EKKI VERÐUR FEIGUM FORÐAÐ, NÉ ÓFEIGUM Í HEL KOMIÐ.

 

 

 

554059
Glitfaxi.

 

 

Jón hét maður Guðmundsson bóndi og staðarhaldari gistihússins Valhallar að

Þingvöllum.

Jón rak búskap á Brúnastöðum í Þingvallasveit.

Þar átti Kjarval listmálari athvarf í allri sinni fátækt,   á árunum um miðja síðustu öld

með fæði og húsnæði,  þegar hann var að mála.

 

Nú segir frá því,  að þessi ágæti bóndi,  sem gerði svo vel við Kjarval,  að honum

tæmdist arfur,  en bróðir hans Kjartan Guðmundsson ljósmyndari hér í Eyjum

til margra ára,  lést.

Kjartan var einhleypur og barnlaus.

 

 

Þurfti Jón nú að fara til Eyja ásamt tveimur  bræðra sinna,  að vitja um arfinn.

Því erindi luku þeir á skömmum tíma og kom að því að þeir skyldu fljúga til baka.

Áætlað var að flug yrði seinni hluta dags kl. 17.00

Þetta var 31.janúar 1951.

Þetta síðdegi, rétt áður en flogið skyldi var skollið á útsynnings bylur með fúlum

éljum. 

 

 

Annar flugmaðurinn  á Glitfaxa var sonur, Jóhanns Þorkels Jósefssonar alþ.m. okkar

Eyjamanna og var Jóhann einnig ráðherra á þessum tíma.

Gerði Jóhann tilraun til að láta loka flugvellinum hér í Eyjum,  en tókst ekki.

 

 

Bræður Jóns Guðmundssonar tóku sér far með vélinni,  en Jón sagði einfaldlega:

Mér dettur ekki í hug að fljúga í þessu veðri.

 

 

Vélin sem var af Dakota gerð og bar nafnið Glitfaxi var með 20 manns innanborðs,

sem allir fórust í slysi þessu.

 

 

En fleiri tengdust þessu ömurlega slysi og var það Ólafur nokkur Jónsson frá

Norður-Hvammi í Mýrdal,  sem einnig fórst í þessari örlagaríku ferð.

Það sérstæðasta var að Ólaf dreymdi ítrekað drauma áður en fór til Eyja,

  sem hann sagði frá:

Mig dreymdi,  að ég stóð hjá húsi og var bjart allt umhverfis mig.

Spölkorn framan við mig var kolsvartur þokuveggur.

Út úr þokuveggnum gekk vinur minn sem þá var látinn og sagði:

Jæja, Ólafur minn.

Ég er kominn til að sækja þig.

Ég sagði:

Dettur þér í hug að ég fari að ganga inn í þessa dimmu með þér?

Þá sagði vinur minn.  Þér þýðir ekkert að hafa á móti,

því ég er kominn til að sækja þig.

 

 

Ólafur þessi flaug svo til Vest.mannaeyja og frá Eyjum aftur þann 31. janúar,

örlagadaginn mikla.

Ólafur ætlaði sjóleiðina frá Eyjum en þar, sem svo vont var í sjó,

tók hann sé far með Glitfaxa.


mbl.is Glitfaxi hefur aldrei fundist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HITLER VAR ÓSKABARN Á SÍNUM TÍMA.

 

 

hitler 
Hitler og hans frauka.

 

 

 

 

 

Þegar ég sé rætt eða ritað um Hitler  kemur ávallt upp í huga mér,

spurningin;

  Hvernig gat Hitlersupplifunin orðið eins og raunin varð.

Hitler gat ekkert aðhafst án samstarfs og stuðnings,

þjállar og undirgefni milljóna manna,  það er alveg á hreinu.

Þýska þjóðin hlýtur þar að bera feiknalega ábyrgð á,   eins og helförinni.

Slíkt má einnig segja um stærri hópa,

sem kallast mennskir menn.

Það var samvitund fólksins,

sem undirbjó frjóan akur fyrir viðgang nasistahreyfingarinnar og Hitler greip

tækifærið,  en einn og sjálfur bjó hann það ekki til.

 

Mannkynið leyfði Hitler að framkvæma óhæfuverk sín  og í því

sambandi vekur það undrun mína,

hversu margir fylgdu Hitler og hans nótum,

horfðu bara á,

 eins og það að útrýma milljónum gyðinga.

 

Það dapurlega er,

að Hitler var skapaður,  ef svo má að orði komast,

af okkur mönnunum og það var ekki fyrr en seint og um síðir að veröldin komst,

að þeirri niðurstöðu,

að Hitler hafði rangt fyrir sér.

Þjóðir heims lögðu nýtt mat á hverjar þær eru,  og hverjar þær kjósa að vera og

þá fyrst fór að halla undan fæti fyrir nasistum.

Meira að segja hér á Íslandi náðu Hitlerssinnar ,

þó nokkrum tökum á okkur hérna á klakanum.

Sagt var að það fólk sem lét helst tilleiðast og sýndi það í verki,  sérstaklega í

Reykjavík,

hafi að mestu leiti komið úr röðum þeirra sem andsnúnastir voru kommúnistum.

Hér í Eyjum buðu nasista fram í einum bæjarstjórnakosningum og fengu

hálft hundrað atkvæða. 


mbl.is Lífvörður Hitlers hættur að svara aðdáendabréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GAMAN OG ALVARA FRÁ SÍÐAST LIÐINNI ÖLD.

 

 

 

544-220
Stefán Jónsson,  fréttamaður og alþingismaður.

Ég hefi ávallt haft miklar mætur á og verið aðdáandi, 

 

 Stefáns Jónssonar.

Hann var á sínum tíma kunnastur af störfum sínum við útvarpið.

Ekki skemmdi það fyrir Stefáni í mínum augum,

þegar hann gerðist alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið og var um áratug þingmaður

þess flokks.

Tillöguflutning hans í sambandi við laun í landinu,

að enginn skyldi hafa hærri laun en þreföld verkamannalaun,  fannst mér

skynsamleg tillaga,  og kannski værum við í betri málum Íslendingar í dag,

ef sú tillaga Stefáns hefði náð fram að ganga.

Stefán reit fjölmargar bækur og eru þær allar hver annarri skemmtilegri og

fróðlegar um menn og málefni síðustu aldar.

 

 

Samskipti hans og vinskapur við Sigurð nokkurn Berndsen,  sem hafði það að iðju

m.a. að lána peninga á hærri vöxtum en tíðkaðist þá, um miðja síðustu öld,

en þættu smámunir á Íslandi í dag.

 

Í einni bókinni hans Stefáns,

 segist honum svo frá,   þeim margslungna manni,

Sigurði Berndsen:

 

Hann var góður við börn og talaði blíðlega við timbraða en hann hafði alls enga

trú á framhaldslífinu.

Hann leit á þetta skrítna mannlíf sem kvittaðan reikning með þremur rekustrikum

undir,

og sagði mér þannig frá fyrstu innfærslu á sinn reikning:

- Móðir mín gekk með mig eins og hvern annan sjúkdóm sem faðir minn smitaði

hana af og hún varð því fegnust þegar henni batnaði.

Eftir það sá hún mig ekki fyrr en ég var 18 ára.

Þá kom hún til mín að fá peninga. -

Nú sagðist hann varla vita hvort hefði verið verra,

munaðarleysið eða heilsubresturinn en sitt vann á hvorum partinum og þeir voru

báðir illa farnir þegar hann kynntist góðu fólki.

 

 

Í sömu bók kemur fram,  að einn var sá maður  er lék á Sigurð og var það ekki

á allra færi.

Sá hét Björn Gíslason og þótti Sigurði hann vera gersemi og snillingur í blekkingum.

 

 

 

- Hann ( Björn Gíslason) taldi mig á að gera út með sér trillu frá Þórshöfn.

Það átti að verða stórgróða fyrirtæki.

Björn fór norður og átti að stjórna útgerðinni en ég að skaffa peningana.

Hann hafði bátsverðið með sér.

Svo fékk ég skeyti annað slagið og sendi peninga fyrir útgerðarkostnaði.

Svo fékk ég skeyti um fiskkaup.

Björn gat gert reyfarakaup í saltfiski fyrir norðan með því að borga út og ég sendi

honum peningana.

Það var snemma um vorið sem við byrjuðum og það var ekki fyrr en um haustið að ég

komst að því,

að Björn fór aldrei lengra en á Blönduós.

Hann var þar á fylleríi allt sumarið og fékk peningana bara senda þangað frá Þórshöfn

og engin trilla og enginn fiskur og alls ekki neitt.


SAMI GRAUTUR Í SÖMU SKÁL.

 

 

Ár kvíðans- Ár úrræðaleysis- Ár skatta og gjalda.

 

Hvað verður,  2011 ?

 

 

Margir Íslendingar munu fagna nýju ári,  sem nú er runnið í garð með talsverðum

kvíða.

Og, satt best sagt, getur engum manni blandast hugur um, að ef dæmt er eftir

afrekum ríkissjónarinnar og sjórnarandstöðunni, þá lofar hvorugt góðu.

 

Ríkisstjórnin hefur nálega tapað í hverri orrustu gegn stjórnarandstöðunni,

en stjórnaraðstaðan hinsvegar haft uppi einstaklega óábyrgan áróður og kúgun

gagnvart hinni ósjálfstæðu, hræddu og einstaklega rögu stjórn, sem við búum við

- en aldrei jákvæð úrræði.

 

 

 

 

Það hörmulega er, að hvorki stjórnin sjálf né hin ábyrga andstaða hafa reynt að bera

fram nokkuð jákvætt í deilum sínum um hversu ber að stjórna þessu allsnægtalandi.

 

Ríkisstjórnin hefur ekki, svo menn viti, bent á nein úrræði til að nýta þann

þjóðarauð sem til staðar er án þess að leggja á auknar byrðar.

 

 

Stjórnarandstaðan hefur hvergi bent á annað en fornar dyggðir, flestar ósannar

fremur en stjórnin,

bent á nokkuð varanlegt, sem koma myndi þjóðarbúinu á traustari og hagkvæmari

rekstrargrundvöll.

 

 

 

Sú fádæma ringulreið og hættulega skipulagsleysi hefur kostað almenning trú á

gjaldeyrir okkar, trú á stærsta stjórnmáflokkinn, trú á allt öryggi í

þjóðmálalífi okkar.

 

 

Nú þorir alþýða manna, í öllum  stéttum,

ekki lengur að byggja á loforðum ríkisvaldsins.

Í stað öruggrar viðreisnar er nú komið öryggisleysi,

jafnvel uppgjöf sumra við að halda í horfinu.

 

 

 

 

Gæti nokkur haldið öðru fram, en greinin hér á undan,  væri nýkomin frá borði

stjórnmálaskýranda dagsins í dag?

Nei, ekki alveg,  því þannig ritaði ritstjóri Mánudagsblaðsins fyrir,

nákvæmlega 46 árum síðan.

Finnst mönnum mikill munur á og er umhorfs í dag,  eða hvað, nema þá ríkti

samstjórn Sjálfstæðis og Alþýðuflokksins..

Sami grautur í sömu skál.


mbl.is Kemur ekki til greina að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GVENDUR KÍKIR.

 

 

 

Untitled
Alexei Von Jawlensky.  Höfuð. 1935.

 

 

Í flokki hinna síðustu flakkara  á landinu er Guðmundur kíkir,

en hann var Skaftfellingur að ætt og uppruna,  sem hélt sig við Suðurlandið á flakki

sínu.

 

 

Hann var stór vexti,  letilegur,  ekki svo sóðalegur fljótt á að líta,  en grálúsugur.

Talinn illmáll og flestum leiður og hafði þann ókost,  að vera þjófóttur.

Hafði hann stór gleraugu og virtist mjög nærsýnn,

og þessvegna fengið "kíkis" nafnið.

 

 

Þótt Guðmundur hafi alltaf verið landeyða og letingi,

var hann á yngri árum háseti á áraskipum.

Eitt sinn er hann réri til fiskjar,

dró hann eitt sinn þorsk,  sem misst hafði annað augað.

Víkur þá formaðurinn sér að Gvendi og spyr:

Þekkirðu þennan,  Guðmundur?

Eineygður eins og ég skilurðu svaraði karl  og er í land kom,

beið hann ekki boðanna,  tók pjönkur sínar,  gekk úr skiprúmi og sást ekki meir.

-  Mun karl aldrei hafa ráðist í skiprúm eftir þetta.

 

 

Þegar Guðmundur á flakki sínu dvaldi á bæ einum á Suðurlandi,  var honum borinn

matur,  áður en hann fór og var þar á meðal súr blóðmör,  sem þykir góður.

Þegar hann kvaddi húsbóndann sagði Guðmundur:

Ég þakka þér kærlega,  Oddur minn fyrir skemmtunina af að tala við þig  og

þægilegheitin- en ekki fyrir blóðmörin.

Hann var eins og flestir flakkarar,  nokkuð matvandur.

 

 

Sögu eina sagði hann af sjálfum sér og var hún eitthvað á þessa leið:

Einu sinni var það þar sem ég var næturgestur á bæ,  að ég gekk út nokkru fyrir

mjaltir um kvöldið og varð reikað út í fjós.

Þar hitti ég fyrir fagra konu hóf þegar við hana samræður,  sem hún tók með mikilli

blíðu.

Eftir sem á varð segir hún upp úr eins manns hljóði:

Fallegur maður ertu,  Guðmundur.

Ég svara:

Fríður hef ég aldrei verið,  en gæfusvipinn hef ég borið:

Í þeim töluðum orðum vafði ég hana örmum og settist með hana í auðan fjósbás.

Þegar unaður okkar stóð í algleymingi kemur stelpulæða í fjósdyrnar og hleypur

hrópandi út:

Mamma, mamma,  hann Gvendur er að fljúgast á við hana ömmu út í fjósi.

Það þarf að hjálpa henni,  hún hefur dottið.

Þegar ég sá hvað verða vildi,  lét ég hné fylgja kviði af miklu snarræði og sáust

engin verksumerki er að var komið.

 

 

Guðmundur kíkir lést 1928 þá rúmlega 88 ára gamall,

og lét eftir sig allmikla peninga.

                                                         Skyggnir og fleiri rit.


AÐ SUNDRA Í STAÐ ÞESS AÐ SAMEINA.

 

 

 

l_53df92a1f15a03a654914b9ae3e76f1c

 

 

 

 

Eftir lestur greinar bæjarstjórans okkar hér í Eyjum núna í morgunn á

Eyjar.net um ástandið í þjóðfélaginu í dag og hverjum augum hann lítur það, 

þá datt mér í hug ofboðlítið, 

 sem ég var að lesa um daginn og hljóðar svona:

 

 

 

 

 

 

Í hvert sinn sem við komum fram á afturhaldssaman hátt erum við að afneita því

guðlega eðli sem sem við tókum að erfðum.

Sál okkar  tekur þá á ný að leika hinn gamla leik afturhaldsseminnar og hindrar

Ljósið

í að streyma fram.

Á myndrænan hátt má segja að einu klæði sé fleygt yfir ljós lampans.

Lífið gerist dimmara.

 

 

 

 

 

 

 

 

Minnstu þess alltaf að jákvæðir þættir okkar byggjast ekki á hvort við kveikjum

eða slökkvum á Ljós-rofanum.

Ljósið kviknar aðeins þegar við berum kennsl á,  upprætum og umbreytum

afturhaldssömum og neikvæðum persónueinkennum okkar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvert og eitt okkar hefur yfir að ráða mætti til að gæða líf sitt fullnægju með því að

umbreyta eðli sínu.

Þegar nógu mörg okkar hafa náð því stigi,

mun heimurinn verða gagntekinn af  ótrúlegu magni

Ljósstreymis.

                                                                          Máttur KABBALA.


AÐ VERA ALVEG HLUTLAUS !

 

grammofonstor

 

 

Fyrir margt löngu, 

 þegar ég var  lærlingur í húsasmíði hjá vini mínum og jafnaldra,

Kristni Baldvinssyni þá voru oft á tíðum miklar og snarpar umræður um landsins gagn

og nauðsynjar.

Á þessum sama tíma voru einnig lærlingar hjá Kidda,  þeir Hreiðar Hermannsson faðir

Hemma fótboltamanns,  svo og var Valur Oddson kenndur við Dal,  en hann stendur  

við Kirkjuveginn.

Mér hefur oftar en ekki orðið hugsað til orða Vals í Dal frá þessum árum,

því hann hélt því fram að sá eða sú,

sem væri innanbúðar  í Hvítasunnusafnaðinum, væri í KR,  Oddfellow og ekki hvað síst

í Sjálfstæðisflokknum,

væri á grænni grein í lífinu.

Ekki er ég frá því að Valur hafði margt til síns máls á þeim árum,  eða fyrir rúmum

 40 árum síðan,  en í dag er staðan nokkuð önnur,  allavega hjá flestum þessara

samtaka dagsins í dag.

 

Töluvert hefur fjarað undan t.d. eins og Sjálfstæðisflokknum og ráðleggingarnar hans

Hauks pressara um það,  að best væri að ganga í Flokkinn og vera hlutlaus,  því það  

væri ómögulegt að standa í þessu.

Auðvitað er það svo, 

og gildir um alla stjórnmálaflokka í dag,  að enginn þeirra hefir að geyma eina einustu

persónu,  sem hefur að leiðarljósi einhverjar hugsjónir,

nema það eitt,  að skara eld að sinni köku og sinna nánustu, 

því miður.  

 

Ennþá virðist óhætt að vera innanborðs hjá Betel-söfnuðinum,  að minnsta kosti

meðan þeirra prelátar hafa stjórn á höndum sínum,

nema til eins,  það er niðurdýfingum þeirra sem frelsast.

 

Oddfellow hreyfingunni kann ég lítil skil,  nema það eitt að þar sé gott að vera félagi

og þá helst eftir að maður er dauður,  maður fær fría útför!

 

Kr-ingur er ekkert orðinn merkilegri,  en t.d. ÍBV-ari,  því veldi þeirra með

Björgólf í broddi fylkingar gufaður upp eftir hrunið.

 

Sem sagt,  

 nú er sennilega best að vera bara venjulegur Íslendingur, sem

er alveg hlutlaus og án tengsla við Sjálfstæðisflokkinn, Betel,  Oddfellow,

eða þá KR!


KOMINN HEIM TIL VESTMANNAEYJA..

 

 

show_image 
Bloggari tekur fyrstu skóflustungu Knattspyrnuhússins 2007.

 

 

 

Sæl verið þið nær og fjær og gleðilegt nýtt ár!

 

Þá er ég loksins kominn á gamla Frón aftur og það sem meira er,

 til Vestmannaeyja.

Dagurinn í dag var sérlega ánægjulegur,  því dag var Knattspyrnuhúsið formlega tekið  

í notkun.

Í gær kom ég til landsins úr notalegheitunum í Orlando Florida,  16-25 gráðu hita

í algjörlega andhverfu þess,  3 gráðu frost og hvassviðri  í Keflavík.

Það lá við að mér féllust hendur,  þegar út úr Leifsstöð kom,

svo mikill var munur blíðunnar á Florida og illveðursins,  

sem tók við komuna til Íslands.

Á leið okkar í Herjólf var snjófjúk á Heiðinni og svo ryk og grjóthríð,

þegar við nálguðumst Landeyjarhöfn.

Þreytan eftir 30 tíma vöku og ferðalag frá Orlando með millilendingu í New York og

svo Herjólfur, 

 gátu ekki komið í veg fyrir þá sælu tilfinningu að komast að lokum,

heim til Vestmannaeyja.

Ennþá er ég þreyttur, 

 þrátt fyrir að hafa sofið 18 tíma eftir að ég kom heim,

 svo ég læt þessar línur nægja í bili,

 auðvitað verð ég svo með eitthvað bitastætt úr Ameríkuferðinni,

seinna meir.


mbl.is Nýtt fjölnota íþróttahús vígt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KVEÐJA TIL ALLRA, KVENNA OG KARLA NÆR OG FJÆR.

 

 

 

img190

 

Gott fólk.

Nú þarf ég að bregða mér af bæ.

Óska öllu gleðilegra jóla og farsældar

á nýju ári.

Lifið heil


ENN AF SKÁLDUM OG ÞINGMÖNNUM.

 

 

 

img146
Meistari Þórbergur Þórðarson.

 

 

Ég man svo langt,

að miklar vonir voru bundnar við tvo unga og manni virtist ferska menn 

fyrir nokkrum árum.  Þeir reyndu að hasla sér völl á hinu hála svelli í pólitíkinni

  bæði hjá flokksmönnum sínum, svo og öðrum sem álitu að einhver töggur

væri í þessum,

þá ungu og myndarlegu mönnum.

Nei,  því miður ekki alveg,

því þeir hafa valdið miklum vonbrigðum og engan veginn staðist þær væntingar,

sem menn bundu við þá.

Aftur á móti hafa þeir reynst,  sannkallaðir rugludallar og glamrarar í pólitískri

umræðu,

  þó ekki þurfi langt til þess að jafna. 

Kannski má því segja að leifar ómarkvissrar uppfræðslu í bland við tornæmi komi  

 glöggt fram hjá þeim,

sem telja sig sjálfkjörna til ábyrgðar og forræðis á alþingi okkar Íslendinga í dag.

Þannig að við sitjum uppi með þingmenn,

sem flestir eru aðeins meðalskussar og illa það?

 

 

Á sínum tíma,  þegar meistari Þórbergur var ungur maður,

virðist hann hafa séð brotalöm, sem þá var í uppfræðslu unga fólksins og hafði

 því þetta, 

 að segja :

 

 

Hverju sætir það,

að við erum aldrei uppfrædd í að vinna bug á veikleika okkar,

að sigrast á óttanum,  hatrinu,  hræsninni,  undirlægjuskapnum,  sorginni,

öfundsýkinni,  drottnunargirninni?

 

Og áfram heldur Þórbergur:

Væri ekki öllu gagnlegra að kunna að staga saman vefnaðargallana í eigi

upplagi  en að eyða tímanum í að hlaða sig einhverju andvana þrugli,

um saumnálasmíðar í Englandi.

 

Já,  svo sannarlega mælist Þórbergi vel og ætti að vera okkur öllum

Íslendingur til alvarlegrar íhugunar.  


mbl.is Vísar ásökunum þingmanns á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Þorkell Rúnar Sigurjónsson

Höfundur

Þorkell Sigurjónsson
Þorkell Sigurjónsson
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...196_1252211
  • ...056_1245763
  • ...002_1245762
  • ...d_1_1245761
  • ...002_1245245

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband