Færsluflokkur: Dægurmál
21.11.2009 | 18:56
TRYGGVI ÞARF HVORKI HÁRKOLLU NÉ GÖNGUGRIND, TIL AÐ SKORA MÖRK !
Í Dagblaðinu í s.l. viku er skemmtilegt spjall við Tryggva Guðmundsson,
knattspyrnumann.
Eins og allir landsmenn vita er hann nýlega genginn til liðs við
okkur Eyjamenn í fótboltanum.
Enginn þarf að velkjast í vafa um það, að reynslubolti sem Tryggvi er,
verður ÍBV-liðinu mikill styrkur næsta sumar.
Ég vona svo sannarlega að Tryggvi sé búinn að fyrirgefa bloggara
þessarar síðu það, þegar hann kallaði inn á völlinn í síðasta leik,
ÍBV og FH á Hásteinsvelli í sumar,
"að göngugrindin biði hans við hliðarlínuna".
Satt best að segja, þegar Tryggvi kom úr atvinnumennskunni og
gekk til liðs við FH og átti stóran þátt í því, að reysa það lið úr
öskustónni,
þá gerði ég mér vonir um, að hann kæmi aftur til liðs við ÍBV.
Kannski varð ég svolítið sár, að hann skyldi frekar kjósa
Gaflarana, en það að koma til Eyja, því auðvitað var mér og öllum vel
ljóst, hversu mikill liðsstyrkur var í honum.
Þegar Tryggvi var hér áður fyrr með ÍBV, var unun að fylgjast með
honum og mörkin sem hann gerði voru í öllum regnbogans litum og
og ávallt er mér minnistæður leikur hér á Hásteinsvelli,
þegar leikmenn ÍBV gerði átta mörk gegn Val,
en í þeim leik gerði Tryggvi eitt það stórkostlegasta mark,
sem ég hefi séð hann,
eða nokkurn annan gera.
Í dag er ég glaður,
því eins og hann sjálfur segir,
"þótt hárið sé það eina sem er farið,"
þá sé hann í fanta fínu formi og ætli sér að skora mörg mörk fyrir
ÍBV,
næsta sumar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2009 | 18:11
ÞEGAR GÖLLI VALDASON STAL SENUNNI !
Frásögnin sú arna er úr bókinni "Skáldað í skörðin"
eftir hann Ása í Bæ.
Eitt skemmtilegasta leikævintýri sem ég hef lent í,
var þegar Gölli stal senunni án þess að vera í leikritinu.
Þetta var á stríðsárunum og vorum við Valli frændi beðnir um,
að redda skemmtiþætti á sjómannaballi.
Ramminn var sá, að tveir sjómenn sátu á þjóri og ræddu málin,
tóku lagið, síðan skyldi sá eldri deyja af drykkjunni og sá yngri aka
honum út í hjólbörum.
Við sminkuðum okkur óþekkjanlega settumst í stellingar og síðan var
tjaldið dregið frá.
Þetta var í Samkomuhúsinu og þéttsetinn bekkurinn.
Á borðinu hjá okkur stóð brennivínsflaska,
og ef satt skal segja var í henni dágóð blanda af viskí.
Ekki höfðu við lengi röflað þegar hurð opnaðist og inn á sviðið stígur
óboðinn gestur, Gölli Valdason.
Hann gengur rakleiðis til okkar og tekur upp peninga og segist vilja fá
miða, hann ætli nefnilega á ballið eins og aðrir sjómenn.
Við þetta óvænta atriði bregður svo við að allt verður vitlaust í hlátri.
Áheyrendum fannst heyrilega afskaplega sniðugt að við skyldum velja
Gölla með í grínið og stórhrifnir hvað hann lék eðlilega.
Ég hafði gaman af þessu og segi við gestinn:
Hvað helvíti ertu fínn og það var satt, það var óvenjulegt að sjá
Göllann uppábúinn.
Já auðvitað segir Gölli maður tjaldar því sem til er.
En haldir þú, að ég hafi stolið þessu frá honum Freymóði, þá er það
ekki rétt,
hann Jóhann Þ. minn á Tanganum gaf mér þetta til uppbótar á
sumarhýruna!
Svona gat Gölla tekist upp, þegar hann var í stuði.
Freymóður var fógetafulltrúi (seinna sýslumaður),
besti drengur, en datt stundum í það eins og fleiri góðir menn og átti
þá til að fækka fötum á ólíklegustu stöðum - og Jóhann Þ. var vissulega
ekki talinn með gjafmildari mönnum.
Salurinn ætlaði að rifna úr hlátri.
Göllinn dregur upp brennivínsflösku og dengir á borðið hjá okkur -
við súpum allir á.
Snögglega verður hann þess var að ekki er allt með felldu,
horfir fram í myrkvaðan salinn og segir:
Hver er að hlæja - segir þetta svo eðlilega sem mest má vera og ekki
minnkar hláturinn við það.
Nú gengur hann fram á sviðsbrúnina og grillir þá í fólkið, snýst á hæli
til okkar, öskuvondur og segir:
"Eruði að leika, helvítin ykkar," - og er rokinn á dyr, gleymdi meir að
segja flöskunni í fússinu.
Í mannaminnum hafði enginn leikari fengið aðrar eins viðtökur,
þetta hlaut að hafa kostað gífurlega æfingu,
eða var Gölli eftir allt fæddur leikari?
Það var reynt að klappa snillinginn fram en hann var horfinn og
sýnilega uppgötvað að hann hafði fari dyravillt.
Við Valli frændi héldum svo áfram með þáttinn okkar.
Nú voru flöskurnar orðnar tvær og við röfluðum og supum óspart á
og lopinn teygður út í drykkjuraus þar til um síðir að við mundum eftir
lokaatriðinu og ég náði í hjólbörurnar.
En Valli var orðinn svo þéttur að mér ætlaði aldrei að takast að koma
honum í farartækið og þegar loks ég fór af stað var ég sjálfur orðinn
svo fullur,
að börurnar ultu og við lágum báðir afvelta á gólfinu.
Þá loksins hugkvæmdist einhverjum gæfumanni að
fella tjaldið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2009 | 18:11
AÐ TEFLA Á TÆPASTA VAÐ ?
Áður fyrr hér í Eyjum,
þegar þeir sem hérna bjuggu urðu að hafa öll spjót úti til öflunar
viðurværis var eitt úrræðið, að fara í fýlaferðir,
en flugfýllinn, (ungur fýll) þótti mikið búsílag, bæði kjötið og feitin í
bræðing.
Aldrei var fiður haft í sængurfötum á þrifnaðarheimilum því svo sterk
var lyktin af því.
Að mestu fór fýlatekjan fram með sigi í björg og þóttu fýlaferðir mikil
tímamót, þegar kom að þeim í byrjun september.
Fólk hér í Eyjum taldi þær svo mikilvægar, að jafnvel afmælisdagar og
dánardægur voru miðuð við það.
Um tíma, eða um það bil á seinni hluta nítjándu aldar kom upp svo
kölluð "fýlaveiki" og voru þá fýlaveiðar bannaðar.
"Fýlaveiki" eða páfagaukaveiki, sem komst í fuglinn var talin hafa
borist frá Suður-Ameríku frá skipum með páfagauka innanborðs.
Nú er þessi bjargræðisvegur Eyjamanna með öllu úr sögunni.
Að mestu stuðst við sagnir S.M.J.
Þegar bloggari var peyi í sveit fyrir rúmlega hálfri öld síðan hjá honum
Magnúsi Þórðarsyni, Neðradal Mýrdal var það árviss viðburður,
að farið var í tvær, þrjár ferðir í "Gilið" að ná í flugfýl.
Áður fyrr var sigið eftir fýlsunganum í Mýrdalnum eins og í Eyjum,
en var löngu aflagt, þegar ég var í sveitinni.
Að fara inn í gil var langur og strangur gangur en eftir því miðju rennur
Hafursá, sem er jökulá og á upptök sín í Mýrdalsjökli.
Bloggari og Óli Tótu ný komnir úr fýlaferð
innan úr Hafurságili.
Flugfýllinn sem við tókum kom frá bergveggjum Gilsins og oft var það
freisting hin mesta, að vaða "ánna" og ná til þeirra, sem hinum
megin settust.
Þorsteinn bóndi Eystra-Skagnesi veður hér Hafursá,
en á þessu svæði er áin aðeins í skóvarpi.
Hafursáin er víða illfær yfir að fara vegna dýptar straumþunga
og kulda, en samt fór maður yfir á hinn bakkann eftir nokkrum "lákum"
og hætti við það lífi sínu.
Einhverju sinni, stuttu eftir að bloggari var ekki lengur vinnumaður
í Neðradal kom ég þangað í heimsókn, en þá var góður "peyi"
orðinn vinnumaður (sendill?) þar.
Fórum við félagarnir inneftir Gilinu og náðum slatta af flugfýl.
En bloggari síðunnar varð að sýna peyjanum úr Eyjum hversu
kaldur karl hann væri og óð út í ána með hrífuskaft að vopni.
Þegar út í miðja ánna var komið náði vatnið mér í mitti og
straumþunginn gífurlegur,
svo mikill að hrífuskaftið hrökk í sundur og allt á bólakaf, ég og þrír
"lákar" féllu þarna í ánna.
Tóta greyinu varð svo mikið um, þegar hann sá mig falla í ánna og
hverfa við næstu bugðu hennar,
að hann féll algjörlega saman og taldi það víst,
að ég væri týndur og tröllum gefinn.
En betur fór en á horfðist því ég krafsaði mig í land og birtist vini
mínum honum Þórarni í heilu lagi sigri hrósandi,
en rennandi blautur og kaldur.
Sjonni bílstjóri í fýla- ferð inni í Hafurságili.
Eftir vel heppnaða ferð eftir fýl inn í Hafurságil.
Frá vinstri Viktor Sigurjónsson, Guðjón Sæmundsson bóndi Stóra-Dal
og svo Þorsteinn bóndi Jónsson Eystra-Skagnesi, Mýrdal.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.11.2009 | 18:59
LÉTT SPJALL VIÐ FÉLAGA LENÍN.
Síðast, þegar ég var í Rússlandi (reyndar hefi ég nú aðeins verið
þar einu sinni ) átti ég því láni að fagna, að hitta fyrir
félaga Lenín, en eins og alþjóð veit var hann fyrsti leiðtogi
Sovétríkjanna.
Bloggari síðunnar og félagi Lenín.
Þegar ég rakst á Lenín var hann að koma frá grafhýsi sínu,
sem staðsett er á Rauða torginu, en þar liggur hann árið um kring
hreyfingarlaus og hefur reyndar gert það undanfarin 92 ár.
En einu sinni á ári hverju, þá helst i kring um byltingarafmælið
7. nóvember lætur hann það eftir sér að rétta úr sér og væta á sér
kverkarnar með eins og einum öllara.
Það sé ákaflega þreytandi að liggja grafkyrr allan ársins hring í
grafhýsinu, en það eina sem heldur frá honum leiðindum,
er að hann fær fréttir frá öllum heimshornum beint í eyrun og meira að
segja, án skoðunar stjórnvalda.
Að hann, (Lenín) gerir mér þann heiður að spjalla við mig í nokkrar
mínútur er að hans sögn sú, að ég sé
ærlegur kommúnisti frá Íslandi, eins og hann orðaði það.
Það liggur beinast við að spyrja Lenín hvaða álit hann hafi á,
að kommúnisminn leið svo hljóðlega undir lok?
Eins og þú veist Keli minn, þá voru það bölvaðir skussar, sem ríktu
hér eftir minn dag sem settu allt í strand.
Fyrstan skal nefna hann Stalín, sem lét drepa allt sem hreyfðist og
hina sendi hann í Gúlakið.
Nú, svo komu þeir hver af öðrum og allir voru þeir óalandi og óferjandi
eins og Krússef, Bersnef, Kosigín og þeir hinir busarnir.
En það sem réð úrslitum um fallið var það, að hlusta ekki á gagnrýni og
lúta ekki eftirliti af hálfu almennings í landinu.
Meðan verkamenn voru ekki frjálsir að því, að kjósa sé hlut og láta
í ljósi val sitt, hvorki sem framleiðendur né neytendur,
þá er framleiðslan firrt mannlegum þáttum og verður órum og
spillingu skriffinnskubáknsins að bráð.
Sósíalisminn verður þá fyrst starfhæfur að ríkið,
sem hefur yfirstjórn framleiðslunnar með höndum, sé sjálft undir
eftirliti samfélagsins.
Endalokin voru þess vegna ekki umflúin og kom það í hlut hans
Gorba og "Nómenklatúrunar" (yfirvald og forréttindafólk innan
kommúnistaflokksins), sem ráku síðasta naglann í kistu
Ráðstjórnarríkjanna.
Að launum fékk "Nómenklatúran" að skipta á milli sín helstu eignum
ríkisins, m.a. olíunni og bönkum landsins og varð þess valdandi,
að eldra fólk sem átti nokkra rúblur í banka misstu allt sitt í gin
þessara nýju lénsherra, sem komu í stað Komúnistaflokksins.
Lenín þú varst fyrst í þessu spjalli, að segja mér, að þú fengir fréttir
allstaðar að úr heiminum og þessvegna langar mig að forvitnast,
hvaða álit þú hefur á pólitíkinni heima á Íslandi?
Lenín brosir sínu ísmeygilega brosi og segir, að íslenskir
stjórnmálamenn séu engir hugsjónamenn lengur, öðru máli hafi gengt,
þegar þeir Einar Olgeirsson og Ólafur Thors voru og hétu.
Núna í dag eru menn í pólitík aðeins fyrir sjálfan sig og allir eru þeir
andlausir moðpokar, hafa engar kraft eða hugsjónir að leiðarljósi,
þannig að meðalmennskan er allsráðandi hjá þeim.
En Lenín, hvað með eins og Sjálfstæðisflokkinn?
Allir þingmenn hans eru hálfgerðir "sykurpúðar" og formaðurinn algjör
liðleskja.
Hann er bara svipur hjá sjón miðað við hann Davíð Oddsson,
sem vel hefði getað sómt sér vel í Kommúnista flokknum okkar
á árunum áður, segir Lenín og glottir.
Vinstri Grænir og Framsókn virðast mér vera sami grautur í sömu skál
og formenn þessara flokka minna mig á "Kúlakkana"(efnaðir bændur
fyrr á tímum í Rússlandi).
Lenín, en hvað um Samfylkinguna og þeirra lið?
Hann brosir háðslega um leið og hann segir:
Þeir verða aldrei alvöru jafnaðarmenn því þeir eins og flestir aðrir
stjórnmálamenn í dag, sem
hugsa fyrst og síðast um rassinn á sjálfur sér og auk þess er
erfitt að taka nokkurt mark á þessum flokki sem kennir sig við
jafnaðarstefnu.
Jæja Keli minn, nú get ég ekki lengur dvalið lengur frá vinnunni
minni og verð því miður að fara að leggja mig í grafhýsinu.
Þú skalt ekkert láta þér bregða þó Kremlarbændur fari í það á
næstunni,
að hola mér niður undir sex fetum hérna við hliðina á andskotanum
honum Stalín.
Svo vinsæll hefi ég verið undanfarin áttatíu ár hérna í grafhýsinu,
að núverandi stjórnendur óttast mátt minn og megin,
þrátt fyrir að vera ekki lengur þessa heims.
En með það sama var Lenín rokinn á braut og var ekki að sjá að hann
sé orðinn eitthundrað og fjörtíu ára gamall.
Bloggari fyrir framan dvalarstað félaga Leníns við Rauða torgið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2009 | 18:28
Á MILLI LANDS OG VESTMANNAEYJA Á SÍÐUSTU ÖLD.
Þar sem nú nálgast óðfluga sú merkilega stund, að fólks og
vöruflutningar milli Eyja og lands verði orðin staðreynd er ekki úr vegi,
að birta hér mynd af því, þegar bloggari síðunnar tók land í
Landeyjarfjöru fyrir nákvæmlega 62 árum síðan.
Umræðan í sumar einkenndist mjög af því hver hefði orðið fyrstur,
að taka land í ófullgerðri höfn við Landeyjarsand.
En í dag fækkar þeim óðum sem sigldu með Skaftfellingi og tóku land
í Landeyjarfjöru á litlum árabáti og má segja að þar hafi bloggari
þessarar síðu öðlast fyrsta sætið í keppni, að landtöku við
Bakkafjöruna.
En þannig var þetta, þegar bloggari fór ásamt móður sinni til lækninga
á því herrans ári 1947.
Í dag þætti þetta nokkuð frumstæður ferða máti, en svona var þetta
þá og sennilega fáir sem gerðu sér hann núna að góðu.
Og nú ætla ég með lesandann ennþá lengra aftur í tímann,
eða 1905 þegar afi minn, Þorkell Guðmundsson sem lengi var bóndi
að Markarskarði Hvolhreppi, hvernig hann og allir þeir fjölmörgu,
sem komu hingað á vetravertíð til Eyja.
Afi minn Þorkell Guðmundsson ásamt dóttursyni sínum, Viktori Sigurjónssyni
og er myndin tekin 1936.
Afi minn flutti hingað til Vestmannaeyja, ásamt dóttur sinni
Önnu Guðrúni (móðir bloggara síðunnar) árið 1929,
en þá var hún 17 ára gömul.
Anna Guðrún Þorkelsdóttir ásamt syni sínum Viktori Sigurjónssyni
árið 1937. Takið eftir hártískunni á þessum tíma!
Eins og áður sagði fer hér frásögn Þorkels afa míns skráð af
Einari Sigurðssyni (Einari ríka) í riti hans "Gamalt og nýtt" frá árinu
1950 á flutningi fólks og vörum milli lands og Eyja:
Vorið 1905 rétt um lokin fékk Þorkell áraskipið Frið, sem hann hafði
róið á á vertíðinni sem var þá nýlokið og fékk skipið leigt
til landferða.
Hann fór þá með allan vertíðarhlut sinn á skipinu, þorskinn mestmegnis
saltaðan, 8 þorskhausabagga, því allir hausar voru hirtir,
2 anker af lýsi, hrogn í pokum, ýsu, keilu, steinbít og annan ruslfisk,
sem einu nafni var nefndur "tros"
Leigan var 25 krónur fyrir 4 ferðir.
Í fyrstu ferðinni voru 32 menn með fyrir utan fasta skipsmenn.
Voru þetta vertíðarmenn, sem höfðu verið úti í Eyjum um veturinn.
Greiddi hver maður krónu fyrir farið upp.
Halldór í Álftarhóli var fenginn sem formaður í þessar ferðir.
Siðastu ferðina fóru þeir ekki nema 5 út í Eyjar og var það
hin síðasta ferð Friðs, því skipið var orði gamalt og á þessum tíma
voru vélbátar að ryðja sér til rúms í
Vestmanneyjum. Geta má um það til gamans, að þessa vertíð
orti Erlendur Árnason frá Gilsbakka vísur um skipverja.
Afi minn var mikill neftóbaksmaður og þess vegna varð þessi vísa til:
Í austurrúmi á ölduskúmi
situr Þorkell,
flestra fyrirtak,
fjarska óspar á neftóbak.
Nokkuð sýnis mér að blessaður karlinn hann afi minn
hafi farið með nokkurn hagnað út úr leigu og flutningi í
Landeyjar sand á síðustu öld.
Dægurmál | Breytt 3.11.2009 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2009 | 18:42
FLEIRA ER AFLAÐ EN FISKJAR.
Í bók Haraldar Guðnasonar fyrrum bókavarðar hér í Eyjum,
"Öruggt var áralag" er fróðlegur og um leið skemmtilegur þáttur um
Sigurð Ingimundarson frá Sjaldbreið.
Sigurður var lengst af formaður þann langa tíma sem hann réri til sjós
og var ávallt mjög aflasæll, enda harðduglegur og fylginn sér.
En fleira var aflað en fiskjar og segir nú Sigurður okkur frá þeim þætti
úr lífi sínu:
Það þótti eigi tiltökumál, þótt sjómenn fengju sér hressingu nokkra
þá er hlé varð á slarksömum sjóferðum.
Laust eftir aldamótin 1900 var hætt að selja vín í
verslun Bryde í Eyjum.
Þess var krafist af frammámönnum hérna, að vínsölu yrði hætt.
Verslunarskipin sem komu við hér í Eyjum á leið sinni til Reykjavíkur
frá útlöndum urðu stundum eins of fljótandi vínbúðir.
Sigurði formanni í Skjaldbreið þótti gott að fá sér í staupinu öðru hvoru,
þótt ekki væri hann óhófsmaður.
Eitt sinn kom skip að utan og lagðist á ytri höfnina og fór þá Sigurður á
bát sínum og leggur að skipshlið,
gengur um borð og á nokkur kaup við skipsmenn.
Voru það tíu flöskur í poka og kostaði hver flaska eina krónu,
en þetta var prima-vara.
Tveir lögregluþjónar voru útverðir réttvísinnar í Eyjum.
Eitt sinn höfðu þeir fundið tvo væna kúta fulla af víni í kjallara Sigurðar
og höfðu á brott með sér.
Saknaði Sigurður kúta sinna og hét því, að réttvísinnar þjónar skyldu
ekki hafa erindi sem erfiði í næsta skiptið.
Nú er þar til að taka, að Sigurður kemur að landi úr kaunskipinu.
Er þá ekki aldeilis tómhentur, karlinn.
Gengur hann upp bryggjuna með poka sinn og skimar út undan sér,
eins og honum væri ekki um það gefið, að sumir yrðu ferða hans varir.
En þá kemur lögreglan í opna skjöldu og tjáir honum að hún taki í sína
vörslu í laganna nafni poka þann,
er hann sé með á bakinu, en síðar svari hann fyrir sínar gerðir hjá
réttum aðilum.
Sigurður brá við hart, lætur sem sér líki stórilla, að varningur hans
er upptækur gerður.
En þá er lögregluþjónarnir voru horfnir með feng sinn, heldur Sigurður
sem skjótast til báts síns og sækir annan poka, fer með hann án
nokkurra hindrana.
Bragð það sem Sigurður lék við verði laganna var það,
að hann hellti sjó á tíu flöskur með vínmiðum og bjó um sem vandlegast.
Pokann með þessum tíu flöskum fór hann með upp úr bátnum
hið fyrra sinn.
Ef að líkum léti mundi hann staðinn að verki og gripinn glóðvolgur,
sem og varð.
Allt fór samkvæmt áætlun, pokinn með bannfærðum vökvanum
tekinn og farið á brott með hann og fyrirkomið á öruggari geymslustað
en kútunum forðum.
Sigurður Ingimundarson, Sjaldbreið.
Dægurmál | Breytt 2.11.2009 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2009 | 15:24
VESTIÐ HANS KJARVALS.
Kjarval kvað hafa komið að máli við við konu þá, sem gerir hreint hjá
honum og beðið hana að útvega sér prjónavesti.
Konan spurði, hvort hún mætti ekki sjálf prjóna fyrir hann vesti,
og tók Kjarval því feginsamlega.
Skömmu seinna kom konan með vestið, og spurði þá Kjarval hvað það
kostaði.
Ekki kvaðst konan geta selt honum þetta, því að hann hefði sér svo
margan greiðan gert um dagana.
Ekki vildi þó Kjarval fallast á þennan kaupskap og bauð konunni að velja
sér þá einhverja mynd, sem hér væri inni, en úr mörgu var að velja.
Konan kaus sér litla mynd er lét lítið yfir sér,
en var forkunnarfögur.
Kjarval færðist í fyrstu undan að afhenda konunni þessa mynd,
því að hér væri um margar stærri og verðmeiri myndir að ræða.
En er konan sat við sinn keip, lét hann þó til leiðast og afhenti henni
myndina. - en þess verður að geta um leið,
að að þessa mynd var lyfsali í Reykjavík nýbúinn að kaupa og borga
háu verði, þó að hann hefði ekki komið því í verk að koma henni heim til
sín.
Svo fór konan með myndina sína, en Kjarval smokraði sér í nýja vestið
og skundaði út í Reykjavíkur Apótek,
kemur að máli við Apótekarann, stingur þumalfingrum í
vestishandveginn, dregur djúpt andann og segir:
Hvernig líst þér á þetta vesti?
O, ætli það hafi ekki kostað 10 krónur, svarar lyfsalinn og fannst fátt
um flíkina.
- Nei, þetta er dýrasta vesti í heimi.
Það kostaði 1200 krónur, og þú borgaðir það,
svaraði Kjarval og gekk á brott.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2009 | 17:24
DAGUR ÚR LÍFI MEISTARA ÞÓRBERGS.
Nú um sinn er að okkur Íslendingum vegið og eru lífskjör
með daprasta móti hjá alþýðu manna árið 2009.
Til samanburðar þá svarf mjög að almenningi á þessu landi,
árið 1915 vegna lífskjarahruns og var meistari Þórbergur Þórðarson
þar engin undantekning.
Dagur úr dagbók hans, 17. nóvember 1915:
Nú er komin helvítis votviðraátt. Hún á illa við mig.
Ég er oftast skólaus og alltaf rennblautu í lappirnar, ef deigur dropi
kemur úr lofti. Ég get eigi sagt að ég hafi verið þurr í fætur í 5 ár.
Guð minn góður, hvar lendir þetta?
Og ég hefi ekki haft efni á að láta þvo nærfötin mín síðan í ágúst
í sumar.
Síðan hefi ég gengið í sömu görmunum.
Utanyfirfötin eru orðin svo skítug og rifin, að ég skammast mín að
koma fyrir almennilega menn. En engan útveg sé ég.
Nú hefi ég gengið svo að segja á sokkunum í viku.
Megnustu nálykt leggur af rúmfötunum, þegar þau hitna á nóttinni.
Stundum verð ég að sitja í myrkri vegna olíuleysis.
Oft liggur mér við að örvænta.
Ég er að reyna að brjóta mér leið til menntunar og þekkingar
og vil verða sannarlega nýtur maður.
En helvítis lífið og mennirnir, sem ég á saman við að sælda fara
með alla góða ásetninga mína.
Þeir ljá mér ekki orðabók, sem eiga þær, þótt mér sárliggi á og geti
ekki lesið vegna bókaleysis.
Það hefi ég sannreynt.
Ég er að sökkva.
Heilsa mín er á förum, þótt ég geri allt sem ég get, til þess að halda
henni við, svo með líkamsæfingum, böðum o.fl.
Mér líður aldrei vel, nema þegar ég er nývaknaður á morgnanna
ef ég hefi þá sofið vel yfir nóttina; en á því vill verða brestur.
Mennirnir eru mér vondir og ég er heldur ekki heldur góður við þá og
margt má auðvitað að mér finna.
Mér finnst ég vilji deyja.
Ég get varla lifað lengur; hefi enga gleði af lífinu, þegar ástæðurnar
ræna mig rósemi og næði,
rífa mig og tæta í sundur og draga mig niður í sorpið.
Kannski má segja,
að vandi okkar í dag sé léttvægur
miðað við þær aðstæður alþýðu manna fyrir
nítíu og fjórum árum síða?
Bati í augsýn um mitt ár 2010 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2009 | 18:59
Ó, PRÓSENT, GRÓÐI, GRÓÐI OG GULL Í SPARISJÓÐI VESTMANNAEYJA.
Þegar ég var ungur og las
bráðskemmtilega bók um hann Bör Börsson jr. sem sagði það,
að peningar væru æðstu gæði á þessari jörð og enginn hlutur annar
gæti gert manninn eins glaðan og sælan og þeir.
Það var hans æðsta markmið í lífinu frá blautu barnsbeini að
eignast stóra bankabók -- bankabókin væri besta bókin í
heiminum.
Þetta varð einskonar "mottó" fyrir marga og því miður fyrir þann sem
þetta ritar.
Byrjunin var sú að "við" tveir ungir menn ætluðum okkur stóra hluti
á braut "höndlunar" og nú fóru í gang allskonar þreifingar til útvegunar
á vörum í umboðssölu m.a.- Það gekk á ýmsu en allt tosaðist það í
rétta átt.
Þá var það að útvega húsnæði fyrir "forretninguna" og varð að ráði,
að talað var við bæjarstjórann í Eyjum sem þá var árið 1963, hann
Jóhann Friðfinnsson. Hann var allur að vilja gerður og sagði það
guð velkomið mál, að við fengjum að vera á jarðhæð
Templarahallarinnar (nú Bæjarleikhúsið) með því skilyrð,
að við hreinsuðum glerbrotin úr gluggum hússins, en eins og elstu
menn muna var búið að glerja Templarann, en brjóta allt gler og
glerbrotin ein eftir.
Því lofuðum við bæjarstjóranum og lenti það verk að öllu í minn hlut.
Þá var bara að flytja inn og skýra "forretninguna" og fékk það ágæta
nafn, HNOTAN s/f.
Nú gerðist það eins og hjá honum Bör að heildverslunin gekk með lífi og
fjöri, - hvert vöruhlassið kom af öðru - ölkassar, smjörlíki, sælgæti,
hreinlætisvörur,
álegg allskonar, saltkjöt í tunnum, reykt folaldakjöt í hundraða kílóa
vís og meira að segja þorskanet.
Ekki þótti nóg að gert með allt þetta, heldur var fest kaup á gamalli
kaffibrennslu vél frá Akureyri.
Hún gekk nokkuð vel eins og annað það sem við tókum okkur fyrir
hendur til að láta draumana rætast um stóra bankabók.
Svo langt náði þetta að sérhannaðar umbúðir voru gerðar af
Sigmundi teiknara og má sjá hérna sýnishornið.
Mann varð að ráða í verkefnin, sem nú voru orðin ærin og pantað
höfðum eitt tonn af kaffibaunum beint frá Brasilíu.
Ekki vildi nú betur til en svo hjá nýráðnum starfsmanni okkar,
að eldur varð laus í hisminu sem kemur við brennslu baunanna og
vélin skemmdist það mikið að ekki borgaði sig að gera við.
Ekki gáfust upp hinir trúu sporrekendur Bör Börssonar jr.
Nú var ekkert sem dugði minna en gerast smásalar einnig og var
í skyndi gerð kaup á verslanahúsnæðinu,
Faxastíg 35, sem ný hýsir kvenfélagið Líkn.
Það húsnæði var fokhelt en eldmóðurinn stoppaði ekkert hina nýju
"Böra".
Nokkra mánuði tók það skrifara og þann sem við réðum núna,
Lýð nokkurn Brynjólfsson kennara Iðnskólans til að koma
húsnæðinu í nothæft ástand.
Ég hugsa með hlýhug og ánægjulegs sumars, þegar við Lýður
unnum hörðu höndum að frekari upphafningu okkar ungu félaganna
til efstu hæða "Mammons"
Allt gekk þetta eftir og verslunin sett á koppinn, sem fékk nafnið
"Bláfell" og sú nýlunda tókum við upp, að afgreiða mjólkurhyrnur
með vörunum sem pantaðar voru og sendar vítt og breytt um bæinn.
Salan var góð í þessu nýja afsprengi gróðahyggjunnar,
en einhvern tíman hlaut að koma að skuldardögum fyrir allt þetta
brambolt.
Og einn góðan veðurdag hrundi allt eins og spilaborg.
Sá sem þetta ritar var í fimm ára með skuldahalann á eftir sér,
þrátt fyrir að vinna miklið, sem þá bauðst í Ísfélagi Ve. Ótakmörkuð
vinna og mikil laun sem öll, eða nærri öll fóru í að greiða
fyrir árin þrjú, sem áttu að færa okkur félögunum
auð og undralönd.
Dægurmál | Breytt 28.10.2009 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2009 | 17:59
HÉR ER KENNARI, UM KENNARA, FRÁ VESTMANNAEYJUM.
Kennarar við Barnaskólann í Eyjum talið frá vinstri: Óþekktur, Þórarinn Magnússon, Arnþór Árnason og Friðrik Pétursson.
Það eru að nálgast sex tugir ára síðan bloggar síðunnar var í
barnaskólanum í Vestmanneyjum.
Mín fyrstu spor á menntabrautinni voru í 1 bekk A undir skeleggri
leiðsögn aðalkennara míns, Þórarins Magnússonar veturinn 1949 og
fram á vor.
Þegar í annan bekk var komið var Páll Steingrímsson minn
aðalkennari og einnig í fimmta og sjötta bekk.
Páll var þá ungur enn og sagði okkur fræknar sögur af sjálfum sér og
þá sérstaklega þegar hann var í Kanada. Hann barðist við óargadýr
og það sem mér þótti einna merkilegast,
hann spældi egg á brennheitri gangstéttinni í borginni sem hann dvaldi í.
Einhverju sinn man ég eftir því, að við fengum heimsókn í bekkinn okkar
sjálfan menntamálaráðherra Íslands,
Bjarna Benediktsson.
Páll Steingrímsson ungur enn. Baksvipurinn á Vali Oddsyni frá Dal og svo Guðlaug Ólafsdóttir. Myndin tekin í Stafnsnesi 1954 og var þá fimmti bekkur þar á skemmtigöngu.
Páll var afbragðs kennari, líflegur og lífsglaður og þótti mér ávallt mjög
vænt um hann.
Friðrik Pétursson var minn aðalkennari í þriðja og fjórða bekk hann var
vandaður og nákvæmur í sinni kennslu.
Hjá honum reyndi ég fyrst fyrir mér í leiklistinni, þegar bekkurinn
gekkst fyrir leiksýningu fyrir jólin og minnir mig að það hafi verið tengt
jólahátíðinni.
Arnþór Árnason kenndi mér eitthvað lítillega og man ég helst eftir hvað
krakkarnir létu illa hjá honum,
því hann var meinlaus og góður maður og tók ekki hart á
ólátabelgjunum í bekknum.
Karl Guðjónsson kennari, bæjarfulltrúi og alþingismaður. Arnþrúður
kona hans og tvær dætur þeirra, Sunna og Harpa.
Hjá Karli var ég í söngtíma sem kallaður var og var ég lítt hrifinn
af þeirri iðju þar sem ég var vita laglaus.
Það man ég frá árinu 1953 í aðdraganda alþingiskosninga,
að faðir minn bað mig að bera út dreifimiða undirrataðan af Halldóri
Kolbeins sóknarpresti.
Dreifimiðinn innihélt yfirlýsingu frá sóknarpresti, að Karl hefði aldrei
jarðað barn sitt í kirkjugarðinum og notað til þess kolaskóflu.
Óábyrgur aðili hélt þessu fram um Karl í rituðu máli.
Þannig var nú pólitíkin í þá daga.
Að lokum kemur svo hann Kjartan Ólafsson kennari og konan hans,
Sigríður Bjarnadóttir.
Ekki man ég eftir því hvað Kartan kenndi mér, en hann var ávallt
ljúfur og góður maður.
Má segja í lokin, að við Vistmannaeyingar áttum
einvalalið kennara fyrir hálfri öld síðan.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Þorkell Rúnar Sigurjónsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- ibvfan
- fosterinn
- maggibraga
- solir
- georg
- gretaro
- sigthora
- kjartanvido
- eyglohardar
- rustikus
- svenko
- eyjapeyji
- kokkurinn
- valdivest
- disin
- smarijokull
- kristleifur
- gudnihjoll
- sjonsson
- nautabaninn
- prakkarinn
- bergen
- icekeiko
- asthildurcesil
- joiragnars
- hallarut
- annabjo
- jensgud
- jonaa
- svarthamar
- kaffi
- stormsker
- olinathorv
- zunzilla
- gbo
- steinibriem
- siggith
- ea
- svanurg
- tannibowie
- valdimarjohannesson
- martasmarta
- gullfoss
- elnino
- sunna2
- thjodarskutan
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar