjar".. já,  siðurinn hélst allt frá 1874,

þegar minnst var 1000 ára frá upphafi Íslandsbyggðar.

 


TÓNSKÁLDIÐ SEM HAFÐI VIÐKOMU Í EYJUM.

 

 

 

img098
Vestmannaeyjar um miðja síðustu öld.

 Björn Th. Björnsson hefur í bókum sínum ritað eitt og annað á sínum langa ferli.

Hér segir frá einum ágætum manni sem hét,

Jón Pálsson frá Hlíð,  Eyjafjöllum:

 

 

Og svo var hann  líka,

 að sagt var tónskáld, þótt engum tækist að skilja það.

Ekkert átti hann hljóðfærið og enga hafði hann vistarveruna.

Aldrei spilaði hann og aldrei var neitt eftir hann spilað.

En tónskáld samt.

Haft er fyrir satt,  að mússikhneigð góðmenni í höfuðstaðnum hafi skotið saman

farareyrir handa þessu tónverkalausa tónskáldi til Vínar og fór þar fremstur,

 Jón Pálsson alnafni tónskáldsins,  sem þá var bankagjaldkeri,  mikill öðlingsmaður.

Segir nú sagan,  að þessir músíkölsku velgerðarmenn hafi kvatt Vínarfarann

niðurá bryggju,  og síðan skundað ánægðir til síns heima,  að hafa komið góðum

hæfileikum á göfuga braut.

Á þessum árum var það (og mjög viðsjárverður) háttur skipa á útleið,

að hafa viðkomu í Vestmannaeyjum.

Þar sem umrætt og væntanlegt tónskáld þekkti diversi kúltúrelement í staðnum

dvaldist honum þar lengur en svo að rétt áframhald yrði með skipsferðinni.

Ofan á það bætist,  að tregt var um drykkjarföng á þeim vondu árum,  jafnvel þótt

menn gengju með hundraðkalla á sér í vösunum.

Árni hét frægur rakari Böðvarsson á Bárustígnum,  og til hans fer nú Jón

(og ekki endilega í rakaralegum erindum) og biður hann að selja sér flösku af

Bayrum ( sem var þó af náttúrunnar hendi fremur ætluð á höfuðið en í).

300px-Fiski%C3%B0jan
Hér í Bárgötu 11, Bifröst var aðsetur Árna rakara Böðvarsson.
Á efri hæðinni rak hann svo billjardstofu.

 

Árni rakari rétti Jóni glasið og segir fimmkall.

Jón rétti honum á móti stóra seðilinn og Árni segir:

Ja því miður get ég ekki skipt.

Þá á væntanlegur Vínarfari að hafa sagt: - Það gerir ekkert til.  Ég smátek bara út á

það.

Síðan heldur reyfari þessi áfram á þá lund að Jóni var þrotinn farareyrinn,  en fékk

hinsvegar gratís flutning á fastalandi aftur.

Morgun einn árla á svo að hafa verið barið að dyrum hjá áðurnefndum forystumanni

útsendingarinnar og á pallinum staðið sá sem átti samkvæmt almanakinu að vera

kominn til Dónár fögru borgar og mælt við velgjörðara sinn á náttfötunum þessi orð:

-  Haldið þér,  nafni minn,  að eitthvert fúndament sé fyrir nýrri

kollektíón ?


BENNI BLAÐAKÓNGUR.

 

 

 

Benni blaðó
Benedikt Ragnarsson.

 

 

 

 

Benedikt Ragnarsson eða "Benni blaðakóngur",

 eins og við köllum hann við Fylkir, 

 er meðal duglegustu sölubarna blaðsins.

Hann er þrautseigur við söluna og hefur aflað sér talsverðar tekna með blaðasölunni,

og er meðferð þeirra til fyrirmyndar fyrir önnur börn.

Benni  er 8 ára.

 

 

Svona hljóðaði umsögn um vin minn Benedikt Ragnarsson í

jólablaði Fylkis árið 1950.

Við Benni lékum okkur oft saman,  enda báðir Lautarpeyjar.

Einhverju sinn sýndi Benni mér söluafraksturinn,  og var það nærri full, 2 kg.

sultukrukka með smápeningum.  Á þessum árum var mjög algengt að börn og

unglingar fóru um allan bæ,  og seldu bæjarblöðin,  sem útgefin voru hér í Eyjum.

S.s. Fylkir,  Eyjablaðið, Brautin, Framsóknarblaðið og Framsókn.

Stundum gekk mikið á hjá krökkunum að vera fyrstur að fá blöðin í hendur og hefja

söluna.  

Alla skólagöngu okkar, 

 í barna- og Gagnfræðaskóla vorum við Benni ávallt í sama bekk.

Enginn þekkti drenginn í daglegu tali manna,  öðruvísi en skilgreina Benedikt,

sem Benni blaðó og hélst það þannig,  ávallt.

En Benedikt féll frá langt um aldur fram,  því miður.

 

img023
Hér til vinstri má sjá Benna ásamt skólafélögunum,
Sigurði Tomm í miðið og svo Ásgeir Lýðss. til hægri.
Myndin er tekin af mér í frægu skólafeðalagi til Skotlands,
árið 1958.

 

 

 


ÞEGAR GÖLLI VALDA VAR HÁSETI HJÁ BINNA Í GRÖF.

 

 

 

300px-Binni2
Binni í Gröf.

 

 

 

Á árunum áður var lengi háseti hjá honum Binna í Gröf,

Árni Valdason, 

 eða eins og allir Eyjamenn og flestir landsmenn þekktu karl,

sem Gölla-Valda.

 

 

 

 

img138
Árni Valdason.

 

 

Einhverju sinni komu þeir á Gullborginni inn til Akureyrar með drekkhlaðið

skip af síld.

Skipshöfnin hóf nú undirbúning að losun á síldinni.

Þá skundar Árni í land.

Þegar losun síldarinnar er um það bil að ljúka,

kemur Árni til skips,  augafullur.

Benóný skipsstjóri og allir strákarnir um borð,  voru sárgramir út í Árna,

fyrir að hafa hlaupið frá skylduverkum sínum.

Binni tekur nú að átelja Árna,  þar sem hann stendur með hendur í vösunum og

blínir á félaga sína,  sem nú eru við að ljúka lönduninni.

Árni svarar átölum skipsstjórans hressilega:

 

"Einhver verður að vera í því andlega,  

 strákar"!


HART ER Í HEIMI.

 

 

 

150px-Zinnia_elegans_with_Bombus_01

 

 

Ljóst ætti að vera að mannkynið er heild,  einstaklingur ekki til án sambands við

aðra,  mannkynið allt einn óendurgreinanlegur  frumskógur af mannlegu

lífi.

Þessum staðreyndum vilja menn ekki hlíta,  hver og einn þráir að teljast eitthvað

sérstakt og togar sí og æ í sinn skanka.

Sama gildir um hverja stétt,  þjóð og menningarheild.

Þannig lítur vitleysan út:

Mér þykir sómi að því að vera ég sjálfur,  en ekki einhver annar,  vera verkamaður,

Íslendingur,  Evrópumaður.

Töluvert af mínum persónulega hégómaskap,  þessum rammgeru víggirðingum

einstaklingsins,   verður að láta undan áður ég ljæ máls á að kallast einungis maður

sem á ekkert athvarf á jörðinni annað en mannkynið í heild.

Varla þekkjast örlagaríkari mistök.

Af þessum sökum ríkir misrétti og hungur.

Og bót verður aldrei ráðin á misrétti og hungri fyrr en allir skilveggir manna á milli

hrynja fyrir fullt og allt.

Samt er engum sérstökum um að kenna.

Mistökin felast í almennum hugsunarhætti og viðhorfum.

Vart getur meiri flónsku en vera einlægt að svipast um eftir syndabukk og hegna

honum fyrir það sem miður fer.

Skekkja leiðréttist ekki með því að kinnhesta sökudólg og bætir hann harla lítið.

Og nýr ráðamaður, ný valdastétt,  ný herraþjóð dregur dám af fyrirrennaranum og

og reynist oftlega verri.

 

Villan býr heldur ekki í rangri afstöðu til annarra manna.

Hún liggur í rangri afstöðu til sjálfs sín.

Fyrir því duga hástemmdar kærleikspredikanir skammt.

Þú elskar náungann í öfugum hlutföllum við sjálfan þig.

Enda öll hin svokallaða hjálparstarfsemi um heiminn þveran og endilangan lítið annað

en kák- - eins og best sést á því að þrátt fyrir áratuga viðleitni í þá átt sýnist ástandið

yfirleitt hið sama og sumstaðar verra.

Hún virðist mestmegnis fólgin í að koma í veg fyrir að menn týni lífinu af harðrétti

svo áberandi sé.

En jafnvel það tekst báglega.

Enda leggur enginn saddur neitt á sig til að hungraður fái mat.

Fyrirfinnst sá sem dregur við sig eyðslu sem um munar í því augnamiði að gefa?

Menn gefa heldur ekki einvörðungu af umhyggju fyrir þeim sem líða skort,  þeim

finnst einnig notalegt að skreyta sig með medalíum manngæskunnar í heimi

uppgerðar og yfirborsmennsku.

Á meðan viðhorf aðgreiningar og sérgæða fá að ráða þarf enginn að ímynda sér að

hann lifi óhultur.

Fyrrum virtust Evrópa og USA ósigrandi sakir auðs og tækni.

Nú er stöðu þeirra ógnað  af dýrri orku og sundrungu heima fyrir.

Samviskan sýnist verst þar sem skilyrðin eru best.

Við skulum ekki glæpast til að halda að lönd sem áður þoldu kúgun reynist

auðsveip og mild þegar þau losna sjálf úr bóndabeygju.

Það væri að búast við meiri þroska og göfuglyndi af þeim en Evrópa hefur

nokkurtíma kært sig um að sýna.

Ekkert dugar nema bylting í huga manna.

Að öllu óbreyttu heldur mannheimur áfram að skiptast í kúgaða og kúgara, ríka

og snauða, sadda og svanga -- hvað sem líður hirðmannlegu tali um samvinnu,

frið og bróðurþel.

Á meðan er hart í heimi.

Um orsök ógæfunnar verður aldrei samið, því hún ríkir að kalla í öllum jafnt.

Það er ekki um neitt að semja.

Um annað er aldrei samið en að arðræna svolitlu minna, svelta svolitlu minna,

svelta svolitlu færri og tortíma fólki á dálítið prúðmannlegri hátt en ella

mundi -- meðan keppst er við að vígbúast,  finna upp ný drápstæki og sjá út

vélræði til að sölsa undir sig meiri völd og betri stöðu.

Þessvegna reynast fjölþjóða samningar um grið og vináttu,  lofsungnir hástöfum

af vildarmönnum höfðingja,  sama eðlis og kurteisin í Goðmundar kóngs á

Glæsivöllum þar sem bróðernið var flátt og gamanið grátt.

Samt má eigi leggja árar í bát.

Bent skal á að örlög manna tvinnast saman.

Þótt undarlegt kunni að þykja er eining mannkynsins jafnvoldug staðreynd og

sérstæðileiki einstaklingsins.

Mannkynið byggist ekki upp af ríkjum og þjóðum, heldur fólki.

Manneskjan sjálf varðar mestu.

Valdið er illt í sjálfu sér og smælinginn á réttinn.

Þetta sýnist smátt,  en það ræður

úrslitum.

                                   

  Að sjá öðruvísi. Sigvaldi Hjálmarsson.


AUÐHYGGJAN ER ÁVALLT SÖM VIÐ SIG.

 

 

 

hs001581_01
Já,  sjómennskan er ekkert grín.

 

 

Ég hefi verið að lesa góða bók,  sem ekki er lengur í mikilli umferð nú orðið,

það er ég nokkuð sannfærður um.

Bókina skrifar  Gunnar Benediktsson prestur,  útgefin 1926.

Hún er holl lesning og má segja, að það sem þar er skrifað geti átt við eigi síður í

dag en fyrir 85 árum síðan.

Þar segir á einum stað:

 

 

Kolakaupmaðurinn átti of fjár, 

 af því að hann tók meira fyrir kolin en honum bar.

Útgerðarmaðurinn var auðugur,  af því að hann borgaði of lítið fyrir framleiðsluna.

Menn keyptu hús og seldu þau ennþá dýrari.

Þeir græddu á því margar þúsundir,  en hinir urðu að greiða hærri húsaleigu.

Og þeir,

 sem keyptu of dýrt, og þeir,  sem fengu minna kaup en þeim bar,

þeir urðu fátækir og komust á vonarvöl, 

ef nokkuð bar út af.

Þá var skellt í þá einni krónu af hundruðum,  sem búið var að draga af þeim.

Og þeir áttu að þakka og lofa guð.

 

Maður spyr sjálfan sig,  hvort lesningin hér,  gæti hafa verið skrifuð fyrir

páskahelgina árið 2011,  en ekki árið 1926 ?    


PRESTAR FYRR Á TÍMUM VORU BREYSKIR MENN.

 

 

 

00003830
Tekið skal fram að þetta er ekki  prestur.

 

 

 Hugleiðing dagsins:

Í starfi mín umgengst ég ansi mikið presta í gegn um bækur,

þeir eru auðvitað ekki lifandi í dag, reyndar dauðir fyrir löngu síðan.

Sagnir þær sem um þá eru skrifaðar segja mér staðreyndir um þessa andans

menn fyrr á öldum.

Enginn skyldi taka orð mín , 

sem einhvern heilagan sannleika og sjálfsagt álíta margir,

þetta bara sleggjudóma um  prestastétt fyrri tíma.

Ekki er ég heldur á neinn hátt að reyna að níða skóinn af prestum yfirleitt,

nei, nei fjarri fer því.

Það fyrsta sem ég rek tærnar í við stutt æviágrip hinna heilögu manna,

er það hvað þeir voru drykkfelldir,  kvensamir og nenntu flestir ekki að vinna líkamlega

vinnu.

Mitt álit er að flestir prestar fyrr á tímum hafi verið alkahólistar.

Nú á dögum verða menn m.a. alkahólistar vegna góðs aðgengis að áfengi og það  

höfðu prestar áður fyrr.

Kvensemi þeirra var oft,  afleiðing af drykkju þeirra,  svipað því sem við horfum uppá

nú til dags.

Þar kom ábyggilega inn í líka,  að þeir unnu ekkert líkamlega,  vel flestir,

svo hinn líkamlegi kraftur þeirra beindist óhjákvæmilega að öðru,  kvenfólki.

Til þess aðeins að sýna fram á að ég fer ekki með algjört fleipur,

læt ég hér fljóta smá sýnishorn úr ævi nokkurra presta:

 

 

Sigurður Pétursson,  prestur  var talinn lærður,  en drykkfelldur.

Hann var talinn harðlyndur og sérlundaður.

 

Sigurður Tómasson,  prestur missti prestskap fyrir barneignir.

Hann var sæmilega gefinn, þótti allgóður ræðumaður,  háttprúður,  karmenni að

burðum og glímumaður mikill,  en drykkfelldur í meira lagi og kvenhollur.

Ráðskonu sína barnaði hann utan hjónabands.

 

Sigurður Vigfússon, prestur andaðist úr ofdrykkju.

Vel gefinn og skáldmæltur, glímumaður ágætur,  en mjög drykkfelldur.

Sigurður Ögmundsson, prestur var gáfumaður og vel að sér,  en drykkfelldur

og þá svakafenginn,

Varð bráðkvaddur við drykkju.

Þórhallur Magnússon, prestur var dæmdur frá embætti fyrir flandur við konu á

næsta bæ,  eftir kæru hennar,  og vikið frá af biskupi.

Fékk prestkallið aftur,  en skyldi lúka 40 rd. í sekt til þurfandi prestekkna.

Þorlákur Guðmundsson, prestur var dæmdur frá kjól og kalli fyrir afglöp við

sakramenti (drukkinn).

Nokkru áður hafði hann fengið uppreisn fyrir of bráða barneignir með konu sinni.

Þorlákur Hallgrímsson, prestur missti prestskap fyrir óskírlífisbrot með

vinnukonu sinni.

Hann var uppgangsmaður framan af,  en gekk miður síðar,  enda gerðist hann þá

drykkfelldur mjög.

Sú sögn er bundin við síra Vigfús Helgason,

að hann hafi í víneklu haft brennivín í stað messuvíns í kaleiknum,

og hafi kerling er  til altaris var,

mælt:

"Beiskur ertú nú drottinn minn".

Er þetta talið hafa verið árið 1638 og að prestur hafi þá í bili misst

prestkallið.

Amen eftir efninu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband